Bækur
Einar Falur Ingólfsson
Indland gerir kraftaverk á dómgreindinni, sérstaklega á hitatímabilinu,“ (Does wonders for the judgement segir í frumtextanum og hefði verið nær að þýða með þeim orðum að Indland hefði undarleg áhrif á dómgreindina), segir einn forpokaðra karlanna í klúbbi Bretanna í hinni uppdiktuðu smáborg Chadrapore sem í þessari frægu skáldsögu E.M. Forsters er staðsett einhvers staðar á hásléttunni í Norður-Indlandi; staðhættir og landslagslýsingar þykja minna á ríkin Uttar Pradesh og Madhya Pradesh þar sem höfundurinn starfaði um hríð, í því síðarnefnda við hirð maharajans í Dewas. Og svo sannarlega kynnast lesendur vel byggðrar og áhrifaríkrar sögunnar alvarlegum dómgreindarskorti, andstyggilegum kynþátta- og stéttafordómum og helberri heimsku fólks sem á þó að vera vel menntað en beitir öllum ráðum til að halda í völd og áhrif í landi og samfélagi sem það botnar ekkert í, og hefur ekki áhuga á að skilja.
Á næsta ári verður öld liðin síðan Ferð til Indlands kom fyrst á prent og vakti mikla athygli, meðal annars vegna háðulegrar myndarinnar sem dregin er upp af bresku valdastéttinni í nýlendunni og samúðarinnar sem höfundurinn sýnilega hefur með heimamönnum, og einkum múslímunum – hindúarnir koma ekki jafn vel og þeir út úr frásögninni. Það er svo sannarlega tími til kominn að sjá þetta klassíska verk í íslenskri þýðingu. Forster skrifaði sex skáldsögur; þekktastar eru A Room with a View (1908), Howard's End (1910) og þessi, A Passage to India (1924), en árið 1984 leikstýrði David Lean afar vinsælli kvikmynd eftir sögunni.
Í upphafi sögu segir af hinni fullorðnu frú Moore sem er komin til Chadrapore að heimsækja son sinn sem er þar embættismaður; með henni kemur ungfrú Quested sem til stendur að verði eftir sem eiginkona sonarins. Breska samfélagið í borginni er ekki ánægt með þann áhuga sem konurnar tvær sýna menningu og samfélagi heimamanna. Á yfirborðskenndan hátt vilja Bretarnir sýna íbúum áhuga en þeir eru þó ekki velkomnir inn fyrir dyr í klúbbnum og í samtölum falla um þá mörg niðrandi orð og djúpir fordómar á borð við þessa: „Á þessum tuttugu og fimm árum hef ég aldrei vitað að neitt nema hörmung hljótist af því þegar Englendingar og Indverjar reyna að bindast nánum vináttuböndum. Samskipti, já. Kurteisi, fyrir alla muni. Náin vinátta – aldrei, aldrei“ (218).
Í kvöldgöngu rekst frú Moore í mosku einni á ungan lækni, Aziz
að nafni, og tekst með þeim slík
vinátta, með afdrifaríkum afleiðingum. Lesendur kynnast einnig litskrúðugum vinahópi Aziz þar sem flestir eru múslímar, en nokkrir hindúar eru líka í skrautlegu persónugalleríinu og síðast en ekki síst hálffimmtugur breskur skólastjóri sem staðsetur sig á milli hópanna. Hann hefur raunverulegan áhuga á tilveru og menningu heimamanna og fyrirlítur hræsni og framkomu landa sinna. Til að gleðja bresku konurnar skipuleggur Aziz leiðangur að fornum hellum ekki langt frá borginni, þrátt fyrir andúð breska samfélagsins á þeirri uppákomu, en það fer vægast sagt illa og veldur hörðum átökum milli hinna ólíku menningarheima, hinnar hrokafullu bresku valdastéttar og heimamanna.
Í vel mótaðri þriðju persónu frásögninni veitir Forster lesandanum innsýn í afstöðu og hugmyndir allra helstu persóna og samfélagshópa, með athyglisverðum hætti, og tekst vel að byggja upp stigvaxandi spennu sem hroki og skilningsleysi Bretanna á samfélagi og siðum heimamanna hleður undir. Eins og fyrr segir hafði Forster búið um hríð á Indlandi og þekkti vel til samfélagsins, eins og sjá má með margvíslegum og sannfærandi hætti. Tungumálið er litskrúðugt og blæbrigðaríkt og í frásögninni birtast ýmis indversk orð sem lýsa til að mynda störfum, tignarheitum og siðum, og eiga þátt í að skapa heim sögunnar.
Þýðandinn, Hjalti Þorleifsson, heldur þessum orðum að mestu og eru orðaskýringar aftast í bókinni. Sum orðanna kýs hann að íslenska með öðrum hætti en venjulega hefur verið gert. Menn af prestastétt, bramína, kallar hann þannig brahmana og timburhús Breta, bungalows, eða bungalóa, kallar hann bungala. Samræmi er lítið í því hvort slík orð eru löguð að íslensku beygingakerfi. Héraðshöfðingjar, sem iðulega hafa verið kallaðir maharajar á íslensku, eru hér óbeygðir Maharajah en liðsforingjar í her Breta kallaðir „offisérar“. Hjalti beitir síðan þeirri aðferð að þýða enskuna afar bókstaflega, að færa orðin nánast í sömu röð á íslensku. Það gerir textann iðulega stirðan, þýðingarblæinn mikinn og vantar í hann flæðið sem einkennir frummálið; það er sem lokaumritun á góða og lipra íslensku, með sambærilegu flæði á nýja málinu, sé eftir. Sem dæmi má taka að setningin His manner was unhappy and reserved er þýdd „Viðmót hans var óhamingjusamt og fálátt“ (111), sem er óneitanlega stirt, og þegar ferðalangar beygja sig niður þegar þeir ganga inn í hellana, inn í hæðirnar (Bending their heads, they disappeared one by one into the interior of the hills), segir: „Þau beygðu höfuðin og hurfu hvert á eftir öðru inn í innviði hæðanna“ (194). Á frummálinu er lögregluforingja lýst sem the most reflective and best educated of the Chandrapore officials. He had read and thought a good deal, and, owing to a somewhat unhappy marriage, had evolved a complete philosophy of life. Sem í þýðingunni er: „Hann hafði lesið og íhugað drjúgt og fyrir sakir fremur óhamingjusams hjónabands þróað með sér heildstæða lífsheimspeki“ (221).
Þá er orðaval á stundum skrýtið, eins og þegar talað er um skrautræmu í stað langs frásagnarmyndverks (frieze) (34) eða þegar mikill sviti safnast upp undir höfuðfötum (domes of hot water accumulated) og er þýtt „ávalir pollar af heitu vatni söfnuðust undir höfuðbúnaðinum“ (152), og stundum er það of uppskrúfað, til dæmis þegar Aziz er látinn hugsa að Bretar geti ekki gert að því hvað þeir séu cold and odd and circulating like an ice stream through his land – sem er þýtt sem „streymdu um land hans sem jökulröst“ (93).
Ferð til Indlands er klassísk bresk skáldsaga sem ánægjulegt er að lesa og kynnast, hvort sem er í fyrsta sinn eða í endurliti, klassískt verk um nýlendukúgun
sem fært er loks til íslenskra lesenda með frægt málverk R.D. MacKenzies af Durbar-keisaraskrúðgöngunni í Delí árið 1903 á kápu, sem á vel við. Þýðingunni tekst ekki nægilega vel að fanga lipurleika og stílfimi frumtextans en engu að síður er óhætt að mæla með þessari merku sögu.