María Lovísa Kjartansdóttir fæddist í Bröttuhlíð Eskifirði 1. des. 1954.

Hún var dóttir hjónanna Sigríðar Maríu Elísabetar Nílsen, f. 25. feb. 1930 og Kjartans Lárusar Péturssonar, f. 1. nóv. 1930. Systur Maríu Lovísu eru Hafdís, hálfsystir samfeðra, og alsystur Guðrún Jóhanna, Karen Auðbjörg og Anna Jörgína.

Fyrstu ár Maríu bjó fjölskyldan á Eskifirði en flutti svo að Eyri við Reyðarfjörð og þaðan inn í Áreyjar í Reyðarfirði. Foreldrar Maríu skildu og María og Karen urðu eftir hjá föður sínum en Guðrún og Anna fylgdu móður sinni. María vann ýmis störf á ýmsum stöðum um ævina og má þar nefna Hótel KHB á Reyðarfirði, eldhús Sjúkrahússins í Neskaupstað, Verslun Höskuldar í Neskaupstað og seinna á Reyðarfirði. Hún kenndi við grunnskólann á Fáskrúðsfirði, vann á elliheimilinu á Kirkjubæjarklaustri, í eldhúsinu á Droplaugarstöðum og eldhúsinu á Vogi. Á fullorðinsárum lauk María stúdentsprófi, lærði til sjókokks og útskrifaðist sem matartæknir þegar hún var um fimmtugt.

María giftist Stefáni Eiríkssyni frá Neskaupstað, f. 25. sept. 1949, þann 2. ágúst 1974. Þau bjuggu fyrst í Neskaupstað en fluttu svo til Reyðarfjarðar. María og Stefán eignuðust soninn Kára Gunnar 8. sept. 1981. Kári Gunnar á eina dóttur, Aðalheiði Lilju, f. 7. maí 2010, með fyrrverandi eiginkonu sinni. Unnusta Kára í dag er Daðey Arnborg Sigþórsdóttir, f. 17. mars 1983 og á hún börnin Júlíus Elfar, f. 30. júní 2009 og Sunnevu Valeyju, f. 10. mars 2011, Valdimarsbörn.

María og Stefán skildu árið 1988. María bjó um nokkurra ára bil með Guðmundi Þorsteinssyni frá Þernunesi í Reyðarfirði, f. 9. júní 1947. Lengst af bjuggu þau á Fáskrúðsfirði en síðan á Kirkjubæjarklaustri og svo á höfuðborgarsvæðinu þar sem María hefur búið frá því haustið 1998. María og Guðmundur slitu samvistir árið 2005.

María kynntist núverandi unnusta sínum, Leó Óskarsyni frá Vestmannaeyjum, f. 4. ágúst 1953, í desember árið 2005 og átti sameiginlegur áhugi þeirra á dansi örugglega góðan þátt í því að þau náðu vel saman og nutu þau þess að ferðast um innanlands og utan á meðan heilsa Maríu leyfði. María fékk vefjagigt fyrir allnokkrum árum og síðan krabbamein, fyrst brjóstakrabbamein sem hún sigraðist á en haustið 2022 greindist hún með krabbamein í brisi sem hún laut svo í lægra haldi fyrir 20. febrúar sl.

Útför Maríu fór fram í kyrrþey.

Elsku amma. Þegar við hugsum til þín þá minnumst við hlýju, góðmennsku og kátínu þinnar.

Þú varst alltaf opin og glöð og sagðir já við öllu sem við báðum um. Ef þú sagðir einhvern tímann nei – þá var það bara af því þú varst búin að spyrja mömmu og pabba fyrst. Hjá þér horfðum við stelpurnar á endalaust af gömlum Barbie-myndum. Við lékum okkur í dótaherberginu með alls konar leikföng, gömul og ný. Þú varst alltaf áhugasöm um hvað við vorum að gera hverju sinni og studdir okkur áfram í áhugamálum okkar. Þú áttir alltaf ís í frystinum og við minnumst þess líka sérstaklega að koma til ykkar Leós í vöfflur.

Það er erfitt að hugsa til þess að þú sért farin frá okkur en við yljum okkur við minningarnar og öll prjónafötin sem þú hefur gert á okkur.

Við allt viljum þakka amma mín,

indælu og blíðu faðmlög þín,

þú vafðir oss vina armi.

Hjá vanga þínum var frið að fá

þá féllu tárin af votri brá,

við brostum hjá þínum barmi.

Við kveðjum þig elsku amma mín,

í upphæðum blessuð sólin skín,

þar englar þér vaka yfir.

Með kærleika ert þú kvödd í dag,

því komið er undir sólarlag,

en minninga ljós þitt lifir.

(Halldór Jónsson frá Gili)

Takk fyrir alla sleikjóana.

Júlíus Elfar,

Aðalheiður Lilja

og Sunneva Valey

Elsku Maja.

Það er undarlegt að sitja hér, staldra við í dagsins önn, til þess að rifja upp tímann okkar saman. Eitthvað sem við vissum jú að myndi koma að bráðlega. Ekkert okkar átti þó von á að bráðlega yrði svona fljótt. Við héldum öll að við hefðum meiri tíma með þér.

Ég hef nú ekki þekkt þig lengi og mikið af þeim tíma sem líf okkar hefur tvinnast saman í gegnum son þinn hefur einkennst af einhvers konar fjarlægð. Fjarlægð vegna þess að þið Leó höfðuð vetrarbúsetu á Kanarí í bland við fjarlægð vegna covid eða veikinda þinna. Þrátt fyrir það fannstu alltaf einhverja leið til að sýna okkur hversu miklu máli við skiptum. Með hverju handabandi, knúsi og hverju litla augnasambandi fylgdu alltaf svo mikil innilegheit af þinni hálfu. Þann tíma sem við áttum með þér nýttirðu svo sannarlega vel.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Elsku Maja. Ég verð þér ævinlega þakklát fyrir svo margt. Þakklát fyrir að þú skyldir taka börnunum mínum eins og þínum eigin barnabörnum. Þakklát fyrir allt prjónlesið sem þú hefur gefið okkur. Þakklát fyrir alla þá hlýju sem þú hefur sýnt mér. Þakklát fyrir þann fyrirmyndarmann sem þú hefur alið upp í Kára. Um leið kveð þig í hinsta sinn og þakka þér fyrir allt og allt – þá lofa ég að passa upp á Kára og elska hann nóg fyrir okkur báðar.

Þín tengdadóttir,

Daðey.