Forysta stéttarfélagsins Eflingar, sem starfar í umboði 20.600 manns á almennum vinnumarkaði, efndi til samstöðufundar í Iðnó og mótmælafunda gagnvart ríkisvaldinu. Mikill mannfjöldi, um 100 manns, stendur hér við Alþingishúsið.
Forysta stéttarfélagsins Eflingar, sem starfar í umboði 20.600 manns á almennum vinnumarkaði, efndi til samstöðufundar í Iðnó og mótmælafunda gagnvart ríkisvaldinu. Mikill mannfjöldi, um 100 manns, stendur hér við Alþingishúsið. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Liðin helgi, líkt og vikan öll, var undirlögð af kjaradeilum Samtaka atvinnulísfins (SA) og Eflingar, en nýr settur ríkissáttasemjari hafði stefnt deilendum til sín. SA vildi ekki ganga til samninga nema Efling frestaði verkfallsaðgerðum á meðan og var við því orðið

18.2-24.2.

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Liðin helgi, líkt og vikan öll, var undirlögð af kjaradeilum Samtaka atvinnulísfins (SA) og Eflingar, en nýr settur ríkissáttasemjari hafði stefnt deilendum til sín. SA vildi ekki ganga til samninga nema Efling frestaði verkfallsaðgerðum á meðan og var við því orðið.

Nýi ríkissáttasemjarinn, Ástráður Haraldsson héraðsdómari, er ekki ókunnugur þessu hlutverki og sagði að nú væru „alvörukjaraviðræður“ hafnar.

Skjótt kom þó á daginn að bilið milli Eflingar og SA væri sennilega of breitt og settur ríkissáttasemjari talaði um það í tvígang opinberlega að viðræðunum hefði nánast ekkert miðað áfram.

Sjálfstæðismenn í borgarstjórn bentu á að samgöngusáttmálinn svonefndi væri augljóslega vanáætlaður miðað við uppfært kostnaðarmat hans, sem væri helmingi hærra en áður og forsendubrestur.

Eldur kviknaði í áfangaheimili og voru fimm fluttir á slysadeild eftir að hafa andað að sér reyk, en engan sakaði alvarlega.

Verðbólgan hefur grafið undan hamborgarahyggjunni, en hamborgarar hafa hækkað mikið í verði síðustu mánuði. Svo mikið að menn hafa vart efni á merkjavöruskóm.

Aldrei hefur verið annar eins straumur fólks til landsins en í fyrra, en þá fluttu 10.440 fleiri til landsins en höfðu sig á brott.

Borgarskjalavörður og starfslið hans eru felmtri slegin vegna óvæntra áforma Dags B. Eggertssonar borgarstjóra um að leggja Borgarskjalasafn niður og eftirláta Þjóðskjalasafninu að sjá um safnið á kostnað allra skattborgara landsins. Það er fyrsta stóra sparnaðaraðgerðin eftir að borgin komst í fjárkröggur.

Regína Guðlaugsdóttir, fv. íþróttakennari, lést 94 ára gömul.

Kjaraviðræður Eflingar og SA fóru út um þúfur, enda samningsmarkmiðin ósamrýmanleg. Efling krefst betri samninga en gerðir voru við Starfsgreinasambandið og fleiri, en SA kveðst ekki geta samið á öðrum forsendum án þess að setja alla samninga í uppnám og gera út um allan trúnað til kjaraviðræðna síðar á árinu.

Frestuð verkföll Eflingar hófust því að nýju á miðnætti á sunnudagskvöld. Þar munaði sem fyrr mestu um nokkra tugi olíuflutningabílstjóra, sem fóðra bensínstöðvar á eldsneyti, og geta þannig lamað þorra ökutækja fólks og fyrirtækja á nokkrum dögum.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði félagið hafa teygt sig ákaflega til samkomulags og að ekki hefði miklu mátt muna að samningar tækjust. Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari, talaði hins vegar á mjög öðrum nótum um gang viðræðnanna, án þess þó að víkja að orðum Sólveigar.

Í öðrum fréttum sagði Sólveig Anna fleiri verkföll vel koma til greina, en um helgina var einnig kosið um frekari verkföll afmarkaðra hópa innan Eflingar.

Stjórn SA samþykkti samhljóða að leggja tillögu fyrir aðildarfyrirtæki sín um heimild til verkbanns á starfsmenn undir samningi Eflingar, liðlega 20 þúsund manns. Halldór Benjamín Þorbergsson hjá SA sagði verkbann algert neyðarúrræði.

Samkvæmt skýrslu Eurostat, hagstofu Evrópusambansdsins, létust hér á landi 43% fleiri í liðnum desember en það gera að meðaltali í þeim mánuðum. Þá var hlutfall umframdauðsfalla hvergi í álfunni hærra en á Íslandi.

