— AFP/Ina Fassbender
Líkneski af Vladimír Pútín, forseta Rússlands, að baða sig í blóði í baðkari í úkraínsku fánalitunum var ekið um götur Düsseldorf á bolludag, sem er hápunktur kjötkveðjuhátíðarinnar í Þýskalandi og markar upphaf föstu

Líkneski af Vladimír Pútín, forseta Rússlands, að baða sig í blóði í baðkari í úkraínsku fánalitunum var ekið um götur Düsseldorf á bolludag, sem er hápunktur kjötkveðjuhátíðarinnar í Þýskalandi og markar upphaf föstu.

Ár var á föstudag liðið frá því að Rússar gerðu innrás í Úkraínu. Pútín taldi eflaust að sér myndi takast að leggja Úkraínu undir sig á nokkrum dögum, en skjátlaðist hrapallega. Rússneska hernum reyndist mikið að vanbúnaði og skipulag hans í molum. Um leið var andspyrna heimamanna öflugri, en Rússar gerðu ráð fyrir. Herinn komst að útjaðri Kænugarðs, höfuðborgar Úkraínu, en var hrakinn þaðan. Nú er barist um héruð, þar sem Rússar hafa kynt undir ófriði í tæpan áratug. Í raun má segja að innrás Pútíns hafi hafist 27. febrúar 2014 þegar rússneski herinn lagði undir sig lykilsvæði á Krímskaga og innlimaði skömmu síðar.

Rússar hafa farið fram í Úkraínu af fullkomnu skeytingarleysi um mannslíf og hlutskipti almennings í landinu. Allt er gert til að torvelda lífið í landinu. Á þeim svæðum, sem Rússar hafa lagt undir sig, hefur herinn nauðgað konum með skipulegum hætti, beitt pyntingum og drepið fólk af handahófi. Í hvert sinn sem Rússar hafa þurft að hörfa hafa grimmdarverk þeirra komið í ljós.

Með innrásinni hefur Rússum tekist að snúa Úkraínumönnum alfarið gegn sér og gildir það jafnt um rússneskumælandi Úkraínumenn sem aðra. Pútín hefur líka tekist að sjá til þess að Atlantshafsbandalagið hefur gengið í endurnýjun lífdaga og gefið Finnum og Svíum tilefni til að sækja um aðild.

Heima fyrir hefur mikið breyst á einu ári. Þar hefur Pútín hert á klónni og hefur verið sagt að aðfarirnar minni á það þegar Jósef Stalín var að tryggja sig í sessi í Sovétríkjunum á þriðja áratug liðinnar aldar. kbl@mbl.is