Samstaða Fjöldi fólks mótmælti við sendiráð Rússlands í gær.
Samstaða Fjöldi fólks mótmælti við sendiráð Rússlands í gær. — Morgunblaðið/Eggert
Borgarráð hefur samþykkt einróma að taka upp vinaborgarsamstarf við borgina Lvív í Úkraínu. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fundaði í gær með Andrí Sadóví, borgarstjóra Lvív, í gegnum fjarfundarbúnað og ræddi þar um aukið samstarf borganna í…

Borgarráð hefur samþykkt einróma að taka upp vinaborgarsamstarf við borgina Lvív í Úkraínu. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fundaði í gær með Andrí Sadóví, borgarstjóra Lvív, í gegnum fjarfundarbúnað og ræddi þar um aukið samstarf borganna í tilefni af því að ár var í gær liðið frá upphafi innrásar Rússa.

Í tilkynningu Reykjavíkurborgar kemur fram að borgarstjórarnir hafi fyrst rætt saman skömmu eftir innrásina, en borgarstjórn Lvív hafði þá skorað á Reykjavíkurborg að slíta vinaborgarsamningi sínum við Moskvu, höfuðborg Rússlands, sem varð úr 1. september.

Dagur tilkynnti Sadóví um þá ákvörðun borgarráðs í gær að taka upp vinasamband við Lvív og var fréttunum tekið með mikilli ánægju. Borgirnar vinna nú saman að vinaborgarsamningi sem lagður verður fyrir borgarráð til staðfestingar.

Dagur segir í tilkynningunni að það hafi verið ótrúlega áhrifaríkt að kynnast hugrekki og staðfestu Úkraínumanna frammi fyrir árásarstríðinu. Í Lvív hefði íbúafjöldi nánast tvöfaldast og Sadóví borgarstjóri ynni að því hörðum höndum að koma upp endurhæfingarmiðstöð fyrir slasaða almenna borgara og hermenn. Dagur sagðist finna til ábyrgðar gagnvart því að leggja grunn að langvarandi og góðu vinaborgarsamstarfi borganna tveggja. „Við stöndum með Úkraínu.“