Anna Ingibjörg Benediktsdóttir fæddist 30. desember 1946 í Reykjavík. Hún lést 28. janúar 2023. Útför Önnu Ingibjargar fór fram í kyrrþey.

Elsku hjartans systir mín, Anna Ingibjörg Benediktsdóttir, er látin. Hún var hetja mín og yndi.

Ég var staddur á Kanaríeyjum þegar ég fékk þær sorgarfréttir að ástkær systir mín væri farin í ferðalagið langa. Þegar ég var 12 ára lést móðir okkar og Anna, sem þá var 19 ára, gekk mér í móðurstað. Mamma var tónskáld og pabbi var Íslandsmeistari í bridge þannig að Anna var af góðu fólki komin.

Önnu féll aldrei verk úr hendi og hún hafði fallegt hjartalag. Hún var mér alltaf svo góð og kom vel fram við mig og því er svo sárt að sjá á eftir elsku systur minni. Nú heyri ég rödd hennar aldrei framar. Nú held ég aldrei í hönd hennar framar. Það er sárt og ég græt við lagið hennar mömmu, Vinarhugur. En svona er víst lífsins gangur. Einir fara og aðrir koma í dag.

Elsku besta hjartans systir, kærar þakkir fyrir allt og ég mun ávallt geyma loforð þín og hlýju í hjarta mér.

Ég man þitt bros er dregst að
dimmblá nótt,

í djúpi hafsins hvikar aldan rótt.

Þótt veikum strengjum stillt sé
harpan mín,

frá strengjum þeim skal tónninn
ná til þín.

Hvíl í friði elsku systir.

Þinn bróðir,

Nói.