HM-draumur Kári Jónsson leikur Spánverjann Pep Busquets grátt og skorar í leik liðanna í fyrrakvöld. Á morgun er það Georgía í Tbilisi.
HM-draumur Kári Jónsson leikur Spánverjann Pep Busquets grátt og skorar í leik liðanna í fyrrakvöld. Á morgun er það Georgía í Tbilisi. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Föstudaginn 25. ágúst verður flautað til leiks á nítjánda heimsmeistaramóti karla í körfubolta, sem leikið verður í þremur löndum í Austur-Asíu, Indónesíu, Japan og Filippseyjum. Þátttaka á þessu móti hefur ávallt verið fjarlægur draumur fyrir íslenska körfuboltamenn, vægast sagt

Körfubolti

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Föstudaginn 25. ágúst verður flautað til leiks á nítjánda heimsmeistaramóti karla í körfubolta, sem leikið verður í þremur löndum í Austur-Asíu, Indónesíu, Japan og Filippseyjum.

Þátttaka á þessu móti hefur ávallt verið fjarlægur draumur fyrir íslenska körfuboltamenn, vægast sagt. Þeir hafa aldrei verið nálægt því að komast í hóp 10-12 fremstu þjóða Evrópu, sem þarf til þess að ná inn á þetta stóra svið.

En nú eru breyttir tímar. Eftir einstaklega langa forkeppni og undankeppni, þar sem 20 leikir eru að baki á þremur árum, er íslenska landsliðið einum leik frá því að komast á HM í fyrsta skipti. Erfiðum útileik í Tbilisi gegn Georgíu á morgun, gegn þjóð sem er með körfuboltann sem sína vinsælustu íþrótt.

Georgía hefur leikið fimm sinnum í röð í lokakeppni EM og best náð 11. sætinu en reynir nú eins og Ísland að komast á HM í fyrsta skipti. Þegar landið tilheyrði Sovétríkjunum á síðustu öld komu margir af sterkustu leikmönnum sovéska landsliðsins frá Georgíu en þeir unnu þar til gullverðlauna á Ólympíumótum, á heimsmeistara- og Evrópumótum.

Gullaldarlið Georgíu

Lið Georgíu í dag er samt gull­aldarlið þjóðarinnar eftir frammistöðu þess á undanförnum tólf árum. Í því eru reyndir leikmenn sem hafa leikið á flestum eða öllum af þessum fimm síðustu Evrópumótum.

Íslensku landsliðsmennirnir fengu að kynnast styrkleika georgíska liðsins í Laugardalshöllinni í nóvem­ber þar sem Georgía knúði fram sigur í spennuleik, 88:85. Þeirra lykilmenn eru Tornike Shengelia, leikmaður Virtus Bologna á Ítalíu, og Thaddus McFadden, leikmaður Murcia á Spáni.

Georgíumenn léku við Hollend­inga á útivelli í fyrrakvöld og unnu þann leik, 88:80, eftir jafna baráttu. Þeir sigruðu Spánverja í heimaleiknum, 82:76 eftir framlengingu, og það segir meira en mörg orð um styrkleika liðsins og verkefnið sem bíður Íslendinga á morgun.

Aðeins 12 Evrópuþjóðir komast á HM en 32 þjóðir leika þar í lokakeppninni.

Níu Evrópuþjóðir eru komnar með HM-sætin í höfn en það eru Spánn, Ítalía, Þýskaland, Lettland, Slóvenía, Frakkland, Litháen, Grikkland og Finnland. Um þessi síðustu þrjú sæti berjast Ísland og Georgía, Serbía og Belgía, og svo Svartfjallaland, Bosnía og Ung­verjaland.

Aðrar þjóðir sem ljóst er að leika á HM eru gestgjafaþjóðirnar þrjár, Bandaríkin, Kanada, Nýja-Sjáland, Ástralía, Fílabeinsströndin, Líbanon, Kína og Jórdanía. Enn eru þrettán sæti laus, þar af þessi þrjú sæti Evrópu sem áður er getið.

Þrjár breytingar á liðinu

Craig Pedersen landsliðsþjálfari gerði þrjár breytingar á íslenska hópnum áður en liðið flaug til Tbilisi í gær, með sjö tíma biðtíma á Parísarflugvelli. Elvar Már Friðriksson, Kristófer Acox og Haukur Helgi Pálsson voru allir hvíldir í leiknum við Spánverja í fyrrakvöld vegna meiðsla en þeir eiga allir að vera leikfærir á morgun. Í stað þeirra sátu eftir heima þeir Ragnar Nathanaelsson, Hilmar Smári Henningsson og Kristinn Pálsson.

Höf.: Víðir Sigurðsson