Ríkisútvarpið hleypti af stokkunum appi fyrir undankeppni Söngvakeppni Evrópu, en þar mátti kaupa atkvæði fyrir Bandaríkjadali. Hleypti það nýju lífi í gjaldmiðilsumræðuna og lýðræðishallann í Brussel og Efstaleiti.

Bolludagurinn var haldinn hátíðlegur og var fitubollum um land allt óskað til hamingju með daginn.

Efling tilkynnti að félagið myndi ekki styrkja félaga sína í verkbanni, það bæri ekki ábyrgð á því. Af spannst nokkur þræta um hvort skylt væri að greiða slíka styrki úr Vinnudeilusjóði Eflingar eða hvort það væri geðþóttaákvörðun.

Sólveig Anna sagði slíkar greiðslur vera félaginu ofviða, sem er ofmælt, en ljóst að yrði ekki bætt hraustlega í sjóðinn myndi hann aðeins duga í um viku. Önnur verkalýðsfélög gera engan greinarmun á verkföllum og verkbanni að þessu leyti.

Efling samþykkti frekari verkfallsboðanir í öryggisgæslu, ræstingafyrirtækjum og hótelum.

Félagsdómur tók fyrir mál hafnarverkamanna, sem vilja fara úr Eflingu yfir í Sjómannafélagið, sem þeir telja sig eiga meira sameiginlegt með.

Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri í Fjarðabyggð, sagði af sér vegna ásakana um að hann hafi ekki staðið skil á fasteignagjöldum af sumarbústað,

Sjón hlaut „Litla Nóbelinn“, hin norrænu bókmenntaverðlaun Sænsku akademíunnar.

Sprengidagurinn var haldinn hátíðlegur en það var ekki fagnað í gestrisnigeiranum þar sem skella þurfti í lás hjá fjórum hótelum vegna verkfalla Eflingar og vandræði með vegalausa ferðamenn.

Íslensk orkufyrirtæki sendu Úkraínumönnum að gjöf margvíslegan tækjabúnað, vararafstöðvar og fleira til þess að lappa upp á orkukerfið þar, sem Rússar hafa gert að skotmarki,

Meirihlutinn í borgarstjórn felldi tillögu um endurskoðun samgöngusáttmálans svonefnda, en bæjarstjórnir í nágrannasveitarfélögunum hafa meiri áhyggjur af honum.

Verkbann SA var samþykkt með 95% atkvæða og kosningaþátttaka aðildarfélaganna mikil.

Í sama mund kom í ljós að Efling hafði ekki boðað til næstu verkfalla með löglegum hætti, svo þau duttu upp fyrir í bili.

Þá vaknar hins vegar spurningin hvort Eflingarfólkið sem átti að fá styrk úr Vinnudeilusjóði Eflingar fyrir að vera í verkfalli standi eftir slyppt og snautt í verkbanni vegna klúðurs við verkfallsboðun.

Reynir Traustason og útgáfa Mannlífs voru dæmd til bótagreiðslna fyrir endurbirtingu á minningargreinum úr Morgunblaðinu.

Ár var liðið frá innrás Rússa í Úkraínu og var þess minnst með ýmsum hætti, en stjórnvöld sögðu Úkraínu áfram eiga stuðning Íslands vísan.

Á þriðja þúsund flóttamenn frá Úkraínu hafa leitað hælis á Íslandi og gert er ráð fyrir að þeir komi áfram til landsins uns sigur vinnst.

Efling gekkst fyrir mótmælum gegn verkbanni SA, sem tekið var fram að yrðu friðsöm að þessu sinni, og flutti gjörninginn fyrir einhverra hluta sakir við Alþingi og Stjórnarráðshúsið, sem þó eiga engan hlut að máli. Á meðan var kyrrðarstund í Húsi atvinnulífsins.

Mótmæli Eflingar vöktu þó ekki síður athygli fyrir það að verkalýðurinn og öreigastéttin létu ekki sjá sig. Aðgerðasinnarnir voru um 100 talsins, flestallir úr stjórn, samninganefnd eða af skrifstofu Eflingar, auðþekktir af gulum vestum verkalýðsforystunnar.

SA sögðu að undanþágur yrðu veittar frá verkbanni vegna heilbrigðis- og öldrunarþjónustu, grunnþjónustu lögreglu, slökkviliðs, björgunarsveita, menntastofnana og fleira. Ekki þyrfti að sækja sérstaklega um undanþágur vegna slíkrar starfsemi.

Rostungur gerði sig heimakominn á bryggjunni á Breiðdalsvík. Hann óskaði eftir tilfinningalegu svigrúmi þegar honum þóttu tvífætlingar úr bænum gerast of nærgöngulir.