Guðjón Jensson
Guðjón Jensson
Ætli hefði ekki verið öllu auðveldara að fást við snjóinn í skógarskjólinu?

Guðjón Jensson

Í vetur hafa orðið mjög miklar umferðartafir á Reykjanesbraut og fleiri leiðum vegna veðurs og snjókomu. Eðlilega verður í náinni framtíð margt rætt um hvernig unnt sé að bæta umferð og öryggi vegfarenda. Einkum beinist athygli að Vegagerðinni og þjónustu á hennar vegum.

Vegagerð á Íslandi er ekki einfalt mál. Veðurfræðingar hafa bent á að það frystir og þiðnar um það bil fimm hundruð sinnum á ári. Yfirborð vega verður því oft fyrir miklum skemmdum og það telst fremur til undantekninga en reglu að skemmdir á yfirborði vega séu merktar með sérstökum aðvörunarskiltum. Það þykir sjálfsagt víða erlendis eins og í Þýskalandi þar sem ég þekki nokkuð vel til.

Þá ber að líta til fjárveitinga til vegagerðar. Fámenn íslensk þjóð verður að sníða sér stakk eftir vexti og þegar ekki eru nema um 300.000 eða tæplega það sem greiða opinber gjöld á Íslandi má geta nærri hversu fjárveitingar til vegagerðar eru naumar. Opinberir vegir á Íslandi eru um 13.000 km alls þannig að það eru um 25 skattgreiðendur sem standa að baki hverjum km vega, lagningu nýrra vega, til viðhalds og til vetrarþjónustu. Þegar liðið var fram undir síðastliðin jól hafði um fimm milljörðum verið varið til snjómoksturs, um þriðjungi meira en varið var til þessa verkefnis á fjárlögum fyrir árið 2022.

Nú þarf með reynslu okkar að auka verulega fé til snjómoksturs og viðhalds vega. Spurning hvort aðrar leiðir séu mögulegar sem gætu dregið úr þörf fyrir þennan gríðarlega snjómokstur.

Trjárækt eða öllu heldur skógrækt bætir umhverfi okkar á margan hátt. Skoða má t.d. Hafnarsand norðan við Þorlákshöfn. Það mikla og góða starf að klæða landið þar skógi, sem vex með aðstoð lúpínu, hefur gjörbreytt aðstæðum. Norðanáttin olli íbúum Þorlákshafnar oft miklum búsifjum og aðstæður allar voru mjög erfiðar.

Gefum okkur að á Reykjanesskaganum öllum væri vel vaxinn skógur. Um það má deila hvort þar vaxa einungis innlendar tegundir, birki ásamt reyni og víði, eða blanda af ýmsum barrtegundum sem gefa mun betra og þéttara skjól. Kannski upprunalega erlendar tegundir yrðu þar einnig gróðursettar eins og stafafura. Hún hefur lengi vaxið með mikilli prýði, oft við mjög erfiðar aðstæður í rýru landi. Sitkagreni gefur mjög gott skjól en það þarf að vaxa í mjög góðum jarðvegi til að þrífast vel. Það er tiltölulega fljótvaxið við hagstæð skilyrði, nægilega frjósaman jarðveg og alúð í byrjun. Ætti grenið að ná um 10 metra hæð á 20-25 árum. Það þarf því að gera snemma ráð fyrir skógrækt til þess að skógarskjólið nái að myndast tímanlega.

Ætli hefði ekki verið öllu auðveldara að fást við snjóinn í skógarskjólinu? Það er skafrenningurinn sem er einn helsti vandinn við að halda vegum landsmanna opnum.

Samstarfi Vegagerðarinnar við Skógræktina, sveitarfélög, tryggingafélög, bændur og aðra landeigendur þarf að koma sem fyrst á. Vegagerðin leggur fram áætlanir um hvar þörfin sé mest þar sem upplýsingar um veður á ýmsum stöðum liggja fyrir, bæði verstu vindáttir og hugsanlegan vindstyrk. Víða á Snæfellsnesi, í Melasveit undir Hafnarfjalli, á utanverðu Kjalarnesi og eins við Mógilsá undir Esju, undir Eyjafjöllum, Öræfajökli og í Hamarsfirði skammt frá Djúpavogi eru alræmd veðravíti. Á heimasíðu Vegagerðarinnar má lesa nánar um þetta efni: https://www.vegagerdin.is/vefur2.nsf/Files/NR_1800_756_Gerd_vindhvidu_kortathekju_fyrir_helstu_thjodvegi_lokaskyrsla/

Þar þyrfti að skoða hvar best sé að gróðursetja skjólbelti. Í Melasveit var hafið starf við gróðursetningu skjólbeltis sem einna best sést norðan við Hafnará og meðfram veginum undir Hafnarfjalli. Þótt belti þetta sé fremur mjótt, einungis þreföld trjáröð, hefur það samt sem áður sannað gildi sitt. En betur má ef duga skal. Skjólbeltið þarf að breikka verulega til að það komi að meira gagni og komi í veg fyrir skafrenning. Þar mætti bæta sitkagreni inn á milli.

Við landsmenn höfum aðgang að mjög góðri og faglegri þekkingu og reynslu Skógræktarinnar en á þeim bæ hefur skógrækt verið sinnt í meira en öld.

Til að ná betri árangri þarf samstarf við bændur, sem margir hverjir þurfa að koma frá sér húsdýraáburði. Hann er mjög mikilvægur til að ná sem bestum árangri, einkum þeirra trjátegunda sem þurfa góðan jarðveg til að vaxa úr. Má benda á sitkagreni, sem er ákaflega heppileg trjátegund til að mynda skjól en þarf frjósama jörð.

Ég hvet eindregið til þess að skógrækt verði hafin sem víðast til þess að bæta sem best aðstæður. Umhverfi okkar, lífsafkoma og öryggi á vegum er okkur mjög mikilvægt. Ef við bærum gæfu til að líta á möguleika skógræktar til að bæta umhverfi okkar væri það okkur mikils virði. Og við skulum hafa í huga að í skjóli skógarins dafnar og þrífst mannlífið best.

Höfundur er tómstundablaðamaður, leiðsögumaður og eldri borgari í Mosfellsbæ.

Höf.: Guðjón Jensson