Ef til vill verður litið til þessarar ræðu Bidens sem sögulegrar. Hún fái sess með ýmsum ræðum síðustu aldar þegar rifjuð eru upp stórpólitísk atvik úr kalda stríðinu.

Vettvangur

Björn Bjarnason

bjorn@bjorn.is

Yfirbragðið var ólíkt þegar Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Joe Biden Bandaríkjaforseti fluttu ræður sínar þriðjudaginn 21. febrúar og athygli beindist að ársafmæli innrásar Rússa í Úkraínu.

Pútín talaði yfir þingmönnum, embættismönnum og herforingjum í sýningar- og markaðshúsi í næsta nágrenni Kremlarkastala við Rauða torgið í Moskvu. Gráminn féll vel að bragðdaufum upplestri Pútíns, sviplausum andlitum áheyrenda og staðlausum samsæriskenningum ræðutextans. Risastórt skjaldarmerki minnti á vald Pútíns og fánaborgir til beggja hliða við einmana ræðupúltið áréttuðu hátignina.

Biden talaði utan dyra í hjarta Varsjár, í kastalagarðinum við Vistulaána. Sögufrægi kastalinn var endurreistur úr rústum annarrar heimsstyrjaldarinnar og nú iðaði garðurinn af mannlífi, ljósadýrð og fánum Póllands, Bandaríkjanna og Úkraínu. Forystumenn Póllands og erlendir gestir sátu til hliðar á palli. Allir voru hlýlega klæddir enda svalt í veðri eftir að sól settist. Að lokinni ræðu Bidens hópuðust börn að honum, glöð í bragði með fána sína.

Ef til vill verður litið til þessarar ræðu Bidens sem sögulegrar. Hún fái sess með ýmsum ræðum síðustu aldar þegar rifjuð eru upp stórpólitísk atvik úr kalda stríðinu.

John F. Kennedy Bandaríkjaforseti sagði í Berlín 26. júní 1963, tæpum tveimur árum eftir að kommúnistastjórnin í Austur-Berlín reisti Berlínarmúrinn: Ich bin ein Berliner! – Ég er Berlínarbúi! Hann vildi minna bæði Sovétmenn og íbúa Vestur-Berlínar á að það væri sér og Bandaríkjamönnum að mæta, færðu kommúnistar sig frekar upp á skaftið í Berlín.

Ronald Reagan Bandaríkjaforseti var í Berlín 12. júní 1987 og flutti ræðu sem síðan er kennd við þessa setningu í henni: Mr. Gorbachev, tear down this wall! – Hr. Gorbatsjov, brjóttu þennan múr!

Þá var ekki ár liðið frá því að Reagan og Mikhaíl Gorbatsjov Sovétforseti hittust í Höfða og voru ráðgjafar Reagans alls ekki á einu máli um skynsemi þess að forsetinn ögraði Gorbatsjov á þennan hátt.

Múrinn féll 9. nóvember 1989 og Sovétríkin rúmum tveimur árum síðar. Gorbatsjov varð að láta sér hvort tveggja lynda – Sovétvaldið mátti sín einskis.

Þegar Kennedy og Reagan fluttu ræður sínar var ástand heimsmála með öðrum blæ en núna. Evrópa var vissulega klofin milli austurs og vesturs og keppni var háð milli stórvelda með vísan til ólíkra stjórn- og stjórnmálakerfa. Það ríkti þó friður í álfunni 1963 og 1987. Ríki viðurkenndu leikreglur sem mótuðust í eldrauninni sem kennd er við Kúbudeiluna í október 1962 þegar bæði Bandaríkjastjórn og Sovétstjórnin skóku kjarnavopn sín. Strax árið 1963 ákváðu kjarnorkuveldin þrjú, Bandaríkin, Sovétríkin og Bretland, að hætta öllum tilraunum með kjarnavopn ofanjarðar.

Í ræðu sinni 21. febrúar 2023 hótaði Vladimir Pútín að hefja tilraunir með kjarnavopn að nýju. Ræða Pútíns var stríðsæsingaræða án þess að hann nefndi þó einu orði hvað her hans mundi gera næst í innrásarstríðinu í Úkraínu sem hófst 24. febrúar 2022.

Í tilefni af ársafmæli innrásarinnar og þessari ræðu Pútíns spáðu margir stórsókn Rússa í Úkraínu svo að forsetinn gæti gortað af einhverju á vígvellinum. Þessi sókn er kannski hafin, rússneski herinn mjakast þó aðeins áfram í austurhluta Úkraínu. Pútín fórnar lífi um 2.000 hermanna sinna fyrir hverja 90 metra sem sótt er fram.

Rússlandsforseti lýgur blákalt að þjóð sinni þegar hann segir Vesturlönd hafa hafið stríðið og Rússar verði að beita hervaldi til að stöðva það. Hann talar ekki aðeins um að hefja tilraunir með kjarnavopn að nýju heldur hleypur frá síðasta samningi milli Rússa og Bandaríkjamanna um takmörkun kjarnavopna.

Joe Biden sagði í Varsjárræðu sinni að með innrásinni í Úkraínu hefðu Rússar ekki aðeins ögrað Úkraínu heldur allri heimsbyggðinni. Hætta væri á að meginreglurnar, hornsteinn friðar, farsældar og stöðugleika í veröldinni í meira en 75 ár, yrðu hafðar að engu. Forsetinn sagði:

„Enga nauðsyn bar til þessa stríðs; það er harmleikur.

Pútín forseti hafði í hendi sér að hefja þetta stríð. Hver dagur stríðsins er í hans hendi. Orð frá honum dugar til að binda enda á stríðið.

Þetta er einfalt. Hætti Rússar innrás í Úkraínu, lýkur stríðinu. Hætti Úkraínumenn að verjast Rússum, verða það endalok Úkraínu.“

Að heimsstyrjöldunum tveimur undanskildum er jafnan vísað til kalda stríðsins sem hættulegasta tímans í sögu síðustu aldar og allt til nútímans. Auðvelt er að færa fyrir því rök að í kalda stríðinu hafi aldrei ríkt sambærilegt hættuástand í okkar heimshluta og einmitt um þessar mundir.

Eitt ár hernaðarátaka er liðið, mörg hundruð þúsunda hafa fallið í valinn og líklega enn fleiri særst að auki. Stórir hlutar Úkraínu eru rjúkandi rúst og milljónir manna hafa lagt þaðan á flótta. Baráttuþrek þjóðarinnar hefur þó ekki verið brotið á bak aftur.

„Lydduleg fíkn Pútíns forseta í land og vald skilar engu. Og ættjarðarást Úkraínumanna hefur betur,“ sagði Biden.

Í Úkraínu hefur enn einu sinni verið dregin lína milli frelsis og ófrelsis, lýðræðis og einræðis, farsældar og fátæktar. Hver þjóð sem er friðarmegin við þessa línu fagnar hverjum degi best með því að leggja þeim lið sem fórna lífi sínu fyrir frelsið.

Í lokin skal enn vitnað í Bandaríkjaforseta sem sagði að nú stæði Pútín frammi fyrir því sem hann taldi óhugsandi fyrir ári. Lýðræðisríkin hefðu styrkst en ekki veikst. Alræðisherrarnir hefðu veikst en ekki styrkst.