Rekkja Konunglega svefnherbergið í Westminster þar sem Karl konungur mun hugsanlega sofa.
Rekkja Konunglega svefnherbergið í Westminster þar sem Karl konungur mun hugsanlega sofa. — AFP/Daniel Leal
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Konungleg rekkja, sem geymd er í Westminsterhöll, þinghúsinu í Lundúnum, gæti hugsanlega loks þjónað því hlutverki, sem henni var ætlað að gegna, rúmlega einni og hálfri öld eftir að hún var smíðuð, þegar Karl III konungur Bretlands verður krýndur í maí

Guðmundur Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Konungleg rekkja, sem geymd er í Westminsterhöll, þinghúsinu í Lundúnum, gæti hugsanlega loks þjónað því hlutverki, sem henni var ætlað að gegna, rúmlega einni og hálfri öld eftir að hún var smíðuð, þegar Karl III konungur Bretlands verður krýndur í maí.

Aldalöng hefð var fyrir því að konungur Bretlands svæfi í Westminsterhöll nóttina fyrir krýningu áður en hann flytti í hina eiginlegu konungshöll. Brugðið var út af þessari hefð þegar Hinrik áttundi var krýndur á 16. öld en tveimur öldum síðar var hún endurvakin þegar Georg IV var krýndur árið 1821. Rekkjan, sem hann svaf í nóttina fyrir krýninguna, eyðilagðist hins vegar í eldsvoða í breska þinghúsinu árið 1834.

Ný rekkja var smíðuð árið 1858. Mark Collins, sagnfræðingur sem hefur sérhæft sig í sögu breska þingsins, segir við AFP-fréttastofuna, að hún hafi þó aldrei verið notuð í tengslum við krýningu þjóðhöfðingja. Rekkjan var tekin í sundur og sett í geymslu meðan á síðari heimsstyrjöld stóð og féll síðan í gleymskunnar dá. Engin vissi hvar rekkjan var niðurkomin þegar Elísabet II var krýnd árið 1953.

En á áttunda áratug síðustu aldar hóf Clive Wainwright, sérfræðingur hjá Victoria and Albert-safninu í Lundúnum, leit að rekkjunni. Sú leit bar árangur: fjölskylda nokkur gaf sig fram og upplýsti, að rekkjuna væri að finna í Wales. Foreldrar Richards Martins, sem nú er sjötugur, keyptu rúmið á uppboði á sjöunda áratugnum fyrir 100 bresk pund.

„Þau vissu að rúmið var merkilegur gripur en höfðu enga hugmynd um hvaðan það kom,“ segir sagnfræðingurinn Collins.

Í tvo áratugi var rúmið mikið notað og í því fæddist raunar eitt barna Martin-hjónanna árið 1965. „Enginn annar átti svona rúm,“ hefur AFP eftir Richard Martin.

Safnið keypti rúmið af fjölskyldunni og lét lagfæra það og koma í upprunalegt horf. Tjöldin, sem fylgdu rekkjunni og voru skreytt með rós, tákni Englands, þyrni, tákni Skotlands, og smára, tákni Wales, voru löngu horfin en þau voru endurgerð árið 1984.

Nú getur almenningur skoðað rekkjuna en Lindsay Hoyle, forseti neðri deildar breska þingsins, ákvað að opna vistarverunar í þinghúsinu fyrir skoðunarferðir. Rekkjan verður þó ekki til sýnis helgina 5.-7. maí þegar Karl verður krýndur.

Konunglega rekkjan er steinsnar frá Big Ben og út um gluggann í herberginu sjást Westminsterbrú og London Eye. Efri hluti rekkjunnar, sem er úr hnotu með gyllingu og konunglegum fangamerkjum, er í rúmlega þriggja metra hæð. Nú veltir fólk vöngum yfir því hvort Karl hyggst endurvekja hefðina gömlu og sofa í rekkjunni nóttina fyrir krýninguna. Collins segir, að rúmið sé reiðubúið að þjóna hlutverki sínu þegar og ef þar að kemur.