Stórfjölskyldan Samankomin í sjávarböðunum á Húsavík á sjötugsafmæli Hlaðgerðar.
Stórfjölskyldan Samankomin í sjávarböðunum á Húsavík á sjötugsafmæli Hlaðgerðar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Egill Þórir Einarsson er fæddur 25. febrúar 1948 í Reykjavík og fyrstu árin bjó hann m.a. við Fríkirkjuveg hjá ömmu sinni og afa. „Árið 1950 fluttist fjölskyldan til Mexíkó, þar sem faðir minn starfaði sem framkvæmdastjóri hjá Canada Dry…

Egill Þórir Einarsson er fæddur 25. febrúar 1948 í Reykjavík og fyrstu árin bjó hann m.a. við Fríkirkjuveg hjá ömmu sinni og afa. „Árið 1950 fluttist fjölskyldan til Mexíkó, þar sem faðir minn starfaði sem framkvæmdastjóri hjá Canada Dry gosdrykkjaverksmiðjunni, og bjó þar um þrjú og hálft ár og var orðinn altalandi á spænsku.“

Eftir heimkomuna fluttist fjölskyldan á Hagana í Vesturbæ Reykjavíkur og gekk Egill í Miðbæjarskólann og Melaskólann, síðan Hagaskóla. „Á þessum árum fór ég í sveit sex sumur að Bólstað í A-Landeyjum þar sem ég undi mér vel og varð eftir það sveitamaður í mér. Einnig vann ég með skóla í fiskbúðinni á Dunhaga hjá Halldóri Sigurðssyni sem er fyrirmynd fjölskylduföðurins í Djöflaeyju Einars Kárasonar.“

Egill fór síðan í eitt ár í Menntaskólann á Akureyri en síðan í Menntaskólann í Reykjavík og tók þaðan stúdentspróf árið 1968. Eftir stúdentspróf hóf hann nám í verkfræði við Háskóla Íslands en síðan nám í efnaverkfræði við Norges Tekniske Högskole í Þrándheimi þaðan sem hann útskrifaðist sem verkfræðingur árið 1974 með umhverfisfræði sem aukagrein. „Í Noregi lærði ég að meta gönguskíði og langferðir að vetri til milli „hytta“ og var orðinn hálfgerður Norðmaður eftir fimm ára dvöl þar. Kominn af sjómannsættum fór ég á togara tvö sumur og haustið 1972 eftir veiðitúr með Neptúnusi sigldum við með aflann til Cuxhaven þaðan sem ég hóf þriggja mánaða bakpokaferð um Evrópu sem endaði á Krít í Grikklandi. Þar varð ég innblásinn af hippa-hugsjón þess tíma og varð það upphaf að áhuga mínum á umhverfismálum og því að lifa í sátt við náttúruna.“

Eftir heimkomuna hóf Egill störf hjá framleiðslueftirliti sjávarafurða og starfaði svo hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Iðntæknistofnun, Vinnueftirliti ríkisins og Hollustuvernd ríkisins (síðan Umhverfisstofnun). Auk þess starfaði hann í framleiðslufyrirtækjum, fyrst Sjóefnavinnslunni á Reykjanesi árin 1985-88 og síðar hjá Kísiliðjunni við Mývatn árin 1994-97. „Árin á Mývatni voru dýrmæt einkum fyrir börnin sem upplifðu þar mikilvæg uppvaxtarár og tengdist fjölskyldan sveitinni sterkum böndum. Eftir kynni og samstarf við Baldur Líndal efnaverkfræðing vaknaði áhugi minn á nýtingu jarðsjávar á jarðhitasvæðinu á Reykjanesi og var það driffjöðurin í mörgum verkefnum mínum síðar.“

Egill stofnaði ásamt Birni Eiríkssyni og Hannesi Jóhannssyni fyrirtækið Agnir sem þróaði aðferðir til að koma í veg fyrir útfellingar kísils við vinnslu jarðsjávar á Reykjanesi með orkunýtingu í huga. Einnig vann hann að rannsóknum á jarðsjónum með nýtingu hans til iðnaðarframleiðslu steinefna í huga. Hann stofnaði ásamt Helga Sigurjónssyni fyrirtækið Arctic Sea Minerals (ASM) árið 2012 sem hefur síðan unnið að þróun og framleiðslu Lífsalts úr hafsjó og jarðsjó. „Segja má að Lífsaltið hafi orðið mér hugsjón um 20 ára skeið. Þar er um að ræða afurð sem unnin er úr hreinasta sjó í veröldinni sem hefur síast í gegnum þykk hraunlög og er laus við mengunarefni sem eru í hafinu. Lífsaltið er unnið með einkaleyfi ASM með aðferð sem varðveitir öll snefilefni sjávar í sömu hlutföllum og er í mannslíkamanum. Auk þess er ofneysla á hefðbundnu matarsalti orsök fjölda sjúkdóma og Lífsaltið er svar við því.“ Egill var lektor við tæknifræðinám Keilis/HÍ á Ásbrú í Reykjanesbæ á árunum 2011-2017. Hann hefur ritað grein um eiginleika kísils í jarðhitavatni (Geothermics, 1989) og einnig fjölda blaðagreina um umhverfismál á síðustu árum.

