Sellóleikarinn „Sellóleikarar eru stöðugt að vitna í þessar svítur, læra á þær og koma aftur að þeim.“
Sellóleikarinn „Sellóleikarar eru stöðugt að vitna í þessar svítur, læra á þær og koma aftur að þeim.“ — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Sæunn Þorsteinsdóttir sellóleikari flytur þjár sellósvítur eftir Johann Sebastian Bach á einleikstónleikum í Norðurljósum Hörpu á morgun kl. 16. Hún leikur einnig kafla úr svítu eftir Benjamin Britten og verk eftir Þuríði Jónsdóttur

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Sæunn Þorsteinsdóttir sellóleikari flytur þjár sellósvítur eftir Johann Sebastian Bach á einleikstónleikum í Norðurljósum Hörpu á morgun kl. 16. Hún leikur einnig kafla úr svítu eftir Benjamin Britten og verk eftir Þuríði Jónsdóttur.

Tónleikarnir í Hörpu eru haldnir í tilefni af útkomu einleiksdisks undir merkjum bandarísku útgáfunnar Sono Luminus. Sá diskur kemur út í júní og þar flytur Sæunn allar sex sellósvítur Bachs. Árið 2020 flutti Sæunn þessar sex sellósvítur eina í einu í sex mismunandi kirkjum vestur á fjörðum. Sumir tónleikagestir fylgdu Sæunni kirkju úr kirkju, úr firði í fjörð, og heyrðu því allar svíturnar.

Beinlínis töfrandi

Um tilefni þessara kirkjutónleika segir Sæunn: „Árið 2020 voru þrjú hundruð ár frá því Bach samdi þessar svítur, sem eru biblíur sellóleikarans, og mig langaði til að halda upp á það. Sellóleikarar eru stöðugt að vitna í þessar svítur, læra á þær og koma aftur og aftur að þeim.

Ég vildi halda tónleika þar sem virkilega væri hægt að finna fyrir ferlinu frá fyrstu svítunni yfir í þá sjöttu. Fyrsta svítan er einföld, önnur svítan er í moll og er drungalegri, sú er þriðja er í C-dúr og er bjartari, fjórða er í Es-dúr sem er flóknara að spila á selló, fimmta er djúp og flókin og sú sjötta er í D-dúr og brilljant og skrifuð fyrir selló sem var með fimm strengi. Mig langaði til að fólk skynjaði og heyrði þetta ferli og það gerðist þegar tónlistin var flutt á milli kirkna.“

Vinna með tónskáldum

Um flutninginn á sellóverkunum í þessum kirkjum segir hún: „Þetta eru sveitakirkjur þannig að þær eru ekki stórar en hljómburðurinn er svo frábær, þannig að þetta var alveg einstakt. Það var troðfullt og fólk var líka úti að hlusta í gegnum gluggann. Þetta var beinlínis töfrandi.“

Á tónleikunum leikur Sæunn einnig kafla úr svítu eftir Benjamin Britten sem er á fyrstu hljómplötu hennar. „Það sem mér finnst svo skemmtilegt er að Britten ætlaði að skrifa sex svítur alveg eins og Bach en hafði einungis samið þrjár þegar hann lést. Mér finnst það ekki vera tilviljun að þessar þrjár svítur eiga heima í sömu tóntegund og Bach-svíturnar. Í byrjun tónleikanna spila ég fyrstu Bach-svítuna og síðan kafla úr annarri Britten-svítunni þannig að tónleikagestir eiga að heyra muninn og einnig skynja tenginguna.“

Verkið 48 Images of the Moon eftir Þuríði Jónsdóttur verður líka flutt á tónleikunum en það verk samdi Þuríður sérstaklega fyrir Sæunni og það var hljóðritað fyrir aðra plötu hennar. „Eitt af því skemmtilegasta sem ég geri er að vinna með tónskáldum. Það var frábært að fá þetta verk og líka að geta unnið með Þuríði og spilað fyrir hana,“ segir Sæunn.

Sæunn býr í Cincinnati í Bandaríkjunum þar sem hún kennir við tónlistarháskólann Cincinnati College-Conservatory of Music. Hún heldur tónleika víða um heim, kemur til dæmis reglulega fram í Carnegie Hall. Hún er staðarlistamaður Sinfóníuhljómsveitar Íslands og eru tónleikar morgundagsins hluti af því samstarfi. Í lok mars flytur Sæunn sellókonsert nr. 1 eftir Shostakovitsj á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu. Hún kemur síðan aftur heim í sumar til að taka þátt í tónlistarhátíðinni Við Djúpið á Ísafirði.

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir