Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Falið er nafn í fyrstu línu. Farinn að vaxa á höfði þínu. Sveimar um nætur silfurbjartur. Svo er hann dágóður kökupartur. Guðrún Bjarnadótttir leysir gátuna með þeirri skýringu, að…

Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Falið er nafn í fyrstu línu.

Farinn að vaxa á höfði þínu.

Sveimar um nætur silfurbjartur.

Svo er hann dágóður kökupartur.

Guðrún Bjarnadótttir leysir gátuna með þeirri skýringu, að „lúsíferar“ sé latínusletta sem þýðir að bera ljós:

Máni Svavars músíserar.

Máni vex á stöku haus.

Máni á lofti lúsíferar

og lyst á kökumána gaus.

Þá er það lausn Helga R. Einarssonar:

Fram kom Máni í fyrstu línu.

Fægður máni á höfði þínu.

Sveimar máni um himinhvel.

Hálfmáninn æ bragðast vel.

Harpa á Hjarðarfelli leysir gátuna svona:

Mannsnafnið er Máni sem hér bíður.

Máni ber um lítinn skalla vott.

Bjartur máni um heiðan himin líður.

Hálfmáni er sætabrauðið gott.

Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna þannig:

Máni er nafn á manni einum.

Máni á höfði þér dylst ei neinum.

Máninn lýsir í myrkri bjartur.

Máni er líka flatkökupartur.

Þá er limra:

Freygerður, frúin hans Mána,

sem fór upp á jökulgjána

og síðan kom ei,

sagði: „ó, key,

hann finnst, þegar fer að hlána“.

Síðan er ný gáta eftir Guðmund:

Veðrahrollur í mér er,

aldan hrín við klett og sker,

kári blæs og byltir sér,

býsna þung er gáta hér:

Höfuð sinnar ættar er.

Afar mikið siglutré.

Bráðfeitt kjöt til boða þér.

Blómaskraut á velli sé.

Þessar limrur fylgdu lausn Helga R. Einarssonar:

Ekkert má nú

Adam í Eden var

og Eva var líka þar,

hann á 'ana leit

í eplið svo beit,

erótískt kærustupar.

Minnimáttarkennd

Mikið er Nína mín nýtin,

nægjusöm kona og skrýtin.

Hún elskar sinn mann,

það er mig, ég er hann,

meðaljón, pínulítinn.