Óskar Guðjónsson fæddist í Hafnarfirði 10. júní 1936. Hann lést í faðmi fjölskyldunnar 26. febrúar 2023.

Foreldrar hans voru Guðjón Benediktsson vélstjóri frá Vatnsleysuströnd, f. 26. nóvember 1890, d. 5. febrúar 1988 og Margrét Elínborg Jónsdóttir frá Skagafirði, f. 3. janúar 1892, d. 22. febrúar 1968.

Systkini Óskars voru Ásgrímur S. Guðjónsson, f. 16. júní 1913, d. 7. júlí 1977, Steinunn Guðjónsdóttir, f. 5. ágúst 1915, d. 8. febrúar 1997, Ingibjörg Guðjónsdóttir, f. 30. júlí 1918, d. 1. febrúar 2005, Hulda Guðjónsdóttir, f. 13. ágúst 1921, d. 14. mars 2010, Hera Guðjónsdóttir, f. 2. apríl 1926, d. 26. júní 2009, Elsa Guðjónsdóttir, f. 25. mars 1928, d. 13. ágúst 2010, Haukur Guðjónsson, f. 23. febrúar, d. 23. janúar 2007.

Eiginkona Óskars er Kristín Jónsdóttir hárgreiðslukona, fædd í Reykjavík 24. mars 1945. Þau giftust 23. nóvember 1963. Þau stofnuðu heimili í Kópavogi og hafa flest af búskaparárum sínum búið þar. Óskar og Kristín eiga fjórar dætur:

1) Halldóra Óskarsdóttir Jensen, f. 1964, gift Michael Jensen. Hún á börnin Óskar Frey, Söndru Soffíu og Stefán Orra með fyrrverandi eiginmanni sínum, Hinriki Stefánssyni.

2) Steinunn Óskarsdóttir, f. 1968, gift Ingvari Guðjónssyni, þau eiga börnin Elínborgu og Inga Stein.

3) Jóna Hrund Óskarsdóttir, f. 1975, hún á börnin Stefán Jón og Ástrós Ósk með fyrrverandi eiginmanni sínum, Bjarna Jakobi Stefánssyni.

4) Elínborg Óskarsdóttir, f. 1977, í sambúð með Ásgeiri Ingvarssyni og eiga þau Thelmu Ósk.

Óskar var nemi í vélvirkjun í Vélsmiðju Hafnarfjarðar, lauk sveinsprófi frá Iðnskólanum. Í framhaldi af því hóf hann nám í Vélskólanum í Reykjavík og fékk vélstjóraréttindi 1964. Hann starfaði m.a. sem vélstjóri á hvalbátunum, Akraborginni, Herjólfi og á Hafnarfjarðartogurunum Maí og Júní. Óskar hætti sjómennsku og hóf störf hjá Bræðrunum Ormsson á díselverkstæðinu og starfaði þar í u.þ.b. aldarfjórðung. Seinustu starfsárin starfaði hann hjá Framtaki í Hafnarfirði.

Útför hans fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 6. mars 2023, klukkan 14.

Eitt sinn verða allir menn að deyja. Það er eitt af því sem við vitum en alltaf verður þessi kveðjustund erfið og sár. Elsku pabbi minn. Þú varst þessi maður með hjarta úr gulli sem auðvelt var að tala við og laðast að. Það er svo margt sem kemur upp í hugann á þessari stundu. Svo margar ljúfar og skemmtilegar minningar að það er hreinlega erfitt að velja. Hvort sem það var að taka upp kartöflur, bíltúrarnir okkar í Hafnarfjörð, sumarbústaðarferðirnar eða ferðalögin á tjaldvagninum sem þú smíðaðir.

Þú varst svo stoltur og glaður þegar Thelma Ósk kom í heiminn og maður sá hvernig þú lifnaðir við þegar hún kom í heimsókn til að rúnta með afa í Bæjó á göngugrindinni þinni. Þið náðuð einstaklega vel saman og áttuð alveg sérstakt samband eins og þú áttir við öll þín afa- og langafabörn.

Þú varst mikill húmoristi og dæmi um það er þegar þú lást á sjúkrahúsi og hjúkrunarfræðingurinn kom að sækja þig til að fara í myndatöku. Hún sagði: Óskar, ég er að sækja þig til að fara með þig í myndatöku. Þú svaraðir lunkinn eins og þér einum var lagið: Heyrðu já, þarf ég þá ekki að greiða mér fyrst. Hún brást skemmtilega við og náði í greiðu og greiddi þér. Það var mikið hlegið. Og þegar þú fórst á árgangsmót að hitta skólafélagana og talaðir við einn þeirra í símann. Hann spurði þig; ertu enn þá með sömu konunni? Þú; jahá og hlóst, það er allt of seint að skipta núna. Svona gæti ég haldið lengi áfram.

Síðasta ár tengdumst við enn þá sterkari böndum og hefur það verið mér ofboðslega dýrmætt. Þú komst og varst í vinnunni hjá mér, þú passaðir strax inn í hópinn frá fyrsta degi og það var yndislegt fylgjast með þér. Þú komst að sjálfsögðu með Hafnarfjarðarbrandarabókina þína og lést lesa upp úr henni og hlóst manna hæst sjálfur, með þennan smitandi hlátur sem þið systkinin voruð með.

Ég mun minnast þín með hlýju í hjarta, þú ert fyrirmynd mín og ég er svo stolt að kalla þig pabba minn. Takk pabbi.

Með englum guðs nú leikur þú og
lítur okkur til

nú laus úr viðjum þjáninga, að fara
það ég skil.

Og þegar geislar sólar um gluggann
skína inn

þá gleður okkur minning þín, elsku
pabbi minn.

(Guðrún Sigurbjörnsdóttir)

Þín dóttir,

Elínborg.

Elsku pabbi minn.

Núna hefur þú fengið hvíldina og færð að hitta allt þitt fólk sem farið var á undan þér. Þú hefur alltaf verið stoð mín og stytta og frábær fyrirmynd, þú kenndir mér svo margt. Við vorum alltaf að að bralla eitthvað með þér í eldhúsinu, og mér eru ógleymanleg fimmtudagskvöldin sem við áttum saman þegar við gegnum í kringum Vífilsstaðavatn þar ræddum við ýmislegt alvarleg og léttvæg málefni. Þegar samtölin voru að alvarlegri taginu gengum við bara fleiri hringi þangað til niðurstöður fengust.

Eftir að barnabörnin fæddust löðuðust þau að þér, þau dýrkuðu þig og dáðu enda frábær afi í alla staði.

Ég verð þér ævinlega þakklát fyrir að hafa átt besta pabba í heimi. Takk fyrir allar dásamlegu minningar og allt sem þú hefur gefið mér í gegnum árin. Ég elska þig pabbi, minning þín mun lifa áfram um ókomna tíð.

Minning mín um þig,

er aðeins ljúf og góð.

Þú varst alltaf svo góður,

gerðir allt fyrir mig.

Þú varst þakklátur,

fyrir allt sem gert var fyrir þig.

Þú varst fyrirmynd mín,

og verður fyrirmyndin alla mína tíð.

Ég á eftir að sakna þín,

hvernig þú brostir, hvernig þú talaðir.

Ég kem svo og heimsæki þig,

þegar minn tími kemur.

(Höf. ók.)

Þín dóttir

Jóna Hrund.

Í dag kveðjum við þig, elsku pabbi minn. Við munum öll sakna þín óendanlega mikið. Það er nánast óbærileg tilhugsun að geta ekki heyrt frá þér að minnsta kosti einu sinni í viku, eins og vaninn var.

Síðustu árin hafa samtölin okkar að mestu snúist um barnabörnin og barnabarnabörnin, enda voru þau þér einstaklega hugleikin. Þú áttir til að kvarta yfir að þú hefðir ekki fengið snöpp af þeim „í dag“ þú varst nefnilega með á nótunum varðandi nýjungar í tækni og öppum.

Það var fyndið að sjá þig kíkja á snöppin, þú brostir þínu blíðasta til afa/langafabarnanna og talaðir á móti þegar þú varst að skoða þau í símanum þínum.

Ég held að þetta hafi verið aðaláhugamálið þitt síðastliðin ár og hápunktar dagsins. Þú varst sjálfur ekki sérlega góður í að senda snöpp, til dæmis fengum við mynd af eldhúslampanum og enninu á þér oftar en einu sinni, og fleiri svipuð. Við hlógum góðlátlega að þessu og þegar við töluðum saman og ég þakkaði fyrir snappið, kannaðist þú ekki neitt við neitt.

Það var stutt í hláturinn hjá þér, eins hjá systkinum þínum. Með þér fellur sá síðasti af Gunnarssundsgenginu frá, blessuð sé minning ykkar allra.

Elsku pabbi minn, himininn varð stjörnu ríkari aðfaranótt 26. febrúar. Guð geymi þig og varðveiti.

Ég vil þakka þér fyrir allt og allt, minningin um þig mun lifa áfram í hjörtum okkar.

Þín dóttir,

Halldóra.

Elskulegur tengdafaðir minn. 25. september næstkomandi verða komin 30 ár síðan þú leiddir Steinunni dóttir þína upp að altarinu til mín og gafst mér hönd hennar, teinréttur og glæsilegur eins og þú varst reyndar alltaf. Þarna höfum reyndar þekkst í rúm fimm ár eða allt frá þeim degi er ég kom fyrst heim í Bæjartúnið til að hitta Steinu. Frá fyrsta degi til þess síðasta hafa kynni okkar verið algjörlega frábær, við urðum vinir, sumarbústaðareigendur saman og síðast en ekki síst varstu afi og vinur barna minna. Óskar var örugglega í þeim hópi manna sem átti engan óvin, hann var einstaklega hlýr og góður og með ótrúlegt jafnaðargeð. Ég sé þig fyrir mér flautandi að gera við eitthvað eða græja og þá oftast fyrir einhvern annan, til að mynda þegar ég spurði þig annað slagið um leiguna í kjallaranum og hvað fólkið væri að borga í leigu, þá sagðir þú það reyndar aldrei en sagðir samt að hann, greyið, er í skóla eða hún, blessunin, er búin að vera svo vei,k eða hvað heldur þú að hægt sé að pína ungt fólk með hárri leigu. Þetta var allt fólk sem þú kannski þekktir ekkert en þetta lýsir og segir ansi margt um ykkur hjónin, ykkur var annt um fólk og þá ekki bara ykkar fólk sem þú varst einstakur við, barnabörnin hændust að þér og þú elskaðir að fylgjast með hverju skrefi í þeirra lífi. Þeirra missir er mikill. Ein góð saga af þér sem lýsir þér nokkuð vel. Eitt af mörgum skiptum sem við vorum saman í bústaðnum í smá karlaferð fórum við í heimsókn í annan bústað, pabbi í rosa stuði, ég og Einar mátulegir og við vorum á leið aftur út í bíl niður einhverja brekku í myrkri. Pabbi dottinn og við hinir í bölvuðu brasi, þá komst þú flautandi flottur niður brekkuna með vasaljós sem þú varst með í pennanum, sem sagt alltaf klár í allt.

