Óstöðvandi Gísli Þorgeir Kristjánsson kom að 13 mörkum í gær.
Óstöðvandi Gísli Þorgeir Kristjánsson kom að 13 mörkum í gær. — Morgunblaðið/Hallur Már
Þýskalandsmeistarar Magdeburg unnu frábæran sigur á toppliði Füchse Berlín, 34:29, þegar liðin áttust við í toppslag í þýsku 1. deildinni í handknattleik í gær. Sigur Íslendingaliðs Magde­burg var afar mikilvægur fyrir liðið í toppbaráttunni þar sem …

Þýskalandsmeistarar Magdeburg unnu frábæran sigur á toppliði Füchse Berlín, 34:29, þegar liðin áttust við í toppslag í þýsku 1. deildinni í handknattleik í gær.

Sigur Íslendingaliðs Magde­burg var afar mikilvægur fyrir liðið í toppbaráttunni þar sem liðið er áfram í fjórða sæti en nú með 33 stig, fjórum stigum á eftir Rhein-Neckar Löwen og Füchse í efstu tveimur sætunum og á auk þess tvo leiki til góða á þau bæði. Sigri Magdeburg í þeim báðum jafnar liðið efstu liðin tvö að stigum.

Gísli Þorgeir Kristjánsson fór á kostum í liði Magdeburg og skoraði átta mörk ásamt því að gefa fimm stoðsendingar fyrir liðsfélaga sína. Ómar Ingi Magnússon er frá út tímabilið vegna meiðsla en í fjarveru hans skoraði hollenska skyttan Kay Smits 10 mörk fyrir liðið og var markahæstur í leiknum.

Sigur Magdeburg hefði getað greitt götu Kiel til þess að koma sér í bestu stöðuna af öllum toppliðunum en liðið tapaði óvænt fyrir Íslendingaliði Leipzig, 31:34, á heimavelli í gær.

Viggó Kristjánsson átti stór­leik fyrir Leipzig þar sem hann skoraði sjö mörk og gaf sex stoðsendingar að auki. Rúnar Sigtryggsson þjálfar liðið.

Eftir sigurinn er Leipzig í sjöunda sæti með 22 stig. Kiel er áfram í þriðja sæti með 34 stig og á einn leik til góða á toppliðin tvö.

Teitur Örn Einarsson komst ekki á blað hjá Flensburg þegar liðið vann góðan heimasigur á Hamburg, 34:32.

Flensburg er enn með í toppbaráttunni enda í fimmta sæti með 32 stig og á einn leik til góða á efstu tvö liðin.