Guðmundur Kristján Jensson kennari fæddist 8. febrúar 1950. Hann lést 26. janúar 2023. Útför hans fór fram 6. febrúar 2023.

Mig langar hér í fáeinum orðum að minnast míns góða vinar, Guðmundar Jenssonar, sem lést hinn 26. jan. sl. eftir stutt en erfið veikindi. Við Guðmundur kynntumst veturinn 1974-1975 en þá vorum við báðir kennarar, hann við Barnaskólann en ég við Gagnfræðaskólann í Vestmannaeyjum. Ég fann snemma að Guðmundur var traustur maður og naut virðingar meðal þeirra sem störfuðu með honum og þeim sem umgengust hann utan vinnutíma. Hann var félagshyggjumaður fram í fingurgóma, hafði til að bera ríka réttlætiskennd og studdi jafnan málstað þeirra sem börðust fyrir bættum kjörum til handa almenningi. Guðmundur lét til sín taka í Alþýðubandalaginu í Vestmannaeyjum og var þar jafnan í forystusveit. Í starfinu þar nýttust vel fjölmargir kostir hans og þau lífsgildi sem hann stóð fyrir.

Guðmundur var skemmtilegur maður og mikill húmoristi. Það var hrein unun að hlusta á hann segja frá, því það gerði hann með miklum glæsibrag, stundum með látbragði og jafnvel eftirhermum. Hann var einstaklega orðheppinn og var alltaf fljótur að sjá hinar spaugilegu hliðar mannlífsins. Mig langar að rifja hér upp litla frásögn sem mér þykir afar vænt um og tengist okkur vinunum báðum.

Við nokkrir félagar áttum á sínum tíma saman trilluna Pipp VE 14. Útgerðin gekk upp og ofan og engin settum við aflametin. Eitt sinn brugðum við á það ráð að fá nýtt fjármagn inn í útgerðina með því að kaupa fjóra happdrættismiða hjá SÍBS. Guðmundi leist raunar ekki vel á þessa hugmynd. En meirihlutinn réð og miðarnir voru keyptir. Allt kom þó fyrir ekki, hagur útgerðarinnar vænkaðist ekki þótt fullyrt væri að fjórði hver miði gæfi vinning.

Svo gerðist það eitt sinn að samkennari okkar og vinur, Ólöf Margrét, fékk að fara með í róður suður á Svið. Veðrið var einstaklega gott, við strákarnir settum færi í sjó en Ólöf sat uppi á stýrishúsi, fylgdist með og hvatti okkur til dáða. Og viti menn, allt í einu og okkur öllum fullkomlega að óvörum var fiskur á hverju járni og hélt svo áfram þar til við höfðum aflað eitthvað á annað tonn af fallegum þorski. Kættumst við þá öll og barnsleg gleði skein af hverju andliti. Ólöf fór meira að segja að syngja hárri raust uppi á stýrishúsinu.

Þegar í land var komið gengum við um á bryggjunni og slógum um okkur eins og sannar aflaklær. Það var á þessu augnabliki að Guðmundur sagði við mig: Nú er ekkert sem heitir, við segjum upp happdrættismiðunum hjá SÍBS og munstrum Ólöfu Margréti á Pipp. Þá getum við um frjálst höfuð strokið fjárhagslega.

Þegar við nú kveðjum Guðmund Jensson renna í gegnum hugann margar þær dýrmætu stundir sem við áttum með honum. Þær voru skemmtilegar og uppbyggilegar og sýndu hve heilsteyptur, áreiðanlegur og hlýr hann var. Ég var heppinn að eiga slíkan öðling fyrir vin.

Elsku Guðmunda, Ingunn, Alexander og Guðjón Ingi. Við hjónin sendum ykkur samúðarkveðjur. Góður drengur er genginn en minning hans lifir með okkur öllum.

Ragnar Óskarsson.