Aðgerð Skipt um hné á sjúklingi á skurðstofu. Það er ávallt mikil aðgerð.
Aðgerð Skipt um hné á sjúklingi á skurðstofu. Það er ávallt mikil aðgerð. — Morgunblaðið/Ásdís Ásgeirsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sjúkratryggingar Íslands hafa auglýst eftir tilboðum frá heilbrigðisfyrirtækjum á einkamarkaði til að gera liðskiptaaðgerðir á mjöðmum og hnjám sjúklinga. Áætlað er að gera allt að 700 aðgerðir á þessu ári en verkefnið er hugsað sem átak á þessu ári

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Sjúkratryggingar Íslands hafa auglýst eftir tilboðum frá heilbrigðisfyrirtækjum á einkamarkaði til að gera liðskiptaaðgerðir á mjöðmum og hnjám sjúklinga.

Áætlað er að gera allt að 700 aðgerðir á þessu ári en verkefnið er hugsað sem átak á þessu ári. Samkvæmt upplýsingum forstjóra Sjúkratrygginga uppfylla tvö fyrirtæki skilyrði Embættis landlæknis til að gera slíkar aðgerðir og hafa verið að gera og er ætlunin að skipta aðgerðunum á milli þeirra í hlutföllum sem ráðast af verðinu sem þau bjóða.

Í upplýsingum sem Sjúkratryggingar kynna vegna auglýsingarinnar biðu 1800 manns eftir liðskiptaaðgerðum hjá opinberum heilbrigðisstofnunum í upphafi þessa árs. Hafa 84% þeirra beðið lengur en 90 daga.

Sigurður Helgi Helgason, forstjóri Sjúkratrygginga, segir að biðlistarnir hafi verið að lengjast. Því hafi stjórnvöld ákveðið að setja sérstakt framlag til samninga við starfandi fyrirtæki á einkamarkaði til þess að stytta biðina. Markmið heilbrigðisyfirvalda er að hlutfall þeirra sem bíða aðgerðar lengur en 90 daga fari ekki yfir 20% hjá hverjum þjónustuveitanda.

Skipt á milli bjóðenda

Í auglýsingunni kemur fram að Sjúkratryggingar áætli að heildarfjöldi aðgerða í þessu verkefni geti á árinu orðið allt að 700 og að gert sé ráð fyrir að þar af verði um 200 aðgerðir vegna liðskipta á mjöðm. Samkvæmt því verða 500 aðgerðir á hnjám.

Sigurður segir að mögulegt verði að bæta við aðgerðum ef tilboð verða innan kostnaðaráætlunar Sjúkratrygginga og fjárheimildir leyfa. Fjárhæðin sem veitt er í átaksverkefnið er ekki gefin upp að svo stöddu. Þá segir Sigurður að skiptingin á milli hnjá- og mjaðmaaðgerða sé ekki endanleg og geti ráðist af þeim tilboðum sem berist.

Ef eitt tilboð berst verður samið við viðkomandi fyrirtæki um allar aðgerðirnar, það er að segja ef tilboðið er undir kostnaðaráætlun Sjúkratrygginga og fyrirtækið getur framkvæmt verkið. Ef tvö fyrirtæki bjóða og tilboð beggja eru undir kostnaðaráætlun verður samið við bæði fyrirtækin eftir hlutföllum sem ráðast af mun á verði. Sem dæmi má nefna að ef minna en 4% munur er á milli tilboða skiptast verkefnin jafnt en ef meira en 10% munur er fær fyrirtækið sem er með hagstæðara tilboðið 90% aðgerðanna.

Stefnt er að því að liðskiptaaðgerðirnar geti hafist 1. apríl næstkomandi.

Höf.: Helgi Bjarnason