Herprestur biður fyrir úkraínskum hermönnum í Donetsk í vikunni.
Herprestur biður fyrir úkraínskum hermönnum í Donetsk í vikunni. — AFP/Yasuyoshi Chiba
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar Rússar réðust inn í Úkraínu gerðu þeir ráð fyrir að ná Kíev á sitt vald og lama úkraínska herinn á tíu dögum, setja síðan hernámsstjórn yfir landið og innlima það loks í Rússneska sambandsríkið sex mánuðum síðar

Þegar Rússar réðust inn í Úkraínu gerðu þeir ráð fyrir að ná Kíev á sitt vald og lama úkraínska herinn á tíu dögum, setja síðan hernámsstjórn yfir landið og innlima það loks í Rússneska sambandsríkið sex mánuðum síðar. Ljóst er að þessi upphaflega hernaðaráætlun mistókst gjörsamlega. Eftir það hafa þeir einbeitt sér að landvinningum í suður- og austurhluta Úkraínu, en þótt þeir hafi innlimað fjögur svæði með formlegum hætti hafa þeir ekki fulla stjórn á neinu þeirra.“

Þetta segir Valur Ingimundarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, spurður hvernig hann meti stöðuna í stríðinu í Úkraínu nú þegar eitt ár er liðið frá innrás Rússa í landið.

Eins og mál hafa þróast segir Valur litlar líkur á að Rússum takist að ná undir sig stórum svæðum annars staðar í Úkraínu; þeir hafi ekki hernaðarburði til þess, ekki síst vegna vopnasendinga vestrænna ríkja til Úkraínu. Því virðist stefna Rússa ganga út á að þreyta Úkraínumenn með stöðugum árásum og halda landsvæðum sem þeir hafa hernumið.

Hafa undirbúið gagnsókn

„Úkraínumenn hafa undirbúið gagnsókn, en það fer eftir því hvernig þeim tekst að verjast árásum Rússa hvort þeir ná að endurheimta fleiri landsvæði á næstu mánuðum. Mannfall þeirra er mikið – og ef þeir þurfa í auknum mæli að reiða sig á óreynda varaliðsmenn mun það draga úr hernaðarmætti þeirra. Þótt talið sé að Rússar hafi misst fleiri hermenn á einu ári en Bandaríkjamenn í öllu Víetnamstríðinu hefur það hefur ekki haft nein áhrif á það grundvallarmarkmið þeirra að halda hernaðinum áfram. Því er mikil óvissa um framvindu stríðsins og hvenær og hvernig því lýkur,“ segir Valur.

Hann segir engan vafa á því að hernaðargeta Rússa hafi verið ofmetin og þeir hafi gert mörg hernaðarmistök. Ekki megi þó gleyma því að minnstu munaði að upphafssókn þeirra tækist þar sem megináherslan var lögð á að ná Kíev á sem stystum tíma, en innrásinni hafi ekki verið nægjanlega vel fylgt eftir með því að ráðast á stjórnstöðvar úkraínska herins og önnur mikilvæg hernaðarmannvirki sem Rússar höfðu nákvæmar upplýsingar um. Þetta gerði, að mati Vals, að verkum að úkraínski herinn náði vopnum sínum í krafti allsherjarherkvaðningar og síðan með hernaðarstuðningi vestrænna ríkja.

„Flestum ber saman um að úkraínski herinn hafi staðið sig mun betur á vígvellinum en búist hafði verið við. Þetta er „allsherjarstríð“ þar sem allt samfélagið hefur verið virkjað undir forystu Selenskís forseta, sem hefur gegnt lykilhlutverki í andstöðu Úkraínumanna, þótt Rússar geti reitt sig á stuðning í austurhéruðum Úkraínu,“ segir Valur.

Tilvistarstríð við Vesturlönd

Er til einhver málamiðlun? Það er lausn sem Úkraína gæti sætt sig við og lausn sem Rússland gæti sætt sig við. Eða myndi það alltaf þýða of mikla eftirgjöf af hálfu annars aðilans?

„Ekkert bendir til þess að Rússar ætli að láta af hernaði sínum í Úkraínu eða draga herlið sitt til baka. Pútín dregur upp þá mynd að hér sé um að ræða tilvistarstríð við Vesturlönd, en á sama tíma heldur hann því fram – með rökum sem sverja sig í ætt við ný-nýlendustefnu – að Rússlandi geti gert tilkall til Úkraínu af sögulegum ástæðum. Engar hugmyndir um málamiðlanir hafa komið fram sem auka líkur á friðarviðræðum. Úkraínumenn hafa sagst ætla að endurheimta öll landsvæði sem Rússar hafa lagt undir sig, þar á meðal Krímskaga. Og Rússar vilja halda öllum þeim svæðum sem þeir hafa „innlimað“ og jafnvel fleirum.“

Valur bendir á, að Henry Kissinger, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem var á móti því að Úkraína fengi aðild að NATO áður en innrásin hófst, hafi skipt um skoðun í ljósi þess að landið þurfi á einhvers konar öryggistryggingu að halda eftir að stríðinu lýkur. Hann hafi lagt til að vopnahlé verði samið á grundvelli stöðunnar eins og hún var fyrir innrás Rússa, sem þyrfti þó ekki að vera forsenda fyrir friðarsamningum.

Skiptar skoðanir

„En á Vesturlöndum eru skoðanir skiptar; þótt mikið sé rætt um að Úkraínumenn „verði að vinna stríðið“ túlka sumir það svo að Úkraínumenn komist ekki hjá því að gefa eftir land, einkum Krímskaga. Aðrir telja hins vegar að það eigi að senda Rússum skýr skilaboð um að vestræn ríki séu reiðubúin að styða Úkraínumenn svo lengi sem þeir þurfa á aðstoð að halda. Ef vestrænir ráðamenn neyða Úkraínumenn til að hefja friðarviðræður mundu Rússar setja fram hámarkskröfur og gera aðeins tilslakanir til málamynda áður en þeir héldu hernaðinum áfram síðar.“

Að áliti Vals endurspeglar þessi skoðanamunur ólíkar áherslur meðal vestrænna ríkja varðandi Úkraínustríðið. Þjóðir eins og Þjóðverjar og Frakkar hafi veitt Úkraínu hlutfallslega minni hernaðarstuðning en Bandaríkjamenn, Bretar, Pólverjar og Eystrasaltsþjóðirnar. Þrátt fyrir það hafi vestræn samstaða haldið – og ástæðan kunni að vera að sú að svigrúm hafi verið gefið fyrir rökræður um álitamál eins og vopnasendingar. „Bandaríkjamenn og aðrar vestrænar þjóðir eru vitaskuld einnig meðvitaðar um stöðu Rússlands sem kjarnorkuveldis.“

– Hafa líkur á beitingu kjarnorkuvopna aukist eða minnkað?

„Sú ákvörðun Pútíns að hætta að virða ákvæði Nýja START-samningsins um takmörkun langdrægra kjarnorkuvopna, sem hann tilkynnti í stefnuræðu sinni sl. þriðjudag, þarf ekki að koma á óvart í ljósi þess hve samskipti Rússlands og Bandaríkjanna eru slæm. Þó verður að taka fram að Rússar hafa ekki dregið sig út úr samningnum. Yfirlýsingin sem slík hefur ekki aukið líkur á því að kjarnorkuvopnum verði beitt í Úkraínu. Og það mundi án efa hafa mikil áhrif á ríki eins og Kína, sem hefur stutt Rússa, að fordæma innrásina grípi Pútín til þess ráðs.“

Verulegt áhyggjuefni

Valur segir að Nýi START-samningurinn nái ekki til skammdrægra kjarnorkuvopna eða vígvallarvopna sem mest hætta stafi af í stríðum eins og í Úkraínu. Reyndar hafi ekki verið taldar miklar líkur á að það tækist að gera nýjan samning eftir að Nýi START-samningurinn rennur út árið 2026, ekki aðeins vegna ástandsins í samskiptum Bandaríkjanna og Rússlands heldur einnig vegna þess að Kínverjar hafa neitað að gerast aðilar að slíkum afvopnunarsamningum. „En auðvitað er það verulegt áhyggjuefni að mikilvægustu afvopnunarsamningarnir um takmörkun kjarnorkuvopna sem rekja má til kalda stríðsins, Nýi START-samningurinn og IMF-samningurinn, séu nú óvirkir.“

Spurður hvort ástæða sé til að ætla að Kínverjar blandi sér með einhverjum hætti í stríðið á næstunni og hvernig þá svarar Valur:

„Ef Kínverjar hefja vopnasendingar til Rússlands mun það án efa styrkja stríðsrekstur Rússa til muna. Fram að þessu hafa Kínverjar látið sér nægja að halda vinasambandi sínu við Rússa án þess að veita þeim beinan hernaðarstuðning. Þeir hafa einnig notið góðs af auknum innflutningi á rússneskri olíu og gasi sem þeir hafa fengið á lægra verði vegna refsiaðgerða vestrænna ríkja. Hins vegar verður að hafa í huga að fá ríki eiga eins mikið undir stöðugleika í alþjóðaviðskiptum og Kína – og Kínverjar vilja komast hjá því að verða fyrir barðinu á refsiaðgerðum vestrænna ríkja. Því getur verið að þeir vilji frekar halda áfram að styðja Rússa með óbeinum hætti.“

Rússar ekki einangraðir

Hvernig sem stríðinu lýkur er ljóst, að dómi Vals, að það muni taka langan tíma að bæta samskipti Rússlands og vestrænna ríkja. En þótt vestræn ríki hafi stutt Úkraínumenn sé ekki þar með sagt að Rússar séu einangraðir á alþjóðavettvangi. Pútín geti reitt sig á velvild í eins ólíkum ríkjum og Kína, Suður-Afríku, Sameinuðu arabísku furstadæmunum og Tyrklandi, sem stendur enn í vegi fyrir aðild Svíþjóðar og Finnlands að NATO.

„Og þótt Indverjar hafi fjarlægst Rússa pólitískt vegna náinna tengsla þeirra við Kínverja hafa olíukaup þeirra frá Rússlandi hvorki meira né minna en 30-faldast frá því að stríðið hófst. Úkraínumenn þurfa því fyrst og fremst að reiða sig á stuðning vestrænna ríkja í varnarstríði sínu.“