— AFP/Yasuyoshi Chiba
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Við héldum að við værum að yfirgefa heimili okkar og okkar friðsæla líf í fáeina daga eða viku en við höfum ekki verið heima í heilt ár. Við söknum þess öll mjög mikið,“ segir Olena Jadallah, fyrrverandi varaborgarstjóri Irpín í Úkraínu

Viðtal

Karlotta Líf Sumarliðadóttir

karlottalif@mbl.is

„Við héldum að við værum að yfirgefa heimili okkar og okkar friðsæla líf í fáeina daga eða viku en við höfum ekki verið heima í heilt ár. Við söknum þess öll mjög mikið,“ segir Olena Jadallah, fyrrverandi varaborgarstjóri Irpín í Úkraínu. Hún kom til Íslands 5. mars í fyrra vegna stríðsins í Úkraínu ásamt eiginmanni sínum og tveimur sonum, ellefu og tveggja ára. „Maðurinn minn er ekki úkraínskur og átti því rétt á að fara yfir landamærin.“

Olena lýsir Irpín sem fallegri borg með glæsilegum almenningsgörðum. Nú er borgin að mestu eyðilögð; skólar, leikskólar, sjúkrahús, íþróttamiðstöðvar, fæðingarsjúkrahús og gríðarmörg heimili.

Ætluðu til Íslands sem ferðamenn en ekki flóttamenn

Hún lýsir ferðinni frá Úkraínu til Íslands sem langri og hættulegri, en segist ánægð að vera komin í öruggt skjól.

„Börnin mín heyra ekki lengur í herþotum og flugskeytum. Nú höfum við mat og þak yfir höfuðið, sem skiptir mestu máli. Íslendingar tóku mjög vel á móti okkur. Okkur hafði lengi dreymt um að heimsækja þetta einstaka land sem ferðamenn en komum hingað því miður sem flóttamenn.“

Ár er liðið síðan rússneski herinn réðst inn í Úkraínu. Olena segist ekki hefðu getað ímyndað sér að átökin myndu standa yfir svo lengi.

„Ég hefði ekki einu sinni getað ímyndað mér að stríð gæti hafist á þessum stað á þessari öld. Ég mun aldrei gleyma því þegar flugvöllurinn skammt frá húsinu okkar var sprengdur af rússneska hernum snemma morguns, þessar minningar og hræðilegu hljóðin munu lifa með mér að eilífu. Á sama tíma er ég ótrúlega stolt af fólkinu okkar, það veit hvað það þýðir að berjast fyrir frelsinu og verja það. Úkraínumenn gefast aldrei upp og sýna alltaf hugrekki og óeigingirni.“

Systir Olenu er enn í Úkraínu ásamt fjölskyldu sinni, sem og amma hennar. „Þau ákváðu að verða eftir og hjálpa samfélaginu og úkraínska hernum. Ég er í stöðugu sambandi við þau og reyni að hjálpa eins mikið og ég get héðan.“

Olena er með doktorsgráðu í alþjóðahagfræði. Hún ætlar sér að finna vinnu hér á landi, en er sem stendur heima með tveggja ára son sinn þar sem hann hefur ekki fengið pláss á leikskóla. „Ég er meðvituð um vandamálin hérna varðandi leikskólapláss, en ég vonast til að þetta leysist fljótlega.“

Olena hefur komið víða við, en auk þess að hafa gegnt stöðu varaborgarstjóra var hún yfirmaður kosningaskrifstofu stjórnmálaflokks Volodimírs Selenskís forseta, fulltrúi Úkraínu á Evrópuþinginu og fulltrúi í sendinefnd landsins á fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna árin 2020, 2021 og 2022. Þá var hún valin í hóp tuttugu efnilegustu ungu kvenna í Úkraínu.

Þurfa að endurreisa heimilið

Hún vonast til þess að stríðinu muni ljúka á þessu ári. „Ég vona að þessu algjörlega tilefnislausa og árásargjarna rússneska stríði fari að ljúka. Heimurinn má ekki gleyma í eitt augnablik að grimmdin og yfirgangurinn eiga sér engin takmörk. Aðeins í sameiningu getum við komið á friði og tryggt öryggi allra í Evrópu og heiminum öllum.“

Hún segir að til standi að snúa aftur til Úkraínu að loknu stríði. „Ég trúi á sigur okkar fyrir lok þessa árs og við viljum fara heim á næsta ári ef stríðinu verður lokið. Við þurfum að endurreisa heimilið okkar og fjölskyldufyrirtækið, en meirihluti bygginga og skrifstofa skemmdist eða eyðilagðist þegar borgin var hernumin,“ segir hún, en fjölskylda hennar rekur smásölufyrirtæki.

Hún kveðst ætla að snúa aftur með nýja þekkingu, tengiliði og reynslu frá Íslandi. „Í framtíðinni ætla ég að leggja mitt af mörkum til að skapa öfluga, lýðræðislega og sameinaða Úkraínu,“ segir hún að lokum.

Höf.: Karlotta Líf Sumarliðadóttir