21 Guðmundur smellir kossi á Íslandsmeistarabikarinn í gær.
21 Guðmundur smellir kossi á Íslandsmeistarabikarinn í gær. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
Guðmundur E. Stephensen úr Víkingi úr Reykjavík tryggði sér í gær Íslandsmeistaratitilinn í borðtennis með öruggum sigri á Magnúsi Gauta Úlfarssyni úr BH, 4:0, í úrslitaleiknum í einliðaleik á Strandgötu í Hafnarfirði í gær

Guðmundur E. Stephensen úr Víkingi úr Reykjavík tryggði sér í gær Íslandsmeistaratitilinn í borðtennis með öruggum sigri á Magnúsi Gauta Úlfarssyni úr BH, 4:0, í úrslitaleiknum í einliðaleik á Strandgötu í Hafnarfirði í gær.

Í úrslitaleiknum vann Guðmundur fyrstu lotu 11:7, aðra lotu 11:4, þriðju lotu 11:8 og þá fjórðu 11:2.

Hinn fertugi Guðmundur tilkynnti um miðjan janúar að hann hygðist taka spaðann af hillunni eftir tíu ára hlé og taka þátt á Íslandsmótinu í ár.

Hann hefur bersýnilega engu gleymt og vann sinn 21. Íslandsmeistaratitil í gær þrátt fyrir að hafa ekki keppt í áratug fyrir það.

Guðmundur skaust enda barnungur fram á sjónarsviðið þegar hann vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil, þá einungis 11 ára gamall. Í hönd fór óviðjafnanleg og óslitin sigurganga þar sem hann varð Íslandsmeistari 20 ár í röð frá 1994 til 2013, þegar Guðmundur lagði spaðann á hilluna.

Í úrslitaleiknum í einliðaleik kvenna vann Nevena Tasic úr Víkingi sinn þriðja Íslandsmeistaratitil með sigri á Sól Kristínardóttur Mixa úr BH, 4:1, í gær.

Nevena vann fyrstu tvær loturnar, 11:7 og 11:9, en Sól svaraði í þriðju lotu og vann hana 13:11. Fjórðu lotu vann Nevena svo 11:5 og þá fimmtu og síðustu 11:8.

Á laugardag vann Nevena til annars Íslandsmeistaratitils, í tvenndarleik, ásamt liðsfélaga sínum úr Víkingi, Inga Darvis Rodríguez.

Þar höfðu þau betur gegn Magnúsi Gauta og Sól úr BH, 3:1. Var þetta þriðji Íslandsmeistaratitill Nevenu og Inga í tvenndarleik í röð. gunnaregill@mbl.is