Styttingin Borgarstarfsmenn hreinsa frá niðurföllum.
Styttingin Borgarstarfsmenn hreinsa frá niðurföllum. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Anton Guðjónsson anton@mbl.is Starfsfólki Reykjavíkurborgar ber að stimpla sig út úr vinnu á meðan það fer til læknis og „telst [það] þá eftir atvikum hafa ráðstafað styttingu vinnuvikunnar sem þeirri fjarveru nemur eða merkir fjarveruna með sérstakari fjarverutegund í viðverukerfi.“

Anton Guðjónsson

anton@mbl.is

Starfsfólki Reykjavíkurborgar ber að stimpla sig út úr vinnu á meðan það fer til læknis og „telst [það] þá eftir atvikum hafa ráðstafað styttingu vinnuvikunnar sem þeirri fjarveru nemur eða merkir fjarveruna með sérstakari fjarverutegund í viðverukerfi.“

Þetta kom fram í svari mannauðs- og starfsumhverfissviðs borgarinnar, á fundi borgarráðs í síðustu viku, við fyrirspurn Sósíalistaflokks Íslands frá 16. desember 2021 um læknaheimsóknir á vinnutíma og styttingu vinnuvikunnar. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins lagði fram bókun þar sem fram kemur að með því að ráðstafa styttingunni með þessum hætti yrði styttingin uppurin og myndi ekki nýtast sem frí eða hvíld.

„Ég myndi ekki segja að svarið endurspegli þessa niðurstöðu sem við komumst að,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, í samtali við Morgunblaðið.

Hún segir að niðurstaða innleiðingarhóps hafi verið að þegar um ræðir læknisheimsóknir, jarðarfarir nákominna, mæðravernd og ungbarnavernd, og neyðartilfelli koma óvænt upp sem þarfnast úrlausnar umsvifalaust, að þá þyrfti fólk ekki að stimpla sig út.

„Það sem við bentum á á sínum tíma var að vinnuverndarlögin segja að læknisheimsóknir megi ekki valda tekjutapi. Þá kom borgin með þetta á móti að þetta væri náttúrlega ekki tekjutap. Þá bentum við á á móti að það væri nú þegar stór hluti fólks sem færi ekki til læknis vegna kostnaðar og það mætti ekki búa til tvöfalda mótstöðu við það heldur ætti það að einfaldlega að vera hagur atvinnurekenda að hvetja fólk til þess að fara til læknis. Í mörgum tilfellum stjórnum við ekki hvenær við fáum tíma hjá lækni. Þannig að við hvetjum fólk sannarlega til að reyna að nýta styttinguna en svo er misjafnt eftir vinnustöðum hvernig þau eru að taka þetta,“ segir Sonja.

Hún segir þannig að upp geti komið að fólk leiti til læknis vegna aðstæðna sem rekja megi til vinnustaðarins, til dæmis vegna vinnuslysa, eineltis, eða annars sem veldur því að fólk þarf að leita læknisaðstoðar.

„Við höfum bent á að það væri verið að setja ákveðna sperru við að fólk færi með því að taka styttinguna af því,“ segir Sonja. Hún segir að hugsunin hafi verið sú að ekki væri verið að sinna erindum á vinnutíma sem hægt væri að stjórna tímasetningum á en annað gildi um læknisheimsóknir.

„Ég skildi þetta samtal okkar svo að við værum á sama máli með það.“

Í viðverustefnu Reykjavíkurborgar stendur að „til skammtímafjarvista af persónulegum ástæðum teljast fjarvistir vegna jarðarfara, ferða til læknis, vegna foreldraviðtala eða annars. Starfsmenn skulu sinna persónulegum erindum utan vinnutíma, verði því við komið. Sé því ekki við komið er það stefna Reykjavíkurborgar að starfsmenn geti sinnt þessum erindum eftir því sem aðstæður leyfa. Í slíkum tilvikum skal starfsmaður ætíð ráðfæra sig við yfirmann.“

„Við vorum raunverulega að vísa því í samtalið á vinnustaðnum að þau myndu finna bestu lausnina á þessu,“ segir Sonja.