Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Með kuðungs- ígræðslu er verið að endurskapa skynjun.

Ingibjörg Hinriksdóttir

Alþjóðadagur kuðungsígræðslna er í dag, 25. febrúar.

Kuðungsígræði er eins konar heyrnartæki fyrir mikið heyrnarskerta og heyrnarlausa einstaklinga, börn og fullorðna. Hluta tækjabúnaðarins er komið fyrir með aðgerð þar sem elektróða er þrædd inn í kuðung innra eyrans og annar hluti búnaðarins er utanáliggjandi, svipað og hefðbundin heyrnartæki. Stærri hluti barna og fullorðinna með mikla heyrnarskerðingu getur nýtt kuðungsígræðslubúnað vel til að heyra og læra talmál og hafa talmál sem sitt fyrsta samskiptamál. Búnaðurinn er í stöðugri þróun og hefur verið í notkun í um 40 ár. Árangur aðgerða hefur orðið betri og betri eftir því sem tækninni fleygir fram. Einnig hafa rannsóknir undanfarinna ára og reynsla hjálpað okkur til að meta hvers fólk má vænta eftir aðgerðina, hvernig endurhæfing gengur og hvert markmið hennar er, en það er mismunandi á milli einstaklinga. Um 150 einstaklingar á Íslandi hafa þegið kuðungsígræðslu. Yngsta íslenska barnið sem hefur farið í kuðungsígræðsluaðgerð var átta mánaða og elsti einstaklingurinn 85 ára. Tæknin getur nýst öllum aldurshópum ef læknisfræðilegar rannsóknir benda til að viðkomandi falli inn í þann hóp sem getur nýtt sér tæknina og farið í gegn um endurhæfingarferlið eftir aðgerð.

Með kuðungsígræðslu er verið að endurskapa skynjun, sem einstaklingur hefur ekki haft eða er búinn að missa. Þetta er eina skynfærið sem er hægt að vekja með einfaldri aðgerð. Þetta hljómar eins og kraftaverk og er í rauninni kraftaverk í augum flestra sem ganga í gegn um kuðungsígræðsluferlið, fjölskyldna þeirra, samferðafólks og fagmanna. Fullorðnir velja aðgerðina til að auðvelda samskipti á talmáli og nýta heyrnina til að taka þátt í því sem fram fer í samfélaginu. Foreldrar velja aðgerðina fyrir börn sín til að gefa þeim möguleika á að kynnast heimi hljóðsins og læra þannig talmál, geta hlustað og upplifað öll hljóðin í umhverfinu sem segja okkur svo mikið. Leiðin að því að ná góðri heyrn reynist fólki miserfið og flókin og tengist þáttum eins og ástæðu heyrnarskerðingarinnar, hversu lengi hún hefur varað og hvernig endurhæfingin hefur gengið o.fl. Oft er gott að spjalla við einstaklinga eða foreldra sem hafa verið í þessum sporum. Starfsfólk Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar leitast við að styðja einstaklinga eins vel og mögulegt er í gegn um kuðungsígræðsluferlið.

Heyrnarskerðing og afleiðingar hennar er mjög kostnaðarsöm fyrir samfélagið. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni tengist mesti kostnaður minni lífsgæðum sem heyrnarskertir lifa við og almennt verri heilsu hjá mikið heyrnarskertum, þetta er kostnaður sem hægt er að draga verulega úr með bættri og aðgengilegri meðferð heyrnarskertra og heyrnarlausra einstaklinga. Þrátt fyrir ofangreinda þekkingu setja stjórnvöld allt of lítið fé í að sinna heyrnarheilsu íslensku þjóðarinnar.

Lífsgæðarannsóknir sýna að það að hafa vel nýtanlega heyrn eykur lífsgæði einstaklingsins mikið, menntunarstig verður hærra, atvinnuþátttaka meiri og ævitekjur hærri. Góð heyrn getur seinkað elliglöpum og andleg og líkamleg heilsa orðið betri, samskipti eru okkur mikilvæg. Kuðungsígræðsla er þjóðhagslega hagkvæm aðgerð sem mikilvægt er að mikið heyrnarskertir hafi góðan aðgang að.

Enn sem komið er hefur reynst erfitt að fá leyfi heilbrigðisyfirvalda til að fjármagna það að hinn heyrnarlausi geti fengið ígræði í bæði eyru, með ákveðnum undantekningum þó. Nú vonumst við til að það sé að breytast, þetta er helsta baráttumálið í dag ásamt því að kostnaður við varahluti og viðgerðir á tækjum og búnaði verði myndarlega niðurgreiddur.

Höfundur er yfirlæknir Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands.

Höf.: Ingibjörg Hinriksdóttir