Kolfinna Gunnarsdóttir fæddist 9. október 1939. Hún lést 3. febrúar 2023.

Útför Kolfinnu fór fram 20. febrúar 2023.

Kolfinna Gunnarsdóttir, hún Kolla „okkar“, hefur lokið lífsgöngu sinni en hún lifir áfram í afkomendum sínum og í huga okkar sem vorum henni samtíða og þótti vænt um hana. Allan sinn starfsferil í meira en 40 ár helgaði hún sig vinnu sem sneri að barnavernd og félagsþjónustu hjá Reykjavíkurborg. Á þessum langa starfsferli allt frá árinu 1965 fóru fram viðamiklar breytingar bæði á samfélaginu, starfsumhverfi og skipulagi þjónustunnar svo ekki sé talað um alla mannflóruna sem kom við sögu á þessum langa tíma. Það þurfti því bæði þolgæði, úthald og þroska til þess að standa keik allan þennan tíma, sem Kolla gerði refjalaust. Á sama tíma eignaðist hún og ól upp börnin sín þrjú og sinnti fjölskyldu sinni með styrkri hendi einnig eftir að hafa misst eiginmann sinn sviplega í blóma lífsins. Við Kolla áttum tvívegis samleið í starfi, fyrst í fimm ár þegar verið var að koma Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar á laggirnar árin 1969-1974 og svo 25 árum síðar í 12 ár hjá arftaka þeirrar stofnunar þegar ég var þar félagsmálastjóri. Ég þekki því vel hversu mikilvægur starfsmaður Kolla var. Allir vinnustaðir, þar sem fjallað er um vandasöm og viðkvæm málefni eins og í félagsþjónustu og barnavernd, þurfa á fólki eins og Kollu að halda. Fólki sem heldur utan um praktísk mál og hefur flesta þræði í hendi sér í daglegu amstri og starfi. Kolla var skipulögð, traust og vel að sér og gat þess vegna tekið þátt í og oft séð um að láta dagana og málin „ganga upp“ í þessari flóknu starfsemi. Fyrir þann mikilvæga þátt verður seint þakkað en með þessum kveðjuorðum vil ég þakka henni Kollu fyrir það góða starf og þjónustu sem hún innti af hendi hjá Reykjavíkurborg innan félagsþjónustu og barnaverndar.

Ég minnist hennar Kollu líka sem skemmtilega og örláta gestgjafans á heimili þeirra Ásgeirs, heimsókna þeirra að Mólæk og berja- og veiðiferða þeirra í Hítardalinn okkar góða. Í starfsmannahópnum var Kolla líka oft hrókur alls fagnaðar og mjög góður félagi. Minningarnar lifa áfram - í börnunum okkar og samferðafólki og kannski einnig og ekki síst í náttúru landsins sem við Kolla elskuðum báðar.

Blessuð veri minning Kolfinnu Gunnarsdóttur.

Lára Björnsdóttir.

Við viljum með nokkrum orðum minnast Kolfinnu, hennar Kollu okkar, sem var kær vinnufélagi hjá Félagsþjónustunni í Reykjavík til margra ára. Kolla var límið sem tengdi okkur og alla hina á 3. hæðinni í Síðumúla saman, góður og traustur vinnufélagi. Hún var einstaklega fær og farsæl í sínum verkefnum og sérlega skemmtileg með sinn svarta húmor. Kolla var ráðagóð, beinskeytt, umhyggjusöm og styðjandi þegar á þurfti að halda.

Samstarfið þróaðist út í góðan vinskap og helgarferðir í sveitina hennar Jónu í Skaftártungu urðu fastur liður um nokkurra ára skeið þar sem Kolla sá um að taka veðrið á pallinum. Eitt skiptið fórum við í gegnum Myrkrastofu og út komum við með snigla í hárinu og blautar upp í mitti. Aðrar minningar úr ferðum eru dúkað kaffiborð í Eldgjá og glæfraleg bílferð á Reynisfjall. Aldursforsetinn Kolla var ekki að víla fyrir sér alls kyns ævintýraferðir þótt stundum væri þusað smá. Ekki var síður dýrmætt allt spjallið í sveitinni eða heima hjá einhverri okkar í bænum. Kolla verður áfram með okkur í anda í því sem verður brallað.

Við sendum börnum Kollu og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur.

Gulli og perlum að safna sér

sumir endalaust reyna.

Vita ekki að vináttan er

verðmætust eðalsteina.

(Hjálmar Freysteinsson)

Ellý, Jóna Lísa og Dísa.