Pétur Hoffmann Salómonsson fæddist 25. febrúar 1897 í Drápuhlíð í Helgafellssveit, Snæf. Foreldrar hans voru hjónin Salómon Sigurðsson, f. 1851, d. 1908, og Lárusína Lárusdóttir, f. 1873, d. 1942. Pétur lærði sjómannafræði og varð síðan stýrimaður og skipstjóri i mörg ár

Pétur Hoffmann Salómonsson fæddist 25. febrúar 1897 í Drápuhlíð í Helgafellssveit, Snæf. Foreldrar hans voru hjónin Salómon Sigurðsson, f. 1851, d. 1908, og Lárusína Lárusdóttir, f. 1873, d. 1942.

Pétur lærði sjómannafræði og varð síðan stýrimaður og skipstjóri i mörg ár. Hann rak jafnframt fisksölu, bæði innanlands og við útlönd. Hann var brautryðjandi á mörgum sviðum og flutti m.a. út ísaðan fisk í kössum, fyrstur Íslendinga.

Pétur gerði út á grásleppu í Selsvör í 18 vertíðir og lét hann lét slá peninga með mynd af sér, Selsvarardali, í kopar, silfur og gull. Hafa þeir lengi verið eftirsóttir safngripir, en Pétur var fyrsti og eini heiðursfélagi Myntsafnara­félags Íslands.

Stefán Jónsson skráði ævisögu Péturs og heitir hún Þér að segja: veraldarsaga Péturs Hoffmanns Salómonssonar. Þá gaf Pétur út margs konar bæklinga um óskyld efni.

Pétur setti alla tíð mikinn svip á umhverfi sitt og var einn af föstu punktunum í bæjarlífi Reykjavíkur á síðustu öld.

Hann eignaðist ellefu börn.

Pétur lést 18.10. 1980.