Tvenna Mohamed Salah skoraði tvö marka Liverpool í gær og er nú markahæsti leikmaður liðsins í ensku úrvalsdeildinni frá upphafi með 129 mörk.
Tvenna Mohamed Salah skoraði tvö marka Liverpool í gær og er nú markahæsti leikmaður liðsins í ensku úrvalsdeildinni frá upphafi með 129 mörk. — AFP/Paul Ellis
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Liverpool vann ótrúlegan stórsigur á erkifjendum sínum í Manchester United, 7:0, þegar liðin áttust við á Anfield í Liverpool í 26. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla í gær. Cody Gakpo kom Liverpool í forystu skömmu fyrir leikhlé…

Enski boltinn

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Liverpool vann ótrúlegan stórsigur á erkifjendum sínum í Manchester United, 7:0, þegar liðin áttust við á Anfield í Liverpool í 26. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla í gær.

Cody Gakpo kom Liverpool í forystu skömmu fyrir leikhlé með laglegri afgreiðslu eftir stungusendingu Andrews Robertsons. Staðan í leikhléi var því 1:0, en í síðari hálfleik völtuðu heimamenn yfir Rauðu djöflana.

Strax í upphafi hans jók Darwin Núnez forskotið með skalla af stuttu færi eftir fyrirgjöf Harvey Elliott. Ekki leið svo á löngu þar til Gakpo skoraði annað mark sitt og þriðja mark Liverpool með glæsilegri vippu úr þröngu færi eftir undirbúning Mohameds Salah.

Salah komst svo sjálfur á blað á 66. mínútu þegar boltinn barst til hans fyrir miðjum vítateignum og Egyptinn þrumaði boltanum í þverslána og inn. Núnez bætti við öðru marki sínu þegar stundarfjórðungur var til leiksloka með góðum skalla eftir fyrirgjöf Jordans Hendersons.

Salah skoraði annað mark sitt sjö mínútum fyrir leikslok af stuttu færi eftir misheppnaða hreinsun varnarmanns United. Varamaðurinn Roberto Firmino klykkti svo út með sjöunda markinu tveimur mínútum fyrir leikslok þegar hann setti boltann á milli fóta David de Gea eftir sendingu Salah.

Lygilegur sjö marka sigur reyndist því niðurstaðan, sem er um leið stærsti sigur Liverpool á United í sögu félaganna. Um er að ræða versta tap United í ensku úrvalsdeildinni frá upphafi og jöfnun á versta tapi í sögu félagsins, en þrisvar áður hefur liðið tapað 0:7 í enskri deildakeppni, síðast árið 1931.

Með sigrinum fór Liverpool upp í 5. sæti, þar sem liðið er nú þremur stigum á eftir Tottenham Hotspur í 4. sæti og á leik til góða. Tottenham tapaði 0:1 fyrir Wolves á laugardag.

Lygileg endurkoma Arsenal

Topplið Arsenal vann magnaðan endurkomusigur á nýliðum Bournemouth, 3:2, á Emirates-vellinum á laugardag eftir að hafa lent 0:2 undir. Philip Billing kom Bournemouth í forystu eftir 9,11 sekúndur, sem er næststysta bið eftir marki í sögu úrvalsdeildarinnar. Marcos Senesi bætti svo við öðru marki eftir tæplega klukkutíma leik.

Þá var röðin komin að Arsenal. Thomas Partey minnkaði muninn eftir rúmlega klukkutíma leik og Ben White jafnaði metin á 70. mínútu með sínu fyrsta marki fyrir Arsenal á ferlinum. Varamaðurinn Reiss Nelson, sem hafði komið inn á mínútu fyrr, lagði upp jöfnunarmarkið og lét ekki þar við sitja. Skoraði hann sigurmarkið á 7. mínútu uppbótartíma með mögnuðu skoti og tryggði sigurinn.

Í hádeginu á laugardag höfðu ríkjandi Englandsmeistarar unnið góðan sigur á Newcastle United, 2:0. Phil Foden skoraði eftir glæsilegt einstaklingsframtak í fyrri hálfleik og Bernardo Silva innsiglaði sigurinn um miðjan síðari hálfleik eftir að hafa komið inn á sem varamaður tveimur mínutum fyrr.

Staðan á toppnum er því óbreytt þar sem enn munar fimm stigum á Arsenal á toppnum og Man. City í öðru sætinu.