Helmingur íbúa aðildarlanda Evrópusambandsins er eldri en 44,4 ára og hefur meðalaldurinn hækkað um tvö og hálft ár á undanförnum áratug. Meðalaldur Íslendinga er til muna lægri eða 36,7 ár og er hann hvergi lægri en hér á landi í nýjum samanburði Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, á aldurssamsetningu íbúa í 31 Evrópulandi á seinasta ári samanborið við árið 2012.
Meðalaldur hækkaði frá 2012
Fram kemur að meðalaldur Íslendinga hefur hækkað um 1,4 ár á þessu tíu ára tímabili eða frá árinu 2012. Meðalaldur íbúa jókst í öllum löndunum nema Svíþjóð þar sem hann hefur lækkað örlítið frá árinu 2012 og er nú 40,8 ár og á Möltu þar sem hann stóð í stað, 40,4 ár. Í fimm Evrópulöndum hækkaði meðalaldur íbúanna um meira en fjögur ár á síðastliðnum áratug en það var í Portúgal (4,7 ár), á Spáni (4,3 ár), og á Grikklandi og í Slóvaíku (4,1 ár).
Fleiri eldri borgarar á hvern einstakling á vinnualdri
Eldri borgurum fjölgar jafnt og þétt, ævilengd eykst og hlutfall fólks á vinnualdri á hvern þann sem er kominn á eftirlaun hefur lækkað. Eurostat hefur borið saman hlutfall elsta aldurshópsins, þ.e.a.s. fólks sem er 65 ára og eldra, af fjölda íbúa í Evrópu sem eru á aldursbilinu 15 til 64 ára í hverju landi fyrir sig.
Í ljós kemur að þetta hlutfall fólks 65 ára og eldra af fólki á vinnualdri hefur hækkað í Evrópulöndum um tæp sex prósentustig frá árinu 2012 og var komið í 33% að meðaltali á seinasta ári.
Ísland stendur þó betur að vígi hvað þetta varðar en aðrar þjóðir Evrópu. Í ljós kemur að á Íslandi er hlutfall eldri borgara mun lægra af fjölda þeirra sem eru á aldrinum 15 til 64 ára eða 22,5% á seinasta ári samkvæmt töflu Eurostat. Um 22 Íslendingar 65 ára og eldri voru því á móti hverjum hundrað sem eru á aldrinum 15 til 64 ára á seinasta ári. Er hlutfallið á Íslandi það lægsta í samanburðinum, sem nær til 31 Evrópulands. Hlutfall eldri borgara af fjölda einstaklinga á vinnualdri er hæst á Ítalíu, 37,5%, og í Finnlandi, 37,4%. omfr@mbl.is