Erla Jónsdóttir fæddist 1. apríl 1927. Hún lést 2. febrúar 2023. Útförin fór fram 2. mars 2023.

Tengdamóðir mín, Erla Jónsdóttir, er látin eftir langvinn og erfið veikindi, nær 96 ára að aldri. Hún var fædd á Djúpavogi þar sem hún ólst upp, dóttir hjónanna Jóns Sigurðssonar og Sigurbjargar Lúðvíksdóttur.

Ung að árum lá leið hennar til Reykjavíkur þar sem hún gekk í Verslunarskólann og lauk þaðan verslunarprófi. Lengst af starfaði hún á endurskoðunarskrifstofu manns síns, Björns Björgvinssonar, en síðustu árin vann hún á skrifstofu Oddfellow-reglunnar. Hún var enda búin að vera félagi í Reglunni yfir fimmtíu ár og hafði gegnt þar ýmsum embættum.

Það var árið 1996 sem ég hitti Erlu í fyrsta sinn en þá vorum við elsta dóttir hennar farin að stinga saman nefjum. Það er skemmst frá því að segja að hún tók mér afar vel frá fyrstu tíð og hvatti mig eindregið til þess að gerast félagi í Oddfellow-reglunni hvað ég og gerði.

Erla var að nálgast starfslok þegar þarna var komið en var vel á sig komin og stundaði útivist og hreyfingu meðan heilsan leyfði. Hún var ákaflega handlagin og lék flest í höndunum á henni og minnist ég þess að hún saumaði gluggatjöld fyrir glugga í húsinu okkar og var ekki lengi að því. Hún var ávallt snyrtilega klædd og hafði gaman af því að eiga og klæðast fallegum fötum.

Þegar árin færðust yfir tók heilsan að bila og síðustu árin dvaldist hún á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ þar sem hún naut góðrar umönnunar. Einna mest gaman hafði hún af því að fá yngstu afkomendurna í heimsókn og gladdist innilega við komu þeirra.

Langri og viðburðaríkri ævi er lokið og ég kveð tengdamóður mína með þakklæti fyrir allt það sem hún var mér og foreldrum mínum en um tíma bjuggu þau öll í sama húsi. Blessuð veri minning Erlu Jónsdóttur.

Ólafur H. Jónsson.

Við minnumst móðurömmu okkar með hlýhug í dag og þegar við hugsum til hennar rifjast upp margar góðar æskuminningar. Hún var þekkt fyrir myndarskap og var alltaf með heimalagað góðgæti á borðum þegar við komum í heimsókn. Minningin um hvíta sykurkremið á súkkulaðibotna á sérstakan stað í huga okkar og hangikjötið og uppstúf á jólunum. Þá þótti okkur sem ungum stelpum mikilsvert að eiga ömmu sem átti vídeótæki og spólur með barnaefni sem hún tók upp úr sjónvarpinu fyrir okkur. Þættirnir um Nonna og Manna eru minnisstæðir og horfðum við oft á þá heima hjá henni. Amma safnaði líka ýmsu dóti fyrir barnabörnin sín sem hún keypti í sumarfríunum sínum erlendis. Eitt sumarið kom hún heim með stóra dúkku sem leit út alveg eins og ungabarn. Við systurnar höfðum aldrei séð slíka dúkku áður og urðum alveg heillaðar af henni. Erla systir fékk þann heiður að halda á dúkkunni undir skírn í sex ára afmælisveislunni sinni.

Amma vann lengi í Oddfellow-húsinu í Vonarstræti en þaðan eigum við margar góðar æskuminningar. Á hverju ári bauð hún okkur á jólaskemmtun Oddfellow sem voru glæsilegar; rifjast upp minningar um jólasveina með konfektpoka, hlaðborð af kökum, heitt súkkulaði og gos í flöskum. Síðan var sumarskemmtun alltaf í apríl þar sem húsinu var breytt í skemmtigarð með alls kyns tækjum og skipulögðum leikjum.

Amma var einstaklega umhyggjusöm kona og var alltaf til staðar á mikilvægum tímamótum í okkar lífi. Hún aðstoðaði við veislur og voru margar þeirra haldnar í Oddfellow-húsinu og síðar á Aflagranda þar sem hún átti heima síðustu árin. Amma hafði gaman af því að ferðast og notaði hvert tækifæri til að heimsækja okkur. Hún kom í heimsókn til Danmerkur sumarið 2002 og til Belgíu árið 2004 þegar Ingunn og Elvar voru þar í framhaldsnámi. Á 80 ára afmælinu sínu árið 2007 kom hún til Kaupmannahafnar í skírnarveisluna hennar Eriku Kristínar. Við áttum góðar stundir með ömmu á þessum ferðalögum hennar.

Amma var með ríka sköpunargáfu og var handavinna stór hluti af hennar lífi. Hún var líka dugleg að föndra fyrir Oddfellow og bjó hún lengi til jólaskreytingar sem seldar voru til góðgerðarmála. Hún saumaði fallega jóla- og fermingakjóla á okkur og prjónaði fjölmargar ullarflíkur á langömmubörnin sín. Alltaf gaf hún fallegar jóla- og afmælisgjafir og oft hluti sem hún útbjó sjálf sem okkur þykir vænt um.

Við minnumst ömmu okkar með þakklæti fyrir allan þann kærleik og hlýju sem hún sýndi okkur. Minning þín lifir í hjörtum okkar.

Leiddu svo ömmu góði guð

í gleðinnar sælu lífsfögnuð,

við minningu munum geyma.

Sofðu svo amma sætt og rótt,

við segjum af hjarta góða nótt.

Það harma þig allir heima.

(Halldór Jónsson frá Gili)

Þín barnabörn

Ingunn og Erla.