Mér þykir óendanlega vænt um vinskapinn sem myndaðist milli ykkar hjóna og foreldra minna, þið pabbi voruð eins góðir vinir og þið voruð ólíkir, gagnkvæm virðing og væntumþykja, mömmu þótti ofboðslega vænt um þig og ykkar vináttu. Að eiga sumarbústað í 24 ár með foreldrum sínum og tengdaforeldrum er örugglega ekki algengt en í öll 24 árin var það hnökralaust og það segir meira en mörg orð um fólkið sjálft. Nú er ansi stórt skarð höggvið í líf okkar fjölskyldu, Egill 2018, mamma 2019, pabbi fyrir tveimur vikum og svo þú, elsku Óskar. En ef það er einhver maður sem ég treysti til að knúsa þetta fólk fyrir mig og gefa því fréttir af okkar þá ert það þú.

Óskar Guðjónsson, þú varst einstakur maður, ég elska þig.

Þinn tengdasonur

Hér hvílast þeir, sem þreyttir göngu
luku

í þagnarbrag.

Ég minnist tveggja handa, er hár
mitt struku

einn horfinn dag.

Ó, guðir, þér, sem okkur örlög vefið

svo undarleg.

Það misstu allir allt, sem þeim var
gefið,

og einnig ég.

Og ég sem drykklangt drúpi höfði yfir

dauðans ró,

hvort er ég heldur hann, sem eftir lifir,

eða hinn, sem dó?

(Steinn Steinarr)

Ingvar Guðjónsson.

Elsku afi Óskar. Mig langar fyrst og fremst að þakka þér fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig.

Þú varst ótrúlega góður afi og yfir höfuð góður maður. Þú bjóst yfir þeim eiginleika að vera maður sem að flestum líkaði vel við. Það var bara eitthvað við þig, þú hafðir svo góða nærveru. Þú varst yfirvegaður, kíminn, umhyggjusamur, skemmtilegur og handlaginn, finnst það lýsa þér vel. Þú varst líka alveg eintaklega góður kokkur. Það var gaman að fylgjast með þér elda og ennþá betra að borða matinn sem þú eldaðir. Þið amma voruð dugleg að bjóða mér í mat þegar ég átti heima niðri í kjallara hjá ykkur. Fiskibollurnar þínar og snitselið var í uppáhaldi. Mun reyna að grafa eftir uppskriftinni þó mig gruni að það sé ekki til því þú kunnir þetta upp á 10 og varst bara einhvern veginn með þetta.

Þú brostir aldrei jafn breitt og þegar þú fékkst að hitta afa- og langafabörnin þín. Elena Ása var mjög hrifin af þér. Þú fékkst yfirleitt koss og knús og hún vildi vera í fanginu þínu. Það er ekki alveg sjálfsagt, enda er hún ákveðin lítil stelpa sem veit hvað hún vill. Þú hafðir svo gaman af henni. Hún talar mikið um langafa sína þessa dagana. „Afi Óskar lasinn, knús'ann“ segir hún. Svo sagði hún um líka um daginn „afi Óskar með Gauja og Ellu, hjá stjörnunum“. Þetta er það sem ég hef sagt henni og hún talar mikið um þig. Ég er viss um að afi Gaui og amma Ella eru búin að taka vel á móti þér. Þið sitjið núna saman í sveitarsælunni í góðu veðri. Höfðingjarnir á hólnum saman komnir.

Við eigum eftir að sakna þín svo mikið og það er að skrítið að hugsa til þess að við munum ekki sjá þig aftur í Bæjó. Ég mun halda uppi minningunni um þig elsku afi minn. Þú varst góð fyrirmynd og það væri sannur heiður að líkjast þér.

Þín afastelpa

Elínborg Ingvarsdóttir, Steinar S. Agnarsson og Elena Ása Steinarsdóttir.

Elsku Óskar móðurbróðir minn lést sunnudaginn 26 febrúar. Hann var yngstur af níu börnum Elínborgar ömmu og Guðjóns afa og er hann sá síðasti sem kveður okkur.

Óskar var einstakt ljúfmenni, skemmtilegur en samt fór ekki mikið fyrir honum, sem er ekki hægt að segja um systurnar sex í Gunnarssundi 7 (blessuð sé minning þeirra) sem voru frægar fyrir hláturinn sem heyrðist langt að þegar þær voru allar á einum stað.

Á jóladag um árabil komu öll Gunnarssundssystkinin, makar og börn á Selvogsgrunn til okkar fjölskyldunnar ásamt ömmu og afa og þá var hefð að taka myndir í stiganum á milli hæða af þeim systkinum, ömmu og afa. Og síðan voru teknar myndir af barnabörnum þeirra systkina í stiganum. Mjög eftirminnilegar stundir og mikið hlegið.

Yngri bræður mömmu Steinunnar, þeir Haukur og Óskar, komu mikið til okkar, enda voru bara fimm ár á milli Edda bróður og Óskars. Óskar og Eddi voru samtímis í Vélskólanum og lauk Óskar vélstjóraprófi 1963 en og Eddi 1964.

Fjölskyldan í Gunnarssundi 7 , amma Elínborg, afi Guðjón, Ásgrímur, Steinunn, Ingibjörg, Hulda, Guðrún, Hera, Elsa, Haukur, Óskar og barnabörnin sem ólust þar upp Bennó, Nonni eru öll komin í sumarlandið. Eftir stendur stór ættbogi þeirra systkina.

Elsku Kristín, Halldóra, Steinunn, Jóna Hrund, Elínborg og fjölskyldur. innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra. Okkur Lúlla þykir leitt að geta ekki fylgt frænda síðasta spölinn.

Sigrún Böðvarsdóttir

Óskar nágranni minn og vinur var iðulega að fást við eitthvað: dytta að húsinu, stússast í bílskúrnum smíða tréform fyrir jólaseríu í desember og þannig mætti lengi telja. Stundum þegar ég kom heim síðdegis var tekið spjall um atburði líðandi stundar og stöðu heimsmála jafnt sem íslenska pólitík. Óskar var með lítinn kæli í skúrnum og tók fram bjór og við settumst niður um stund. Minning sem er ómetanleg. Spáðum í garðplöntur og skaðvalda svo sem birkikembu sem hefur verið að herja á birkitré undanfarin ár.

Óskar var vélfræðingur, sérfræðingur í díselvélum. Hann upplifir þessa miklu tæknibreytingu en ekki hafa í annan tíma orðið jafn miklar tæknibreytingar og undarfarna áratugi. Var í siglingum á yngri árum og sagði skemmtilegar sögur frá þeim tíma. Hann og Kristín kona hans byggðu sjálf íbúðarhús sitt eins og var algengt á þeim tíma og unnu við það í mörg ár. Lítil börn, fjórar dætur fæðast og annríkið mikið. Oft hefur verið þreyta að áliðnu kvöldi en líklega ekkert mikið fundist þegar allt það sem skapaðist á sama tíma var umlykjandi.

Óskar benti mér einhverju sinni á að ég þyrfti nú að taka mér tak, bíll minn væri nú ansi drullugur. En hann vissi allt um bíla, vélarnar ekki síst, kom iðulega færandi hendi með bón og hreinsiefni, kom með tvöfaldan skammt, annan fyrir mig. Ef mig vanhagaði um einhver verkfæri eða eitthvað annað var næsta víst að Óskar ætti það.

Fyrir nokkrum árum uppgötvuðum við að báðir ættum eitthvað af frímerkjum. Lögðumst í rannsóknarvinnu hvort einhver verðmæti væri þar að finna. Niðurstaða var ekki fengin en þó ljóst að svona söfn hafa lækkað mikið að verðgildi.

Mér kom í hug þetta erindi í Hávamálum:

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Þetta á vel við á þessari stundu. Andúð á spillingu, forréttindum og okri. Svona menn eru ómetanlegir.

Og nú kær vinur horfinn á braut. Ég þakka honum fyrir samferðina. Það er mikill söknuður að Óskari. Innileg samúðarkveðja til Kristínar, dætranna og fjölskyldna.

Ólafur Hjörtur

Sigurjónsson.