Veggjakrot Starfsmenn borgarinnar og ýmissa verktaka þurfa reglulega að þrífa veggjakrot af byggingum og umferðarmannvirkjum. Kostnaður við þrifin nam 22 milljónum króna í fyrra en hefur oft verið hærri.
Veggjakrot Starfsmenn borgarinnar og ýmissa verktaka þurfa reglulega að þrífa veggjakrot af byggingum og umferðarmannvirkjum. Kostnaður við þrifin nam 22 milljónum króna í fyrra en hefur oft verið hærri.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Veggjakrot er mjög hvimleitt. Það á að kæra það til lögreglu eins og hvert annað skemmdarverk,“ segir Hjalti J. Guðmundsson, skrifstofustjóri skrifstofu reksturs og umhirðu borgarlands hjá Reykjavíkurborg.

Sviðsljós

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Veggjakrot er mjög hvimleitt. Það á að kæra það til lögreglu eins og hvert annað skemmdarverk,“ segir Hjalti J. Guðmundsson, skrifstofustjóri skrifstofu reksturs og umhirðu borgarlands hjá Reykjavíkurborg.

Veggjakrot hefur verið nokkuð til umræðu eftir að ósvífinn krotari fór um Vesturbæ Reykjavíkur um næstsíðustu helgi og framdi skemmdarverk á mörgum stöðum. Krotaði hann táknið HMP á veggi, girðingar og íbúðarhús. Eitt af þeim húsum sem krotað var á var húsnæði Melabúðarinnar en þar náðust myndir af skemmdarvargnum í öryggismyndavél. Myndefnið er hjá lögreglu og málið er til rannsóknar, að sögn Ásmundar Rúnars Gylfasonar aðstoðaryfirlögregluþjóns.

Mikill kostnaður hlýst af þrifum á veggjakroti á hverju ári. Þetta sést á tölum sem Morgunblaðið fékk frá Reykjavíkurborg en vert er að taka fram að þær eiga einungis við um svokallaða borgarveggi. Umræddar tölur ná ekki til þrifa á fasteignum almennings, stofnana og fyrirtækja.

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg skiptist hreinsun á veggjakroti í nokkra flokka. Stærsti einstaki flokkurinn er fasteignir borgarinnar, þar á meðal grunn- og leikskólar. Kostnaður við þrif á fasteignum nam tæpum 11 milljónum króna í fyrra. Árið 2021 var kostnaðurinn við þau þrif rúmar 13 milljónir og árið 2020 rúmar 11 milljónir. Árið 2019 var kostnaðurinn rúmar 12 milljónir og árið 2018 nær 10 milljónir.

Kostnaður við hreinsun og yfirmálun á umferðarmannvirkjum, götugöngum, leiktækjum og mannvirkjum á opnum svæðum var um 11 milljónir króna í fyrra. Árið 2021 fóru 18 milljónir í hreinsun og yfirmálun og 19 milljónir árið 2020 en þar af voru fimm milljónir í tengslum við sérstakt átak um sumarið sem borgin vann í samvinnu við íbúa og rekstraraðila. Ellefu milljónir fóru í kostnað bæði árin 2019 og 2018.

Þegar síðustu fimm ár eru skoðuð í samhengi virðist sem umfang veggjakrots hafi verið svipað ár hvert. Tölur borgarinnar um kostnað gefa það í það minnsta til kynna. Þegar tímabilið er skoðað í heild sinni er þó ljóst að talsverður kostnaður hlýst af. Á fimm ára tímabili fóru tæpar 130 milljónir króna í að þrífa veggjakrot.

Hjalti segir að reynt sé að þrífa eigur borgarinnar eins fljótt og auðið er og ábendingar um veggjakrot hjálpi mikið. Reglulega sé farið yfir undirgöng og aðra fleti sem vinsælir eru til krots enda sé það uppleggið að það fái ekki að lifa lengi. „Því miður er rosalega erfitt að hafa hendur í hári veggjakrotara nema þeir séu staðnir að verki. Það er nánast vonlaust nema kannski að settar yrðu upp myndavélar á vinsæla staði,“ segir Hjalti sem bendir einnig á að almennir borgarar þurfi oft að bera mikinn kostnað ef þeir lenda í kroturum. „Sérstaklega á húsum sem eru með hraunhúð sem er bæði erfitt og rándýrt að gera við. Það er ekkert grín að lenda í slíku.“

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon