Markahæstur Magnús Óli Magnússon skoraði sjö mörk fyrir Val.
Markahæstur Magnús Óli Magnússon skoraði sjö mörk fyrir Val. — Morgunblaðið/Eggert
Valur er með tíu stiga forskot á toppi Olísdeildar karla í handbolta eftir 36:32-útisigur á ÍR í Skógarseli í gærkvöldi. Valsmenn voru sterkari allan fyrri hálfleikinn og var staðan eftir hann 18:12

Valur er með tíu stiga forskot á toppi Olísdeildar karla í handbolta eftir 36:32-útisigur á ÍR í Skógarseli í gærkvöldi.

Valsmenn voru sterkari allan fyrri hálfleikinn og var staðan eftir hann 18:12. Sá munur hélst áfram framan af í seinni hálfleik og var staðan 28:22 þegar hann var hálfnaður.

ÍR-ingar tóku við sér á lokakaflanum og minnkuðu muninn í tvö mörk, 30:28. Valsmenn voru hins vegar sterkari í blálokin og fögnuðu að lokum fjögurra marka sigri.

ÍR í mikilli fallbaráttu

Valur er nú með 31 stig, tíu stigum meira en FH, en FH-ingar eiga leik til góða. ÍR er í ellefta og næstneðsta sæti, þremur stigum frá öruggu sæti.

Viktor Sigurðsson skoraði níu mörk fyrir ÍR og Dagur Sverrir Kristjánsson gerði átta. Ólafur Rafn Gíslason varði 13 skot í marki liðsins.

Magnús Óli Magnússon skoraði sjö fyrir Val og Stiven Tobar Valencia, nýjasti A-landsliðsmaður Íslands, gerði fimm. Björgvin Páll Gústavsson varði 12 skot í markinu.

Valsmenn hafa verið á mikilli siglingu og ekki tapað í deildinni síðan liðið heimsótti Fram og mátti þola 34:37-tap í október. Er það eina tap Vals í deildinni í vetur. Þá er liðið komið í 16-liða úrslit Evrópudeildarinnar, en mátti þola tap fyrir Stjörnunni í átta liða úrslitum bikarsins á dögunum.

ÍR hafði betur gegn KA í síðustu umferð, en hafði fram að því ekki unnið leik frá 29. september.