Helstu áhugamál Egils eru fjallgöngur og skíðaganga, tónlist og svifvængjaflug og var hann í stjórn og kjarna Útivistar á 9. Áratugnum. Hann starfaði einnig sem fararstjóri hjá Útivist um 10-15 ára skeið og einkum í fjalla- og jöklaferðum. Ferðir á Hvannadalshnjúk eru orðnar 15 talsins og árið 1992 fór hann ásamt 3 félögum 10 daga ferð yfir Vatnajökul frá austri til vesturs. Einnig hefur hann klifið fjöll erlendis svo sem Weissmies í Ölpunum (4.000 m) og Elbrus (5.600 m) sem er hæsta fjall Evrópu. Á námsárunum í Noregi vaknaði áhugi á mótorhjólum og varð það upphafið að mótorhjólaferðum innanlands í Noregi og síðar 2 vikna ferð frá Kaupmannahöfn suður Þýskaland og til baka gegnum Frakkland, Belgíu Holland.

Áhugi á götuhlaupum vaknaði um fimmtugt og hefur Egill síðan verið meðlimur í Skokkhóp Grafarvogs. Hann hefur tekið þátt í keppnishlaupum alla tíð síðan og m.a. hlaupið tvö maraþonhlaup og tvisvar farið Laugavegshlaupið. Hann er meðlimur í Hjálparsveit skáta í Garðabæ og í Fisfélagi Reykjavíkur. Hann hefur sungið í fjölda kóra svo sem Pólýfónkórnum, Kór Langholtskirkju, Fílharmóníukórnum, Kammerkór Mosfellsbæjar og er nú meðlimur í Karlakór Grafarvogs. Hann fór í gítarnám á fullorðinsárum og stundaði síðar söngnám hjá John Speight.

„Hlaðgerður eiginkona mín er af bænda- og skáldaættum frá Sandi í Aðaldal í Þingeyjarsýslu. Við höfum komið okkur upp afdrepi í landi Sands þar sem við höfum fengið útrás fyrir þörf til að tengjast landinu. Þar er risið húsið Skuld, sem flutt var frá Húsavík, með viðbyggingu og er áfangastaður allrar fjölskyldunnar þar sem hægt er að una sér við skógrækt, matjurtarækt, silungsveiðar eða njóta náttúrunnar.“

Fjölskylda

Eiginkona Egils er Hlaðgerður Bjartmarsdóttir, f. 13.7. 1951, sérkennari. Þau eru búsett í Grafarvogi í Reykjavík. Foreldrar Hlaðgerðar voru hjónin Bjartmar Guðmundsson, f. 7.6. 1900, d. 17.1. 1982, bóndi og alþingismaður frá Sandi í Aðaldal, og Hólmfríður Sigfúsdóttir, f. 25.7. 1911, d. 16.10. 2010, húsmóðir frá Múla í Aðaldal. Þau bjuggu að Sandi í Aðaldal og síðar í Reykjavík

Dóttir Egils með Hólmfríði Gunnlaugsdóttir, f. 28.1. 1959 er 1) Salvör Egilsdóttir, f. 27.2. 1985, flugmaður hjá Icelandair, búsett á Álftanesi. Maki: Dagbjartur Einarsson, f. 24.4. 1985, flugmaður hjá Icelandair. Börn þeirra eru Bríet, f. 8.9. 2010, Vigdís, f. 7.2. 2016 og Einar Egill, f. 5.5. 2020; Börn Egils og Hlaðgerðar eru 2) Einar Bjartur Egilsson f. 8.3. 1988, píanóleikari og kennari, búsettur í Reykjavík, og 3) Guðrún Agla Egilsdóttir, f. 29.6. 1991, arkitektanemi, búsett á Kanaríeyjum. Maki: Hafsteinn Helgi Halldórsson, f. 4.3.1987, athafnamaður. Börn þeirra eru Dís, f. 14.11. 2015, og Emilía, f. 20.9. 2018. Stjúpbarn Egils og dóttir Hlaðgerðar er Hafrún Eva Arnardóttir, f. 24.8. 1973, næringarfræðingur og kennari. Fv. Maki hennar er Haraldur Pétursson f. 9.9.1974, og börn þeirra eru Kolfinna Ósk, f. 15.8. 2004 og Kristófer Pétur Örn, f. 24.7. 2009.

Systkini Egils eru María Einarsdóttir, f. 29.10. 1945, lyfjafræðingur og menntaskólakennari, Kópavogi; Þórunn Sigríður Einarsdóttir, f. 24.2. 1950, félagsráðgjafi, Reykjavík; Sigurður Einarsson, f. 10.8. 1953, tónlistarfræðingur og framkvæmdastjóri, Reykjavík, og Margrét Herdís Einarsdóttir, f. 11.6. 1961, ferðamálafræðingur og nuddari, Garðabæ.

Foreldrar Egils voru hjónin Einar Egilsson, f. 18.3. 1910, d. 28.3. 1999, verslunarmaður og innkaupastjóri hjá Rarik, og Margrét Herdís Thoroddsen, f. 19.6. 1917, d. 23.4. 2009, viðskiptafræðingur og deildarstjóri hjá Tryggingastofnun ríkisins. Þau voru búsett í Reykjavík.