Frá Skarfanesi Hekla í baksýn. Reyniviður úr garði hefur sáð sér og komið sér vel fyrir í skjóli við hlöðuvegg sem enn stendur.
Frá Skarfanesi Hekla í baksýn. Reyniviður úr garði hefur sáð sér og komið sér vel fyrir í skjóli við hlöðuvegg sem enn stendur. — Morgunblaðið/Gísli Sigurðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Málfræðingurinn Veturliði Óskarsson, prófessor í norrænum tungumálum við Uppsala-háskóla í Svíþjóð, er búinn að dusta rykið af gömlu loforði um að skrifa um örnefnið Skarfanes, með vísun í Skarfanes í Landsveit, þar sem land er skógi vaxið. „Segja má að þar sé að finna vin í eyðimörk umlukta Þjórsárhrauni, sandi og örfoka melum,“ segir Meyvant Þórólfsson, fyrrverandi kennari á Laugalandi í Holtum, um þessa afskekktu jörð, en hann er meðal þeirra sem hafa látið sig varða sögu þessa landsvæðis.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Málfræðingurinn Veturliði Óskarsson, prófessor í norrænum tungumálum við Uppsala-háskóla í Svíþjóð, er búinn að dusta rykið af gömlu loforði um að skrifa um örnefnið Skarfanes, með vísun í Skarfanes í Landsveit, þar sem land er skógi vaxið. „Segja má að þar sé að finna vin í eyðimörk umlukta Þjórsárhrauni, sandi og örfoka melum,“ segir Meyvant Þórólfsson, fyrrverandi kennari á Laugalandi í Holtum, um þessa afskekktu jörð, en hann er meðal þeirra sem hafa látið sig varða sögu þessa landsvæðis.

Veturliða er málið skylt, því afi hans og amma, Finnbogi Höskuldsson frá Stóra-Klofa í Landsveit og Elísabet Þórðardóttir frá Gröf í Hrunamannahreppi, keyptu Skarfanes og hófu þar búskap 1898 auk þess sem þau ræktuðu upp landið og skóginn, sem var illa farinn vegna harðinda. „Ég er langyngstur barnabarnanna og hitti ekki afa og ömmu, en hef komið að Skarfanesi reglulega og kynnt mér söguna.“ Þarna hafi verið kjarr eða skógur öldum saman en vegna uppblásturs, ekki síst á 19. öld, hafi blásið mikið ofan frá Heklusvæðinu og Búrfellssvæðinu með þeim afleiðingum að landið hafi farið á kaf í sand.

Gamalt örnefni

Í Ársriti Skógræktarfélags Íslands 1941 segir Hákon Bjarnason skógræktarstjóri meðal annars frá uppblæstri í Landsveit á 19. öld og byggir greinina á frásögnum þriggja bænda, þar á meðal á texta frá Finnboga. „Landsveitin hefir eyðzt svo ört og stórkostlega á síðustu öld, að eins dæmi mun vera,“ skrifar Hákon. Fram kemur að harðindin hafi verið mikil 1830 til 1836 og þá hafi jörðin Skarfanes farið í eyði en verið byggð aftur 1838. Heklugosið 1845 hafi veitt mönnum þungar búsifjar og sandfok hafi aldrei legið niðri.

Hákon hefur orðrétt eftir Finnboga að þá um vorið hafi skógurinn verið í slæmu ásigkomulagi. „Sá vetur, 1897-1898, var um langan tíma eftir það nefndur „snjóaveturinn mikli“, enda tók alveg fyrir síðustu hagana, sem litlir voru áður, að aflíðandi nýári. Upp frá því skiptist á fram í marz snjókoma og blotar, og komu fyrstu hólmarnir upp úr jöklinum eftir miðjan apríl. Af þessum löngu jarðbönnum leiddi, að fé bóndans, sem bjó þar á undan mér, varð að lifa að miklu leyti á viðnum. Þar sem það vegna snjóþyngslanna gat ekki komizt nema á nokkurn hluta skógarans, þá varð sá hluti, sem féð gekk um, ólíklegur til að blómga framar. Allar greinar voru gersamlega smurðar ofan af stofninum og sums staðar nagaður börkurinn. Með því að ég gaf fénu alltaf hey með viðnum, þá greru þessi skógarsár með tíð og tíma“.

Á fyrsta tug 20. aldar voru hríslur í Lambhaga, skóginum ofan við Skarfanes, lágvaxnar. „Skógurinn umhverfis húsin og fyrir sunnan þau var hvergi hærri en 1 meter,“ skrifaði Finnbogi um stöðuna þegar beitarhúsin voru lögð niður 1926, en hjónin seldu Skógrækt ríkisins landið á fimmta áratug liðinnar aldar. „Það er nú orðið ansi gróið og mjög fallegt,“ segir Veturliði.

„Örnefnið Skarfanes er ævagamalt,“ heldur Veturliði áfram og bendir á að það komi fyrir í sumum handritum Landnámabókar. Uppruninn sé óviss en ólíklegt sé að það hafi verið nefnt eftir sjófuglinum skarfi. „Að ég best veit fer hann aldrei svo langt frá hafi sem Skarfanes er.“ Inni í landi í Noregi og Svíþjóð séu dæmi um skarf sem orðhluta og þá sé jafnan vísað í klappir. „Ég hef velt því fyrir mér hvort bæjarnafnið eigi við um einhverjar klappir eða annað í landslaginu.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson