Við höfnina Útsýni lögreglumanna sem biðu Unnar á bryggjunni í Reykjavík, þann 23. febrúar 1925, hefur sjálfsagt verið svipað og á þessari mynd þar sem skipið Island sést koma til hafnar í Reykjavík um eða upp úr 1920.
Við höfnina Útsýni lögreglumanna sem biðu Unnar á bryggjunni í Reykjavík, þann 23. febrúar 1925, hefur sjálfsagt verið svipað og á þessari mynd þar sem skipið Island sést koma til hafnar í Reykjavík um eða upp úr 1920.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ung kona er lögð inn á Farsóttarhús Reykjavíkur Seint að kvöldi 23. febrúar 1925 leggur millilandaskipið Mercur að bryggju í Reykjavík eftir nokkurra daga ferð frá. Bergen, síðast seinlega siglingu frá Vestmannaeyjum í vondu veðri

Ung kona er lögð inn á Farsóttarhús Reykjavíkur

Seint að kvöldi 23. febrúar 1925 leggur millilandaskipið Mercur að bryggju í Reykjavík eftir nokkurra daga ferð frá. Bergen, síðast seinlega siglingu frá Vestmannaeyjum í vondu veðri. Í myrkrinu og rokinu við Reykjavíkurhöfn bíður lögreglan eftir einum farþeganna. Það er ung kona um tvítugt. Hún hefur dvalið um hríð í Noregi, þar sem móðir hennar býr, en hefur verið vísað úr landi. Við skulum kalla hana Unni. Samkvæmt fylgibréfi frá norskum lögregluyfirvöldum er hún dökk yfirlitum, með brún augu og svart hár, 156 sentimetrar á hæð og meðalmanneskja á vöxt. Hún er í svörtum kjól og bláhvítröndóttri peysu, gráum sokkum, brúnum skóm og grænni kápu með svartan hatt. Farangurinn ein ferðataska og regnhlíf. „Með síðustu ferð e./s. Mercur var send hingað með hjálögðu vegabrjefi og afhent lögreglunni þurfalingur Reykjavíkurbæjar", skrifar lögreglustjóri bæjarins í bréfi til borgarstjórans nokkrum dögum síðar. „Eftir samráði við yður, herra borgarstjóri, hefir hún verið fyrst um sinn lögð til athugunar á farsóttahús bæjarins undir eftirliti hjeraðslæknis."

Borgarstjóri, Knud Zimsen, kannast við konuna. Mál hennar hafa áður ratað á hans borð. Síðan Unnur eignaðist óskilgetna dóttur árið 1923 hefur hún þurft að þiggja fátækrastyrk af bænum en það hefur kostað miklar bréfaskriftir milli embætta á suðvesturhorninu. Unnur er fædd í Reykjavík en alin upp hjá fósturforeldrum á Suðurnesjum og erfiðlega gekk að finna nafn hennar í kirkjubókum Reykjavíkur og staðfesta þannig ábyrgð bæjarins á uppihaldi hennar. Þar að auki neitaði hún að gefa upp nafn barnsföður síns, sem lögum samkvæmt átti að greiða meðlag með barninu. Einhvern veginn barst það þó borgarstjóranum til eyrna hver faðirinn væri — virðulegur maður í bænum, 17 árum eldri en barnsmóðirin. Borgarstjóri kallaði hann umsvifalaust á sinn fund. Maðurinn hafnaði þvi að hann væri faðir barnsins, þótt hann viðurkenndi að hafa stundað kynlíf með konunni, en borgarstjóri lét draga hann fyrir dóm og fékk faðernið staðfest. Barninu var komið fyrir hjá fósturforeldrum Unnar. Borgarstjórinn á sjálfur dóttur á sama aldri og Unnur. Hún lifir allt annars konar lífi, kennir á píanó og á innan skamms eftir að giftast dönskum sjóliðsforingja. Þegar dóttir borgarstjórans kemur heim frá útlöndum er sagt frá því í blöðunum. Þegar Unnur siglir inn á höfnina bíður lögreglan eftir henni.

Hún er flutt í Farsóttahús Reykjavíkur við Þingholtsstræti 25. Það er reisulegt timburhús á tveimur hæðum, byggt árið 1884 sem fyrsta sjúkrahús bæjarins en hefur nýlega verið gert að farsóttaspítala. Á Farsóttahúsinu liggja einkum sjúklingar með smitsjúkdóma á borð við taugaveiki og skarlatssótt, til lækninga og til að koma í veg fyrir að þeir smiti aðra. Unnur er lögð inn á Farsótt, eins og húsið er kallað í daglegu tali, vegna þess að hún er með lekanda. Það er gert á grundvelli nýlegra laga um varnir gegn kynsjúkdómum, sem kveða á um að sjúklingum með lekanda, linsæri eða sárasótt sé skylt að leita sér læknishjálpar en læknar og lögregla hafi vald til að leggja fólk inn á sjúkrahús. Í þessu tilfelli er það gert í samráði við borgarstjóra, þar sem unga konan er á framfæri bæjarins.

Ári áður var Unnur lögð inn á Landakotsspítala vegna sama sjúkdóms en samkvæmt héraðslækninum hagaði hún sér „þannig að sjúkraliðið treystist ekki að halda henni þar til hún var fulllæknuð“. Var hún því flutt í Farsóttahúsið og lá þar þangað til hún var ekki lengur smitandi. Nú þegar hún snýr heim frá Noregi og sjúkdómurinn hefur tekið sig upp er hún lögð beint inn á Farsótt. Ef til vill kom henni betur saman við starfsfólkið þar, eða kannski er það vanara að eiga við óstýriláta smitandi sjúklinga sem mega ekki ganga lausir. Það getur verið erfitt að greina lekanda hjá konum sem oft eru einkennalitlar eða einkennalausar þar til sjúkdómurinn hefur magnast. Þá getur hann valdið liðabólgum og sársaukafullum bólgum í eggjaleiðurum. Meðferð tekur lengri tíma og krefst rúmlegu, heitra bakstra og útskolana. Unnur liggur á Farsóttahúsinu allt vorið 1925 og fram eftir sumri.

Á spítalanum í Þingholtsstræti ræður ríkjum yfirhjúkrunarkonan María Maack. Hún er 35 ára gömul og hefur starfað við hjúkrun í meira en 15 ár en á eftir að stýra starfseminni í Farsóttahúsinu fjóra áratugi í viðbót. María þykir stórbrotinn persónuleiki, umhyggjusöm en ákveðin og ráðrík, kannski hálfgerð táknmynd spítalaráðskonunnar. Auk hennar búa og starfa á spítalanum um þetta leyti fimm vinnukonur, ein ráðskona, einn hjúkrunarnemi og ein vökukona, það er kona sem vakir yfir sjúklingunum að nóttu til. Sjúklingar eru á annan tug, frá smákrökkum upp í roskið fólk, flestir úr Reykjavík en einhverjir utan af landi.

Við vitum lítið um dvöl Unnar í Farsóttahúsinu. Hvernig líður henni? Hvernig kemur henni saman við starfskonurnar, sem sumar eru á hennar aldri, og hina sjúklingana? Vita þeir hvers vegna hún liggur inni? Skrifast hún á við fósturforeldra sína, fær hún fréttir af litlu dóttur sinni sem býr hjá þeim? Á hún vini sem heimsækja hana? Unga konan verður 22 ára meðan hún liggur inni. Getur hún gert sér einhvern dagamun á afmælinu? Hún útskrifast af spítalanum fimmtudaginn 6. ágúst. Sólarlagið í Reykjavík er venju fremur fallegt þetta kvöld og fjöldi manns safnast saman á Lækjartorgi til að hlusta á lúðrasveit bæjarins spila syrpu af lögum. Kannski er hún þar og nýtur tónlistarinnar og sumarkvöldsins.

Kveikjan að þessari bók liggur í sögu ungu konunnar sem lögreglan beið eftir við Reykjavíkurhöfn eitt febrúarkvöld árið 1925. Ég rakst á hana í skjölum um fátækrahjálp Reykjavíkurbæjar haustið 2013, þegar ég var að skrifa ritgerð í sagnfræðinámi, og varð mjög upptekin af því að púsla saman hinum takmörkuðu vísbendingum heimildanna um líf hennar og persónu, aðallega úr opinberum pappírum sem hún hafði sjálf lítið um að segja og hefur sjálfsagt aldrei lesið.

Það var fyrst eftir að ég las þessi skjöl sem ég tók almennilega eftir húsinu á horni Þingholtsstrætis og Spítalastígs sem er í forgrunni þessarar bókar og enn gekk undir sínu gamla nafni, Farsótt.

Tilvísunum er sleppt.