Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr@mbl.is
Framleiðslufyrirtækið Gunnars ehf., sem þekkt er fyrir framleiðslu á Gunnars-majónesi, mun ekki áfrýja ákvörðun Samkeppniseftirlitsins (SKE) frá 26. janúar sl. um að ógilda sölu á fyrirtækinu til Kaupfélags Skagfirðinga (KS) til úrskurðarnefndar samkeppnismála.
Í tilkynningu frá lögmanni félagsins kemur skýrt fram að eigendur Gunnars ehf. séu ósammála niðurstöðu SKE en hafi aftur á móti ekki bolmagn til að etja kappi við ríkisstofnunina sem hafi mannafla og fjárráð til að ná fram vilja sínum gegn litlu fyrirtæki.
Í tilkynningu frá KS kemur fram að kaupfélagið hafi fullan skilning og virði ákvörðun Gunnars ehf. um að áfrýja ekki niðurstöðunni, þó að bæði kaupandi og seljandi séu ósammála niðurstöðu SKE. Eins og áður hefur verið fjallað um var undirritað samkomulag um kaup KS á Gunnars í maí á síðasta ári. Kaupin voru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins sem ógilti þau í lok janúar, um níu mánuðum eftir að tilkynnt var um viðskiptin. Ákvörðun SKE var ítarleg og taldi rúmlega 130 blaðsíður.
„Við sjáum fram á að tíminn frá því að samrunatilkynning fer til SKE þar til lokaniðurstaða fengist um hvort sala yrði heimiluð eða ekki gæti hæglega orðið allt að tvö til tvö og hálft ár. Salan sem um var samið í júní 2022 gæti mögulega gengið eftir undir árslok 2024 með tilheyrandi kostnaði, ef allt gengi vel,“ segir í tilkynningunni frá Gunnars ehf.
Litið á málið sem mikilvægt
Þá er jafnframt vísað til þess að SKE líti á þetta mál sem mikilvægt – það hefur Páll Gunnar Pálsson forstjóri SKE sagt í fjölmiðlum – og því telji félagið afar ólíklegt að SKE láti staðar numið ef úrskurðarnefnd samkeppnismála snýr ákvörðun þess við. Því megi ætla, meðal annars í ljósi fyrri viðbragða SKE við niðurstöðum úrskurðarnefndarinnar, að SKE skjóti málinu til dómstóla. Það ferli geti tekið um tvö ár á tveimur dómstigum.
„Gunnars ehf. er ekki stórt fyrirtæki. Það […] er nálægt því sem hægt er að kalla lítið eða meðalstórt fjölskyldufyrirtæki. Benda má á að í löndum hér í nálægð við okkur geta fyrirtæki af svipaðri stærðargráðu fengið niðurstöðu í svona mál á nokkrum vikum. Við viljum vekja athygli stjórnvalda og aðila á vinnumarkaði á því ófremdarástandi sem lítil og meðalstór atvinnufyrirtæki búa við í þessum efnum og hvetjum til þess að bætt verði úr sem allra fyrst,“ segir jafnframt í tilkynningunni frá Gunnars ehf.
Svarar SKE fullum hálsi
Í tilkynningu KS kemur fram að kaupfélagið telji að framleiðsluvörur Gunnars ehf. hafi fallið vel að framleiðslu KS. Viðskiptin hefðu því orðið til að lækka framleiðslukostnað og þar með gefið svigrúm til lækkunar til neytenda og gert framleiðsluna samkeppnishæfari við erlenda framleiðslu sem flutt er til landsins.
„Eitt af markmiðum samkeppnislaga er að vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri. Hins vegar hefur þessi þunglamalega málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins í reynd í för með sér hindranir á frelsi í atvinnurekstri. Að sama skapi er íslenskum fyrirtækjum oft gert nær ómögulegt að ná fram nauðsynlegri hagkvæmni, sem væri til hagsbóta fyrir neytendur, og tilhugsunin um að íslensk matvælafyrirtæki geti orðið raunhæfur keppinautur á Evrópumarkaði er fjarlægur draumur,“ segir í tilkynningu KS sem Sigurjón R. Rafnsson aðstoðarkaupfélagsstjóri skrifar undir.
Þá telur KS að málsmeðferðin hafi verið allt of löng hjá SKE og það sé ekki einsdæmi hvað varðar málshraða hjá stofnuninni. Þá gagnrýnir KS málatilbúnað SKE, þar sem SKE hafi kennt samrunaaðilum um tafir þegar fyrir liggi að bæði KS og Gunnars hafi komið eðlilegum sjónarmiðum á framfæri þegar frummat SKE lá fyrir.
„Það verður að teljast eðlilegt og raunar fyrirsjáanlegt að samrunaaðilar komi andmælum á framfæri eftir að frummat liggur fyrir, eins og þeir eiga rétt á samkvæmt lögum, og verður málsaðilum vart kennt um að gæta hagsmuna sinna innan eðlilegra marka,“ segir í tilkynningu KS.
Erfiður rekstur
Rekstur Gunnars ehf. hefur gengið brösulega. Tekjur félagsins árið 2021 námu um 400 m.kr. og tap þess tæpri 21 m.kr. Það var sjötta árið í röð þar sem félagið var rekið með tapi. Þá var eigið fé félagsins neikvætt um rúmar 2,9 m.kr. í árslok 2021 en ekki liggur fyrir hvernig fjárhagsstaða félagsins hefur þróast á síðasta ári.