Þjóðarhöll Tveir ráðherrar og borgarstjóri kynntu áformin í byrjun ársins.
Þjóðarhöll Tveir ráðherrar og borgarstjóri kynntu áformin í byrjun ársins. — Morgunblaðið/Eggert
Er það mat Þróttar og Ármanns að hin nýja þjóðarhöll, eins og hún hefur verið kynnt, muni ekki anna þörf hverfisfélaganna í Laugardal fyrir æfingatíma fyrir börn, unglinga og meistaraflokka. Þetta kemur fram í sameiginlegri ályktun aðalstjórna…

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Er það mat Þróttar og Ármanns að hin nýja þjóðarhöll, eins og hún hefur verið kynnt, muni ekki anna þörf hverfisfélaganna í Laugardal fyrir æfingatíma fyrir börn, unglinga og meistaraflokka. Þetta kemur fram í sameiginlegri ályktun aðalstjórna félaganna sem Bjarnólfur Lárusson formaður Þróttar og Guðrún Harðardóttir formaður Ármanns rita undir.

Félögin fagna áformum um að þjóðarhöll fyrir inniíþróttir verði staðsett í Laugardal og telja að það muni styrkja svæðið sem hjarta íþróttaiðkunar í Reykjavík.

Félögin telj hins vegar einsýnt, miðað við kynntar tillögur um rekstur þjóðarhallar, að æfingar félagsfólks, barna, unglinga og meistaraflokka verði víkjandi í starfsemi mannvirkisins, eins og nú sé staðan þegar kemur að æfingum í Laugardalshöll. Það sé óviðunandi fyrir iðkendur félaganna.

„Þá virðist ljóst að ekki stendur til að gera breytingar á rekstri Laugardalshallar og að íþróttafélögin verði áfram víkjandi í henni, líkt og verið hefur undanfarna áratugi með þeim afleiðingum sem allir þekkja. Laugardalshöllin mun því aldrei anna starfsemi Þróttar og Ármanns auk þess sem skólarnir í hverfinu mæta afgangi áfram, ef svo fer fram sem horfir,“ segir í ályktuninni.

Aðstöðuvandi hverfisfélaganna í Laugardal er bráðamál að mati aðalstjórna Þróttar og Ármanns. Brotthvarf yngri iðkenda vegna skorts á æfingaaðstöðu sé raunverulegt vandamál sem félögin glími við af vaxandi þunga. Þessi skortur hamli uppbyggingu íþrótta- og æskulýðsstarfs í Laugardalnum. Við þessu ástandi þurfi borgaryfirvöld að bregðast strax.

Ráðherrarnir Katrín Jakobsdóttir og Ásmundur Einar Daðason ásamt Degi B. Eggertssyni borgarstjóra kynntu frumathugun á byggingu þjóðarhallar í síðasta mánuði. Niðurstaðan er sú að reisa 19.000m² hús ofan við Laugardalshöllina. Húsið á að taka 8.600 manns í sæti. Stefnt er að því að framkvæmdir hefjist 2024 og húsið verði tilbúið til notkunar haustið 2025.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson