Anna Þóra Árnadóttir var fædd 26. júlí 1958. Hún lést á krabbameinsdeild Landspítalans við Hringbraut 24. febrúar 2023. Foreldrar hennar voru Árni Guðmundsson, skipstjóri frá Höfða í Suður-Múlasýslu, f. 20. september 1919, d. 23. apríl 1992, og Halldóra Auður Jónsdóttir, húsmóðir frá Stapakoti í Innri-Njarðvík, f. 20. júlí 1924, d. 23. apríl 2005.

Anna var næstyngst af fimm systkinum:

1) Ingibjörg Jóna Árnadóttir, f. 23. maí 1949, d. 14. júní 2019.

2) Árni Auðunn Árnason, f. 30. mars 1951.

3) Helgi Árnason, f. 5. desember 1953.

4) Vilhjálmur Árnason, f. 16. apríl 1968.

Anna giftist 21. desember 1985 Jóni Má Jónssyni vélfræðingi, f. 1. febrúar 1957 á Akureyri. Foreldrar hans: Kristrún Bjarnar Arnfinnsdóttir frá Neskaupstað f. 31. mars 1934, d. 13. nóv. 2002, og Jón Laxdal Jónsson frá Akureyri, f. 18. október 1932. Uppeldisfaðir Jóns Más er Kristján Berg Vilmundarson frá Neskaupstað, f. 8. desember 1938, og sambýliskona hans er Kolbrún Guðmundsdóttir, f. 12. ágúst 1950.

Börn Önnu og Jóns eru:

1) Sigurður Vilmundur Jónsson, véla- og orkutæknifræðingur, f. 1985 í Neskaupstað, giftur Auði Jónu Skúladóttur, BA í félagsfræði, f. 1987. Börn þeirra eru Logi Snæberg Sigurðsson, f. 2014, og Rúna Dögg Sigurðardóttir, f. 2017.

2) Halldóra Auður Jónsdóttir, iðnhönnunarverkfræðingur, f. 1989 í Neskaupstað, gift Jóni Brúnsteð Jóhannessyni vélaverkfræðingi, f. 1990.

Anna ólst upp í Skeiðarvogi í Reykjavík þar sem hún gekk í Vogaskóla. Síðar stundaði hún nám við Menntaskólann við Sund og lauk þaðan stúdentsprófi. Anna lauk prófi í sjúkraþjálfun frá Háskóla Íslands 1983.

Anna fluttist austur til Neskaupstaðar til þess að starfa sem sjúkraþjálfari árið 1984, en ætlaði þó ekki að ílengjast þar. Raunin varð önnur og Anna giftist Jóni Má í desember 1985, sama ár og þau eignuðust Sigurð Vilmund. Fjórum árum seinna bættist í hópinn Halldóra Auður. Anna greindist með brjóstakrabbamein 45 ára gömul í fyrsta sinn og sigraðist hún á þeim veikindum. Anna starfaði sem sjúkraþjálfari á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað allt fram að því að hún fór í veikindaleyfi, þegar hún greindist með brjóstakrabbamein í annað sinn.

Anna tók virkan þátt í félagsstarfi, og sat meðal annars í stjórn Krabbameinsfélags Austfjarða, ásamt því að hafa verið yfirmeistari í Oddfellow, rb. st. nr, 15. Anna sat einnig í stjórn Hollvinasamtaka FSN.

Önnu þótti gaman að ferðast og gerði það allt sitt líf. Hún hafði líka gaman af siglingum og fór í nokkrar ferðir tengdar því. Anna var iðin við að prjóna en hafði einnig gaman af því að stunda laxveiði.

Anna Þóra verður jarðsungin frá Norðfjarðarkirkju í dag, 6. mars 2023, og hefst athöfnin klukkan 13.

Anna lést eftir erfiða baráttu við krabbamein síðastliðin tvö ár. Okkur eru ofarlega í huga hlýjar minningar frá þeim tíma sem við áttum með henni, þó svo að sársaukinn við að missa hana svo löngu fyrir aldur fram sé mikill.

Við vitum hversu erfitt Önnu fannst að verða sjúklingur og þurfa að þiggja aðstoð frá öðrum; venjulega var það Anna sem aðstoðaði aðra. „Ég er ekki svona mikill sjúklingur“ sagði hún þegar Halldóra og Jón Már studdu hana inn á sjúkrahúsið í síðasta skipti, sem vitnar um þann styrk sem hún bjó yfir allt fram að síðasta degi.

Mamma bjó yfir einstökum hæfileika til þess að hvetja fólk áfram og það er henni og pabba að þakka að við Siggi entumst í skóla. Sá stuðningur sem þau veittu okkur og sú trú sem þau hafa haft á því að við myndum geta allt sem við tökum okkur fyrir hendur varð til þess að okkur báðum vegnaði vel í skóla og vinnu. Mamma kenndi okkur leiðir til þess að takast á við þá hluti sem við eigum erfitt með og að það sé allt í lagi að vera ekki góður í öllu. Sérstaklega hjálpaði hún okkur að takast á við lesblindu og athyglisbrest, en eins og henni einni var lagið var hún orðin sérfræðingur í þeim málum, öllum kostum og göllum og notaði hún þá sérfræðiþekkingu til þess að gefa okkur sjálfstraust til þess að takast á við þau verkefni sem við tókum okkur fyrir hendur.

Mamma leitaði uppi bækur um tölvuleiki sem barnabörnin voru að spila, til þess að geta tekið þátt og hjálpað þeim. Það má því segja að hún hafi verið orðin sérfræðingur í Minecraft. Hún var barnabörnunum afar góð og sóttu þau mikið til hennar og nutu þess að vera hjá henni. Hún sýndi þeim mikla ást, umhyggju og áhuga. Hún lék sér með þeim í dótinu, fór með þeim út í göngur, út á sjó á bátnum og var dugleg að gera hina ótrúlegustu hluti með þeim. Eitt sinn keyrði hún um alla Austfirði í leit að aukahlutum í Playmo-kastala til að geta gert hann stærri og skemmtilegri, krökkunum til mikillar gleði.

Við höfum alltaf getað treyst á það að mamma fyndi svar við öllu. Ef okkur vantaði einhverjar upplýsingar þá var alltaf hægt að leita til hennar, vitandi það að hún myndi rannsaka málið við tölvuna og stæði ekki upp frá henni fyrr en hún vissi allt um málefnið, nema kannski til þess að fá sér kaffisopa. Hún var hreinlega alltaf með kaffi í bolla. Ef hún vaknaði á nóttunni laumaðist hún niður í eldhús til þess að fá sér nokkra sopa af kaffi og grúska aðeins í tölvunni.

Anna hafði einstakan hæfileika til þess að sjá hlutina í samhengi, sem var nytsamlegt í hennar starfi sem sjúkraþjálfari; að geta ekki einungis séð einkennin, en líka að setja þau í samhengi til þess að ná fram sem bestri greiningu á hverjum sjúklingi fyrir sig. Hún hjálpaði ótalmörgum, bæði líkamlega og andlega, sem leituðu til hennar, með því að leggja áherslu á það jákvæða og draga úr mikilvægi hins neikvæða.

Við verðum að eilífu þakklát fyrir það að hafa fengið að fylgja Önnu síðasta spölinn og að hafa fengið að styðja hana.

Hún hefur alltaf reynt að klára þau verkefni sem hún hefur tekið sér fyrir hendur og fannst okkur þess vegna ánægjulegt að sjá, að á síðustu mínútunum náði hún settu markmiði fyrir „Intensity Minutes“ á Garmin úrinu sínu.

Sigurður Vilmundur,

Auður Jóna,

Halldóra Auður,

Jón Brúnsteð.

Anna Þóra mín, hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum glatað? Þú, sem varst kletturinn í fjölskyldunni, við vorum fyrir nokkrum dögum að spjalla um næsta sumarfrí saman. Er ég hitti þig fyrst í Skeiðarvoginum varstu pínu hippi og ósjaldan á brúnum náttslopp í klossum og með kaffibolla í hendi. Að læra og læra. Síðan laukstu námi í sjúkraþjálfun og síðan beinustu leið austur á Neskaupstað. Kynntist ástinni þinni og eignaðist með honum börn og bú. Jón Már heitir maðurinn og síðan komu Siggi Villi og Halldóra Auður. Mikið voruð þið samrýmd. Þið ferðuðust mikið, þið tvö og með alla fjölskylduna. Ég var svo lánsöm að fara með ykkur í nokkrar utanlandsferðir, með Helga bróður þínum og stelpunum mínum. Alltaf var svo gott og gaman að vera með ykkur. Anna mín var sú jákvæðasta persóna sem ég hef kynnst og lífsglöð. Síðan komu barnabörnin Logi og Rúna. Þú ljómaðir er talið barst að þeim. Fjölskyldan var alltaf svo full af gleði og til í allt. Síðan kom þessi óvinur eins og ég kalla hann. En hann átti ekki að bíta í þig því þetta yrði allt í lagi sagðir þú. Þú næðir þér á strik og hvílíkt æðruleysi sem þú sýndir síðustu vikur. „Imba mín, þetta verður allt í lagi,“ sagðir þú og ég trúði þér. Og ég trúði þér og treysti svo mikið á þig. Í mínum huga varstu mikill alfræði- og vísindamaður. Komst einu sinni seint um kvöld til að líta á mig veika, ég gráti nær upp í rúmi. Töfrasprotinn þinn sem fylgdi þér læknaði mig. Við brostum hvor til annarrar og það nægði mér. Hvað ég á eftir að sakna þín við svo margar aðstæður.

Elsku hjartans Jón Már, Siggi Villi, Halldóra og þið sem standið næst ykkar elsku Önnu Þóru. Hugur minn er hjá ykkur.

Verið krafts Guði falin.

þín mágkona og vinkona

Ingibjörg.

Okkur langar að minnast Önnu Þóru vinkonu okkar í nokkrum orðum.

Haustið 1984 fluttum við þrjár austur í Neskaupstað til þess að vinna á Fjórðungssjúkrahúsinu. Við bjuggum saman í íbúð og í hönd fór skemmtilegur tími.

Ungar og nýútskrifaðar vorum við að fóta okkur í leik og starfi. Sambúðin gekk vel og mikið brallað.

Anna Þóra hitti Jón Má sinn fljótlega og þar með voru örlögin ráðin, þau áttu ótrúlega vel saman og kærleikar með þeim, hún flutti aldrei aftur til Reykjavíkur og varð Norðfirðingur. Þau bjuggu sér fallegt heimili í Neskaupstað, eignuðust Sigga Villa og Halldóru Auði. Seinna komu svo tengdabörn og barnabörn.

Anna var mikil fjölskyldukona og fjölskyldan var samrýmd.

Það var gott að eiga hana að þegar við komum austur í heimsókn. Alltaf stóð húsið opið og fjölskyldan velkomin. Anna Þóra var með græna fingur og hafði gaman af garðyrkju og útivist sem hún stundaði meðan heilsan leyfði.

Síðustu ár hafa verið erfið fyrir Önnu Þóru og fjölskyldu, en hún barðist við krabbameinið af miklu æðruleysi og styrk.

Hún var æðrulaus í eðli sínu, hún var orðvör og hallmælti ekki fólki. Vinkona sem var afskaplega trygg og hlý og gott að eiga hana að.

Við munum sakna hennar og þökkum langa samleið í lífinu. Sendum fjölskyldu hennar innilegar samúðarkveðjur.

Björk og Hafdís.

