Bati Gestir á veitingastað fylgjast með ávarpi Li Keqiang. Svo virðist sem mjög hafi dregið úr þeim meðbyr sem kínverska hagkerfið hefur fengið að njóta undanfarna fjóra áratugi og eru margar áskoranir fram undan.
Bati Gestir á veitingastað fylgjast með ávarpi Li Keqiang. Svo virðist sem mjög hafi dregið úr þeim meðbyr sem kínverska hagkerfið hefur fengið að njóta undanfarna fjóra áratugi og eru margar áskoranir fram undan. — AFP/Grek Baker
Fréttaskýring Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Li Keqiang, forsætisráðherra Kína, tilkynnti á fundi kínverska Alþýðuþingsins á sunnudag að stefnt sé að um það bil 5% hagvexti í landinu á þessu ári. Til samanburðar mældist hagvöxtur 3% á síðasta ári, og fór lægst niður í 2,2% árið 2020. Hefur hagvöxtur í Kína frá aldamótum, samkvæmt opinberum mælingum, verið á bilinu 6 til 14,2% ef kórónuveirutímabilið er undanskilið.

Fréttaskýring

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Li Keqiang, forsætisráðherra Kína, tilkynnti á fundi kínverska Alþýðuþingsins á sunnudag að stefnt sé að um það bil 5% hagvexti í landinu á þessu ári. Til samanburðar mældist hagvöxtur 3% á síðasta ári, og fór lægst niður í 2,2% árið 2020. Hefur hagvöxtur í Kína frá aldamótum, samkvæmt opinberum mælingum, verið á bilinu 6 til 14,2% ef kórónuveirutímabilið er undanskilið.

Alþýðuþingið (e. NPC – National People‘s Congress) er helsta löggjafarsamkunda kínverska stjórnkerfisins og kom saman á sunnudag í kjölfar fundar pólitíska ráðgjafarþingsins (e. CPPCC – Chinese People‘s Political Consultative Conference) sem fram fór á laugardag en þinghald stendur yfir í nokkrar vikur í hvert sinn. Fara fundir NPC og CPPCC fram árlega en féllu niður í kórónuveirufaraldrinum. Alþýðuþingið sækja 2.980 fulltrúar og á ráðgjafarþinginu sitja 2.158 manns. Þrátt fyrir að stofnanirnar fari í orði kveðnu með löggjafarvald gera þær í reynd fátt annað en að samþykkja stefnu- og lagabreytingar sem æðstu ráðamenn kínverska kommúnistaflokksins hafa þegar sammælst um.

Auk þess að kynna hagvaxtarmarkmið stjórnvalda greindi Li Keqiang frá því að stjórnvöld vænti þess að 3% halli verði á fjárlögum í ár. Þá ætla kínversk yfirvöld að búa til 12 milljón ný störf á þéttbýlissvæðum Kína og á atvinnuleysi ekki að fara yfir 5,5%.

Sagði Li að kórónuveirufaraldurinn hefði valdið bæði stórum og smáum fyrirtækjum miklum vanda og gert þeim erfitt fyrir að halda fólki í vinnu. Þá hefðu héraðsstjórnir víða um land lent í töluverðum fjárhagskröggum.

Líf í innkaupastjórum

FT hefur eftir markaðsgreinendum að sú stefna að ná fram 5% hagvexti á árinu gefi til kynna að kínversk stjórnvöld treysti sér núna aftur til að láta hagvöxt vísa veginn í efnahags- og fjármálastefnu sinni. Hins vegar sé markið sett lágt, miðað við árin fram að kórónuveirufaraldrinum, sem kunni að vera til marks um að tímabil ævintýralegs hagvaxtar sé að baki.

Ágætis viðsnúningur hefur verið í kínversku atvinnulífi eftir að stjórnvöld ákváðu seint á síðasta ári að byrja að vinda ofan af ströngum smitvarnaaðgerðum sínum. Athygli vakti að kínverska innkaupastjóravísitalan tók kipp í febrúar og mældist 52,6 stig. Hefur vísitalan ekki verið svo há í áratug og þykir þróunin til marks um að kínversk fyrirtæki séu óðara að ná vopnum sínum á ný.

Notaði Li ávarp sitt til að vara við því að kínverska hagkerfið þyrfti að takast á við ótal áskoranir, þar á meðal ytri þætti á borð við verðbólgu hjá viðskiptalöndum Kína, minnkandi alþjóðaviðskipti og „stigvaxandi tilraunir annarra þjóða til að koma böndum á efnahagsþróun Kína.“

Erlendir fjárfestar gæti sín

Er ljóst að áhugi erlendra aðila á Kína hefur snarminnkað að undanförnu, m.a. vegna aðfarar kínverskra stjórnvalda að stöndugustu tæknifyrirtækjum landsins, og vegna vaxandi spennu í samskiptum Kína og Taívans. Beinist athygli fjárfesta og erlendra fyrirtækja þess í stað að löndum á borð við Víetnam, Taívan, Malasíu og Indland en einnig löndum í öðrum heimshlutum, s.s. Mexíkó.

Í viðtali hjá bandarísku sjónvarpsstöðinni FOX Business í síðustu viku varaði milljarðamæringurinn Mark Mobius sérstaklega við fjárfestingum í Kína og sagði hann hömlur á fjármagnsflutningum valda því að innistæður á kínverskum bankareikningum hans sætu fastar: „Ég er með reikning hjá HSBC í Sjanghaí og get ekki tekið peningana úr landi,“ sagði hann. „Það er ómögulegt að fá útskýringu á því hverju þetta sætir en í stað þess að segja hreint út að ekki megi færa peninga úr landi er beðið um pappíra sem ná 20 ár aftur í tímann til að bera sönnur á hvernig ég eignaðist féð. Þetta er alveg galið.“

Mobius hefur lengi verið sérlega áhugasamur um Kína sem fjárfestingarkost en segir landið hafa vikið af þeirri umbótastefnu sem mörkuð var í tíð Dengs Xiaopings. Kveðst hann núna beina sjónum sínum frekar að Indlandi og Brasilíu.