Hátíð Agnes í Kalda ásamt Laufeyju Sif Lárusdóttur, formanni Félags íslenskra handverksbrugghúsa.
Hátíð Agnes í Kalda ásamt Laufeyju Sif Lárusdóttur, formanni Félags íslenskra handverksbrugghúsa. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
„Það er ótrúlega mikill heiður að fá þessi verðlaun. Við erum bara í skýjunum hérna,“ segir Agnes Anna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Bruggsmiðjunnar Kalda á Árskógssandi, sem fyrir helgi hlaut fyrstu heiðursverðlaun Samtaka íslenskra handverksbrugghúsa

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Það er ótrúlega mikill heiður að fá þessi verðlaun. Við erum bara í skýjunum hérna,“ segir Agnes Anna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Bruggsmiðjunnar Kalda á Árskógssandi, sem fyrir helgi hlaut fyrstu heiðursverðlaun Samtaka íslenskra handverksbrugghúsa. Verðlaunin voru afhent á hátíð samtakanna á bjórdaginn sjálfan, 1. mars, en 34 ár voru þá liðin frá því að sala bjórs var leyfð á ný hér á landi. Í ár eru hins vegar 17 ár síðan Kaldi kom fyrst á markað og ruddi veginn fyrir íslenskan handverksbjór.

Agnes sagði að afar ánægjulegt hefði verið að hitta kollega sína í handverksbrugghúsum landsins. Hátíðin var haldin í Ægisgarði og er ætlunin að hún verði árleg hér eftir. Agnes er sú fyrsta sem hlýtur heiðurverðlaun samtakanna.

„Þetta var ofsalega gaman og gott að halda góðri tengingu milli landshluta. Okkur finnst við stundum vera svolítið afskekkt,“ segir Agnes.

Mikið magn af bjór hefur farið í gegnum tankana hjá Kalda síðan framleiðsla hófst og kveðst Agnes ekki hafa tölu yfir fjölda seldra bjóra eða lítra á þeim tíma. Kaldi framleiddi 350 þúsund lítra á síðasta ári.

„Við lítum björtum augum til framtíðar en því er hins vegar ekki að neita að ríkisvaldið hefur gert okkur þetta gríðarlega erfitt. Það eru ótrúlega háir skattar á áfengi og okkur finnst þetta komið út í algert rugl. Mér finnst að kannski sé kominn tími til að íslensk framleiðsla fái einhvern afslátt. Það er í raun löngu tímabært,“ segir Agnes.

Hún segir að síðustu ár hafi verið rætt um tilhliðranir fyrir handverksbrugghús en ekkert slíkt hafi orðið að veruleika. „Þetta er eðlilegt baráttumál svo þessi litlu hús komist í gegnum svona rugl sem er í gangi. Slíkt fyrirkomulag þekkist víða í Evrópu, að lægri áfengisgjöld séu lögð á innlenda framleiðslu, sérstaklega á minni hús. Það verður auðvitað að horfa til þess að það eru ótal störf í kringum framleiðslu sem þessa, ekki bara framleiðslan sjálf heldur líka fyrir hönnuði, gerð umbúða, flutninga og annað. Þau ber að vernda.“

Margt hefur breyst á þessum 17 árum hjá Agnesi og hennar fólki. Kaldi hefur smám saman fært út kvíarnar og næsta skref er að hefja framleiðslu á áfengislausum bjór. Áður hafði fyrirtækið tekið fyrstu skrefin í átt að ferðamennsku með opnun Bjórbaðanna og síðar gististaðar sem innréttaður var í fiskhúsi sem hafði staðið ónotað í 22 ár á undan. „Þetta eru nú reyndar bara fimm herbergi en við eigum eftir að stækka. Við erum samt svo stórhuga að við köllum þetta hótel. Það er gott að venja sig bara á það strax.“