Það er erfitt að sætta sig við það að kær vinkona okkar, Anna Þóra, sé látin. Við vorum að vona að við fengjum aðeins lengri tíma saman þrátt fyrir að við vissum að sjúkdómurinn væri illvígur og ágengur. Við þrjár kynntumst á náttúrufræðibraut í Menntaskólanum við Sund og bundumst lífstíðarböndum. Við tókum upp á því að læra saman, deildum glósum, þekkingu og skemmtilegheitum. Það veitti okkur öllum aðhald og lærdómurinn varð bærilegri. Sérstaklega er okkur minnisstætt þegar við vorum að diffra og tegra erfiðustu dæmin, þá iðulega skruppum við tvær út í sjoppu til að fylla á gos- og sælgætisbirgðir á meðan Anna Þóra rúllaði dæmunum upp með sinni skörpu einbeitingu. Hún var langbest af okkur þremur í stærðfræðinni, já alltaf svolítill nagli og svo var alltaf notalegt að læra í stóra kjallaraherberginu hennar í foreldrahúsum í Skeiðarvoginum. Við brölluðum ýmislegt og skemmtum okkur á þessum árum og nutum samverunnar. Eftir að Anna Þóra flutti austur eftir sjúkraþjálfaranámið og fann stóru ástina í lífi sínu hittumst við sjaldnar en héldum alltaf sambandi og fylgdumst með lífinu hver hjá annarri. Ákváðum fyrir löngu að gefast aldrei upp á jólakortunum og alltaf var það hjartnæmt að fá eitt kort að austan um hver jól. Við leigðum okkur íbúð á Akureyri fyrir nokkrum árum til þess eins að eyða langri helgi saman. Það voru yndislegir dagar sem við getum ornað okkur við núna. Mikið spjallað og hlegið. Það var einhvern veginn þannig að púlsinn á milli okkar var alltaf eins og hjá menntskælingum, stutt í grín og glens. Anna Þóra var gæfukona í starfi og einkalífi. Hvað hún var ánægð með hann Jón Má sinn alla tíð og ánægð og stolt af börnunum sínum og barnabörnum.

Við kveðjum kæra vinkonu með miklum söknuði og þakklæti fyrir dýrmæta vináttu, henni þótti vænt um okkur og okkur þótti vænt um hana. Við sendum okkar dýpstu samúðarkveðjur til allrar fjölskyldunnar.

Kristín Mar og

Ólöf Sigurðardóttir.

Elsku Anna Þóra.

Haustið 2001 flyt ég heim til Neskaupstaðar, nýútskrifuð sem sjúkraþjálfari, græn í gegn og ómótuð. Síðan þá eru liðin ansi mörg ár og margt breyst. Eitt breyttist þó ekki og það var að allan þennan tíma til dagsins í dag varst þú minn yfirmaður, lærimeistari og vinkona. Ég gat alltaf leitað til þín, hvort sem það voru fræðin, heimilið og börnin eða bara til að fá smá hvatningu út í lífið. Þegar ég óskaði eftir fríi þá var alltaf svarið þitt með bros á vör: „já er það ekki, það reddast“.

Við unnum náið saman á sjúkradeildinni og dáðist ég oft að því hve góð og natin þú varst við gamla fólkið og um leið svo hvetjandi. Við notuðum margvíslegar aðferðir oft og tíðum til að ná til skjólstæðingsins, við dönsuðum, sungum og trölluðum. Allt var svo auðvelt í þínum augum og þótt ég hafi nú stundum hrist hausinn yfir aðferðum þínum þá á ég eftir að sakna þessara stunda mjög. Í dag eru þetta dýrmætar minningar um þig, elsku Anna Þóra.

Eitt árið byrjaðir þú með dans í hádeginu fyrir starfsfólk sjúkrahússins. „Dans er svo góð hreyfing til að losa um streitu, hrista mjaðmirnar og dilla sér.“ Og auðvitað fórstu með þessum orðum að dansa og dilla þér eins og þú gerðir svo oft. Og alltaf fékkstu alla með þér. Þessum hádegistímum stjórnaðir þú í þó nokkurn tíma. Settir tónlist á og fólk kom til að dansa og gleyma sér í nokkrar mínútur. Hélt svo til baka til vinnu endurnært.

