Arnar Ingi Guðbjartsson fæddist 11. janúar 1990. Hann lést 25. janúar 2023. Útför hans fór fram 16. febrúar 2023.

Elsku Arnar Ingi okkar. Að þú sért farinn frá okkur er enn svo óraunverulegt og óskiljanlegt. Að svona ungur maður í blóma lífsins fái ekki að vera lengur hjá okkur.

Eitt sem lífið hefur kennt mér það er að finna þakklætið. Þakklæti er svo mikilvægt í lífi okkar og hjálpar okkur að takast á við erfiðleikana.

Ég er þakklát fyrir að þú naust lífsins í botn og gerðir mikið af því sem þú elskaðir. Þegar þú eignaðist Fanneyju Rán þína þroskaðist þú mjög hratt ungur að aldri og þú elskaðir að vera pabbi hennar. Við áttum stelpurnar okkar á svipuðum tíma og urðu þær svo góðar vinkonur og finnst mér það svo dýrmætir tímar. Við skiptumst á að bjóða þeim saman í sund, bíó, gista saman og fleira og þar tengdist ég þér betur.

Ég er þakklát fyrir að þú stundaðir mótorkross, MMA og allar þær íþróttir sem þú elskaðir. Þú áttir líka svo fallegt og gott samband við foreldra þína og systur og ég veit að þegar maður á svona fallegt samband þá er sárara að missa en það er líka af því að samband ykkar var svo gott.

Þú varst jarðtengdur strákur og í veikindum þínum veit ég að það hjálpaði þér. Við áttum svo góð samtöl saman á spítalanum og þau er ég svo þakklát fyrir.

Síðasta skiptið þegar ég heimsótti þig og þú varst orðinn mjög veikur og máttfarinn náðir þú samt að segja „ég elska þig“ þegar ég kvaddi þig og það þykir mér óendanlega vænt um. Það segir líka svo mikið um hver þú varst, þú hugsaðir alltaf svo vel um alla í kringum þig.

Ég elska þig elsku Arnar minn og ég veit að þú lifir enn í hjarta okkar allra og ert kominn í góða arma hjá ömmu Steinu og ömmu Báru og þær passa vel upp á þig.

Þín frænka,

Unnur.

Elsku Arnar, mér finnst svo óraunverulegt að kveðja þig, svo rangt. Þín hlýtur að hafa beðið eitthvert mikilvægt verkefni á öðrum stað. Þú varst bróðursonur minn og hefur alltaf verið litli frændi minn þótt vissulega væru ekki nema tvö ár á milli okkar.

Mér finnst alltaf hálfskondin sagan af því þegar föðursystur þínar ætluðu að koma að kíkja á þig uppi á spítala þegar þú varst nýfæddur og þá komu ég og Unnur systir trítlandi inn ganginn, tveggja og fimm ára, með mömmu og pabba að kíkja á litla sæta frænda okkar.

Þú varst alltaf bestur, svo hjartahlýr og yndislegur. Þú heilsaðir alltaf með faðmlagi og kvaddir sömuleiðis með faðmlagi og fallegum orðum. Þú sparaðir aldrei fallegu orðin og varst ekki feiminn við að sýna þína mjúku hlið og lést alla í kringum þig finna að þeir skiptu þig máli.

Nokkrum dögum áður en þú kvaddir gengum við Unnur systir saman eftir spítalaganginum til þess að heimsækja litla frænda okkar og okkur grunaði að það yrði í síðasta sinn. Þú svafst svo djúpt en varst allur á iði. Ég var viss um að þú værir í bardaga í draumum þínum, en það er nokkuð sem þú hefðir átt að vera að gera í raun, að fá að stunda bardagaíþróttirnar þínar og fá að lifa lífinu. Þegar ég kvaddi þig og kyssti þig á ennið heyrðist „ég elska þig“ undir súrefnisgrímunni. Svona varst þú elsku Arnar, alltaf svo góður og yndislegur. Ég geymi þessi orð í hjarta mínu að eilífu og elsku Arnar Ingi ég elska þig líka og mun alltaf gera.

Ég veit að mamma hefur tekið á móti þér með opinn faðminn en ég hugsa oft hvað henni hefði þótt þetta óbærilegt, eins og okkur öllum.

Hvíldu í friði elsku hjartans litli frændi minn.

Elín Erlendsdóttir.