Mér finnst notalegt að hreiðra um mig inni í stofu og fletta ljóðabókum en ekki festa mig við neina eina. Í Kvæðum Brynjólfs Jónssonar frá Minna-Núpi datt ég niður á „Farsældarskilyrðið“: Ef auðnast mér, að ánægju ég njóti, er einskisvert, hvað ganga kann á móti

Mér finnst notalegt að hreiðra um mig inni í stofu og fletta ljóðabókum en ekki festa mig við neina eina. Í Kvæðum Brynjólfs Jónssonar frá Minna-Núpi datt ég niður á „Farsældarskilyrðið“:

Ef auðnast mér, að ánægju ég njóti,

er einskisvert, hvað ganga kann á móti.

En ef ég hefi óánægðan huga

kann ekkert mér til farsældar að duga.

Í Ljóðmælum Hannesar S. Blöndal er þessi vísa:

Hugsanir manns ekki mennirnir sjá,

og margt býr í hjarta, sem skín ekki´á brá;

þó leiki um varirnar hljómandi hlátur,

í hjartanu leynist oft beiskasti grátur.

Kristján Fjallaskáld orti á hausti:

Fölnar rós og bliknar blað

á birkigreinum;

húmar eins og haustar að

í hjartans leynum.

Jónas Guðlaugsson orti, - „Ég veit“:

Ég veit hvert vegurinn liggur,

mitt vonaland er nær.

Því sólin hefur sagt mér það,

hún sagði mér það í gær.

Ég veit að brautin er hörð og hál

og hyldýpið margan fól.

Æ, viltu gefa mér gyllta skó

að ganga þangað sól!

Jón Þorsteinsson Arnarvatni:

Nóttin kveður ástaróð

alla móa og tjarnir kringum

með sumarvind og sólarglóð

í sínum ungu tilhneigingum.

Ólöf Sigurðardóttir frá Hlöðum:

Þó konum sé ýtt o´ní aftaní-bát

í alls konar framsóknum þjóða,

þá var það þó, manstu´ekki, ´ún Eva, sem át

af eplinu skilningsins góða!

Látra-Björg kvað:

Guð er vís að gefa mér

góða fiska fjóra.

hann mun sjálfur hugsa sér

að hafa þá nógu stóra.

Steinunn í Höfn orti:

Fagrar heyrði ég raddirnar

við Niflunga heim.

Ég get ekki sofið

fyrir söngvunum þeim.

„Stúlkuvísa“ eftir Benedikt Þorvaldsson Gröndal:

Grönn og há og björt á brá,

brúneyg, frá og handa-smá,

svipfríð má þann seiminn fá

Sigga bláa kjólnum á.
Minn er allur auður hér,
engu svo ég halli,
ofurlítið kvæðakver
og krakkar átta á palli.
Páll Jónasson í Hlíð yrkir á sumardaginn fyrsta:
Veðrið hefur í verra skipt,
vorið lappir dregur,
og nú er litla Gunna gift
Guð er undarlegur.
Jón Þorláksson á Bægisá orti:
Skrykkjótt gengur oft til enn,
eins og fyrr með köflum,
en grátlegt er þá góðir menn
gjöra sig að djöflum.
Jón Thoroddsen orti í Höfn:
Heim mig sækir hugarpín
hreyfi ég döprum orðum,
stokkin burt er stúlkan mín,
er stóð við gluggann forðum.
Gísli Ólafsson frá Eiríksstöðum orti:
Hér um stund ég staðar nem,
Stari, spyr og svara.
Ég veit ekki hvaðan ég kem
né hvert ég er að fara.
Þorsteinn Erlingsson orti á fjöllum:
Bagar mína braut um fjöll
brekkur urð og klaki.
Mér skal verða auðnin öll
einhvern tíma að baki.
Halldór Blöndal