— Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bryndís Loftsdóttir er framkvæmdastjóri Bókamarkaðarins og þetta er tíunda ár hennar í því starfi. „Þessir ríflega 6.000 titlar eru nýtt met, þannig að það er orðið nokkuð þröngt hérna. Þetta er mikil hátíð og óhætt að segja að það sé bókaveisla í Laugardal,“ segir hún

Bryndís Loftsdóttir er framkvæmdastjóri Bókamarkaðarins og þetta er tíunda ár hennar í því starfi. „Þessir ríflega 6.000 titlar eru nýtt met, þannig að það er orðið nokkuð þröngt hérna. Þetta er mikil hátíð og óhætt að segja að það sé bókaveisla í Laugardal,“ segir hún.

Á þessum stóra markaði eru borð merkt eftir efni þeirra bóka sem þar má finna og í ár má líka sjá þar tilvitnanir sem tengjast ástinni. „Í fyrra vorum við með tilvitnanir úr Íslendingasögum á öllum merkingum og settum þá upp borð með bókum sem tengjast fornsögunum,“ segir Bryndís. „Á síðasta ári voru átta af mest seldu þýddu skáldverkunum einhvers konar ástarsögur, en þær eru að koma sterkt inn á kostnað glæpasagna. Þá fékk ég þá hugmynd að setja upp hér á markaðnum borð með ástarsögum. Það féll eiginlega strax um sjálft sig vegna þess að ég sá fyrir mér að allir höfundar og allir útgefendur myndu koma til mín með sínar bækur og fullyrða að í þeim fyndist ást. Það er nefnilega þannig að í öllum góðum bókum er ást í einni eða annarri mynd. Þannig að það er engin ástarbókauppstilling á markaðnum en þar má hins vegar finna 77 tilvitnanir um ástina.“

Bryndís valdi tilvitnanirnar úr bókinni Þúsund ástarspor sem Ísak Harðarson þýddi. Þá bók er reyndar ekki að finna á markaðnum því hún er uppseld.

Spurð hvort hún hafi séð breytingar á sölu á þeim árum sem hún hefur haft umsjón með markaðnum segir hún þær ekki miklar: „Það selst alltaf mjög mikið af barnabókum, alls kyns handbókum og fræðibókum og svo er fólk að grípa með sér skáldverk í kilju, það er minni sala á innbundnu bókunum. Fólk er að kaupa fyrir sjálft sig og þá verður kiljuformið frekar fyrir valinu.“

Hún segir mikið um að fólk komi með börn og leyfi þeim að velja sér nokkrar bækur. „Það er gaman að fylgjast með börnunum því þau vanda sig svo mikið við valið. Það er líka skemmtilegt hvað fólk dvelur hérna lengi, er auðveldlega í tvo til þrjá klukkutíma, hér er líka opið til klukkan níu öll kvöld og einstaklega notaleg stemning í húsinu þegar tekur að rökkva. Margir eftirminnilegir karakterar koma árlega, kaupa mikið og maður er farinn að þekkja þá með nafni.“

Íslenskar þýðingar erlendra skáldverka eru áberandi á markaðnum í ár og telja hátt í þúsund titla. „Þróunin undanfarin ár hefur verið sú að íslenskir höfundar hafa átt sviðið í aðdraganda jólanna en á bókamarkaðnum njóta þýdd skáldverk meiri vinsælda. Ætli hlutfall þýddra skáldverka hér á markaðnum sé ekki 60 prósent glæpasögur, 25-30 prósent samtímabókmenntir og 10-15 prósent klassísk verk. Ég vildi gjarnan geta boðið fleiri klassísk verk, titlunum fjölgaði þó eitthvað í ár og ég vona að eftirspurn aukist einnig þannig að grundvöllur skapist fyrir útgáfu fleiri öndvegisverka.“