Heilbrigðisstofnun Austurlands á þér mikið að þakka. Þú byggðir upp og stjórnaðir endurhæfingardeildinni í tæp fjörutíu ár og gerðir það vel. Þín verður sárt saknað á öllum hæðum sjúkrahússins því margir leituðu til þín. Ef það var ekki vegna verkja í öxl eða baki þá vegna tölvumála. Þú varst algjör tölvugúrú, vissir allt um tölvur og Excel og gast lagað allt. Það kom fyrir að þú varst aðeins of sein í vinnuna: „æ, ég gleymdi mér í tölvunni“. Þú varst alltaf að lesa, skoða eitthvað nýtt og afla þér upplýsinga um nýjustu rannsóknir og græjur.

Í veikindum þínum varst það þú sem hughreystir okkur. Þú tókst veikindum þínum af svo miklu æðruleysi og yfirvegun. Í eitt skipti þegar við sátum við eldhúsbekkinn hjá þér, þú í veikindaleyfi og við báðar komnar með ryk í augun, þá sagðir þú: „ég hef engar áhyggjur af mér, ég hef meiri áhyggjur af Jóni mínum og krökkunum“. Þetta lýsir svo vel, elsku Anna mín, hvernig þú hugsaðir, þú hugsaðir svo vel um fólkið þitt og alla í kringum þig.

Takk fyrir, elsku Anna Þóra, fyrir allt það sem þú gafst mér og kenndir. Stórt skarð er höggvið í litla hópinn okkar á þriðju hæðinni. En minningin lifir og þú skilur eftir svo margt sem við munum varðveita í hjörtum okkar.

Að eiga vin er vandmeðfarið,

að eiga vin er dýrmæt gjöf.

Vin, sem hlustar, huggar, styður,

hughreystir og gefur von.

Vin sem biður bænir þínar,

brosandi þér gefur ráð.

Eflir þig í hversdagsleika

til að drýgja nýja dáð.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Elsku Jón Már, Halldóra, Siggi Villi og fjölskylda. Hugur minn er hjá ykkur.

Jóna Lind.

Vinátta okkar við Önnu Þóru spannar um tvo áratugi. Eftir að við fluttum á Norðfjörð hefur náið samstarf okkar Jóns samtvinnað líf fjölskyldna okkar. Við höfum ferðast víða um heim með þeim hjónum og var Anna alveg einstaklega þægilegur ferðafélagi. Hún var alltaf til í að reyna eitthvað nýtt og þar kom grúskarinn í henni fram því hún var vís til að finna eitthvað skemmtilegt og áhugavert að skoða eða prufa. Og svo sannarlega reyndum við margt framandi og spennandi saman á ferðum okkar. Oftar en ekki skipulagði hún eitthvað heilsutengt fyrir sig og Jón svona til að slaka á og hlaða batteríin.

Við fjölskyldan höfum átt okkar bestu stundir saman í árlegum veiðiferðum með Jóni og Önnu. Við vorum fyrirferðarmikla fjölskyldan með allan strákaskarann. Mættum í veiðihúsið með bæði ungabörn og unglinga. Þar kom manngæska Önnu í ljós, sem ekki bara umbar fyrirferðina í okkur, heldur sýndi hún strákunum mikla þolinmæði og kom fram við þá eins og jafningja, enda var hún vinur þeirra allra. Oft fékk einhver þeirra að fylgja þeim með á stöng og eyða vaktinni í rólegheitum í þeirra félagsskap.

Anna Þóra hafði þá sýn að allir mættu vera alls konar og að rými væri fyrir alla. Það kom svo vel fram í allri hennar framkomu og fasi. Anna sá styrkleikana í einstaklingnum og það jákvæða í fari fólks og hafði lag á því að beina kröftum fólks í réttan farveg.

Anna Þóra var sérstaklega áhugasöm um lýðheilsumál og heilsu almennt sem berlega kom fram í hennar störfum. Hún var frumkvöðull og hafði áhuga á að efla almenna lýðheilsu. Hún kom fram með frumlegar hugmyndir sem báru vitni um sköpunargleði hennar og víðsýni og hvernig henni tóks að kjarna vandamál og koma fram með lausnir þar sem ekki var einvörðungu horft út frá hennar sérgrein heldur svo mörgum öðrum þáttum. Gaman var að fylgjast með hvað hún var áhugasöm um þróunarvinnu Halldóru dóttur sinnar og hvað hún tók mikinn þátt og studdi hana vel í því verkefni. Samband þeirra mæðgna var einstakt. Þó lönd og höf skildu þær að voru þær í stöðugu sambandi.

Anna Þóra var ótrúlega traust og réttsýn kona sem gott var að umgangast. Það var gott að leita til hennar með heilsufarsvandamál því áður en maður vissi af var hún búin að kryfja málið frá mörgum hliðum og kom fram með lausn sem dugði.

Anna Þóra var ákaflega stolt af barnabörnunum sínum og naut þess að fá þau og vini þeirra til sín. Hún var barnagæla og það leyndi sér ekki að hún var dýravinur. Hún hafði átt skógarketti sem strákunum okkar þótti gaman að heimsækja og alltaf var Raketta velkomin og gat gengið að góðgæti vísu sem Anna átti inni í skáp.

Þessa fíngerða kona barðist síðustu ár við endurkomu illvígs meins. Hún var hörkunagli og ætlaði sér að sigra í þessari baráttu. Hún var vakandi yfir allri meðferðinni og fylgdist með öllum niðurstöðum og las sér til um alla möguleika í stöðunni. Oft var hún skrefi á undan og greindi það sem öðrum yfirsást.

Það er sárt að kveðja og við eigum eftir að sakna kærrar vinkonu og fjölskylduvinar.

Gunnþór og Anna Margrét.

Það er með söknuði og sorg í hjarta sem við kveðjum samstarfskonu okkar, Önnu Þóru Árnadóttur. Anna Þóra flutti í Neskaupstað ásamt tveimur vinkonum haustið 1984 og hóf störf sem sjúkraþjálfari á Endurhæfingardeild sjúkrahússins og starfaði þar æ síðan. Anna Þóra var mikill frumkvöðull á sínu sviði og tapaði aldrei eljunni og umbótahugsuninni öll þau tæpu 40 ár sem hún starfaði hjá stofnuninni. Hún átti meðal annars stóran þátt í að koma af stað endurhæfingarhópum á Endurhæfingardeild FSN sem voru flaggskip sjúkrahússins til fjölda ára. Þegar deildin var sem stærst unnu þar níu starfsmenn sem tóku á móti fjölda einstaklinga í endurhæfingarmeðferðir við góðan orðstír. Þá var Anna Þóra frábær fagmaður og miðlaði þekkingu sinni óspart til samstarfsfólks og hikaði ekki við að leiðrétta líkamsstöðu þeirra ef henni þótti með þurfa, með hag þeirra og heilsu fyrir brjósti. Hún var mikill grúskari og viskubrunnur, vissi hún ekki svörin leitaði hún þar til hún fann þau. Teymisvinna var Önnu Þóru mjög hugleikin, hún vann vel í hópi og átti auðvelt með að fá fólk með sér og drífa hluti áfram. Það var alltaf gott að leita til hennar, hún var einstaklega velviljuð og hjálpfús og lét sér ekkert óviðkomandi. Í hópnum okkar var hún snörust allra í snúningum, óþreytandi harðjaxl með húmorinn í góðu lagi og hjartað á réttum stað. Á sama hátt var hún afar hvetjandi sjúkraþjálfari sem átti mjög auðvelt með að mynda gott meðferðarsamband og mæta einstaklingum á þeirra forsendum. Sérstaklega var gaman að sjá hana vinna með yngstu skjólstæðingunum. Missirinn og eftirsjáin eftir góðum samstarfsmanni er mikill en á sama tíma er okkur þakklæti í huga fyrir að hafa notið hennar leiðsagnar og samstarfs um árabil.

Við sendum innilegustu samúðarkveðjur til Jóns Más, barna þeirra, tengdabarna og annarra ættingja og vina um leið og við minnumst góðs vinnufélaga og kærrar vinkonu.

F.h. starfsfólks Heilbrigðisstofnunar Austurlands í Neskaupstað,

Borghildur Fjóla

Kristjánsdóttir,

rekstrarstjóri.