Agnar Már Másson
agnarmar@mbl.is
Vodafone tilkynnti viðskiptavinum sínum með tölvupósti sl. miðvikudag að fyrirtækið myndi hækka verð á ýmsum áskriftarleiðum sínum um komandi mánaðamót. Flestar sjónvarpsáskriftir Stöðvar 2 hækka um 1.000 kr.
Áskrifendur Fjölvarps S og Stöðvar 2 Fjölskyldu sjá yfir 50% hækkun í áskriftarverði en báðar stöðvar hækka úr 1.990 kr. á mánuði upp í 2.990 krónur á mánuði.
Sumar áskriftarleiðir verða ekki fyrir verðbreytingum. Til að mynda verður engin íþróttaáskrift hækkuð í verði. Grunnáskrift að Stöð 2 mun nú kosta 8.990 krónur en stöðin kostaði áður 7.990. Stöð 2+ hækkar einnig um 1.000 kr. og kostar nú 4.990 kr. á mánuði.
Ekki hækkað í langan tíma
„Við höfum ekki hækkað verð í langan tíma á Stöð 2+,“ segir Þórhallur Gunnarsson, framkvæmdastjóri hjá Sýn, í samtali við Morgunblaðið. Hann segir orsakir þessara hækkana vera breytingar á verði efnisrétta og almenn verðhækkun í samfélaginu. Sýn sé á sama tíma að koma til móts við viðskiptavini með því að taka auglýsingar alfarið út af Stöð 2+.
Símaáskriftarleiðin Risafrelsi hækkar einnig í verði. Hins vegar veitir Vodafone áskrifendum sínum aukið gagnamagn í EES-löndum og er verð á aukagagnamagni lækkað. Um áramótin var sjónvarpsstöðin Stöð 2 Golf tekin úr loftinu. Var þetta gert í kjölfar þess að breski fjölmiðlarisinn Discovery keypti réttindin að stærstu keppninni sem sýnd er á stöðinni. Mót sem áður voru sýnd á Stöð 2 Golf verða því sýnd á Stöð 2 Sport.
Discovery á réttindin að PGA-mótaröðinni sem var áður sýnd á Stöð 2 Golf. Mótaröðin er sú vinsælasta í golfheiminum og þegar Stöð 2 missti sýningarréttinn að mótunum var ákveðið að slökkva á stöðinni. Þórhallur segir að ákvörðun hafi verið tekin um að stöðva útsendingu stöðvarinnar um áramótin.
Fá Eurosport í staðinn
„Okkur fannst ekki við hæfi að halda uppi golfstöð sem innihéldi ekki PGA-mótin,“ segir Þórhallur. Stöðin var hluti af Sportpakkanum, sem er áskriftarleið hjá Stöð 2, ætluð íþróttaaðdáendum. Verð á áskriftarleiðinni var þó ekki lækkað.
„Við tilkynntum fólki þetta með fyrirvara en buðum þeim sem eru áskrifendur að sportinu hjá okkur að fá Eurosport.“ segir Þórhallur. Eurosport er íþróttastöð í eigu Discovery en þar er PGA-mótaröðin sýnd. Því munu áskrifendur Sportpakkans enn geta horft á PGA-mótaröðina.
Aðspurður um hvort golfið mæti ekki nokkrum afgangi þegar það þarf að deila stöð með öðrum íþróttum svarar Þórhallur neitandi. „Við erum bara að sinna því betur með því að hafa þetta sem part af sportpakkanum.“