Hjörtur Sævar Steinason
Hjörtur Sævar Steinason
Eins ef tapast dagur, þá er hann hreinlega tapaður. Það má ekki færa daga á milli mánaða!

Hjörtur Sævar Steinason

Hvernig stendur á því að mér finnst eins og ekkert sé hlustað á okkur handfærakarlana þegar talað er um fiskveiðar við Ísland. Ekkert tillit tekið til okkar veiða heldur sett á okkur allavega óskiljanleg höft. Má nefna tímatakmarkanir á dag, takmörkun á daga í mánuði sem má veiða, einnig hvaða daga má veiða í viku hverri og svo takmörk á hversu mikið magn má veiða á dag; einungis 650 kg slægt. Í staðinn fyrir að hagræða, nei það má ekki. Á meðan mega togarar færa fisk á milli, ja í raun hvernig sem hentar. Eins eru takmarkanir á fjölda rúlla sem einn maður má hafa. Tala nú ekki um að það má bara róa fjóra mánuði á ári, maí til og með ágúst. Eins ef tapast dagur, þá er hann hreinlega tapaður. Það má ekki færa á milli mánaða! Og er þá ekki allt nefnt.

Já það er einmitt það, innbyggðar hömlur í kerfinu eru hreinlega óskiljanlegar og standast líklega ekki stjórnarskrá! Svo eru handfæraveiðar algjörlega umhverfis- og vistvænn veiðiskapur þar sem notuð eru umhverfisvæn veiðarfæri, veiðarfæri sem hvorki skemma né menga við notkun né geta gengið á stofninn. Það er nefnilega svo lítil prósenta fisksins í sjónum sem lætur ginnast af krókum. Það er víst rannsakað. Svo eru bátarnir í alla staði umhverfisvænir. Við notum reyndar olíu til að duggast á miðin en þá er drepið á og þá tekur við rafmagn sem knýr veiðarfærin þannig að í raun erum við með hybrid-báta. Einnig skilum við að landi besta hráefni sem hugsast getur, hráefni sem er það langverðmætasta á mörkuðum erlendis. Einnig langvinsælasta hráefnið, miklum mun vinsælla og verðmætara en það sem togfiskur er.

Svo er mér mjög hugleikið að í alla staði ættu handfæraveiðar að vera frjálsar á Íslandi árið um kring og njóta forgangs fram yfir allar aðrar veiðar. Einelti ætti enginn að þola, hvað þá þegar einn flokkur fiskveiðikerfisins er tekinn út. Að gangast undir þvílíkan frumskóg hafta og óréttlætis að hálfa væri hellingur er ekkert annað en hreint og klárt einelti. Hverju máli skiptir þótt við veiðum nokkur kíló af fiski og séum bara utan við öll kerfi í heildarmyndinni? Það skiptir í raun engu helvítis máli. Alls ekki neinu!

Tala nú ekki um ef fylgst væri af einhverri alvöru með skráningum báta, eignahlutfalla og kennitalna, þá væri örugglega hægt að fækka bátum um þriðjung og jafnvel meira. Bátum sem samkvæmt íslenskum lögum mega ekki vera til sjós! Svo virðist þó sem nokkuð margir þurfi ekki að óttast lögin, þurfi hreinlega ekki að gangast undir þau, sem er virkilega slæmt. Já, eineltið fyrirfinnst illilega, því er verr.

Höfundur er sjómaður. hjortur@jakinn.is

Höf.: Hjörtur Sævar Steinason