Fjölskyldan F.v.: Samúel Sigurjón, Samúel, Gunnar Guðberg, Rannveig og Arnar Þór á suðrænum slóðum.
Fjölskyldan F.v.: Samúel Sigurjón, Samúel, Gunnar Guðberg, Rannveig og Arnar Þór á suðrænum slóðum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Samúel Kristjánsson fæddist 6. mars 1953 í Súðavík og hefur búið þar allar götur síðan. Hann er einn níu systkina sem öll voru kennd við Litlabæ. „Það var aldrei skortur á leikfélögum á mínu æskuheimili,“ segir Samúel

Samúel Kristjánsson fæddist 6. mars 1953 í Súðavík og hefur búið þar allar götur síðan. Hann er einn níu systkina sem öll voru kennd við Litlabæ. „Það var aldrei skortur á leikfélögum á mínu æskuheimili,“ segir Samúel. „Sem betur fer var ekkert sjónvarp, engin tölva, ekki símar og ekki einu sinni sjoppa í bænum. Þá kunnu krakkar að leika sér,“ segir hann og rifjar upp alls kyns útileiki og fjörið sem var í kringum sjávarútveginn og landbúnaðinn í bænum. „Menn ferðuðust allt á tveimur jafnfljótum eða á reiðhjólum og stundum skoppuðum við krakkarnir gjörð á undan okkur.“

Hann segir að í sinni æsku hafi verið gríðarleg hreyfing á börnum. „Maður þurfti að labba þorpið á enda til að fara í skólann í öllum veðrum og það kom varla fyrir að skóla væri frestað vegna veðurs þótt það sæi ekki út úr augum. Þá var ekkert verið að keyra krakka eitt eða neitt í bíl. Annað hvort labbaði maður eða fór ekki. Það var ekki flóknara en það.“

Samúel rifjar upp að það hafi alls ekki allir verið með síma á þessum tíma og oft var bankað upp á og kallað í fólk til að koma í símann á einhverjum ákveðnum tíma. „Það voru bara örfáir með síma í Súðavík þegar ég var púki,“ segir hann. Samúel bar út póst og minnist þess einnig að hafa oft farið með skeyti til manna. „Skeytin voru innsigluð með bláu merki Pósts og síma. Svo kom Brauðkistan með Fagranesinu tvisvar í viku til Súðavíkur þegar vegurinn var lokaður, en hann gat verið lokaður dögum saman. Fagranesið fór alltaf inn í Djúp og fór inn í alla firði og var að hirða mjólk af bændunum og færa þeim vistir. Svona var þetta þá. Það var ekkert kominn vegur þarna víða. Ég man eftir því þegar það var verið að leggja veginn út allan Álftafjörð austanverðan og inn í Seyðisfjörð. Einu sinni vorum við að fara inn að Uppsölum. Þá komumst við inn að Eyri á bíl á einhverjum vegartroðningi og þurftum síðan að labba restina. Þegar við nálguðumst Uppsali kom illvígt naut af bænum á móti okkur krökkunum og við hlupum eins og við gátum og komumst inn í hús í var. Já, það hefur margt breyst síðan maður var púki.“

Samúel byrjaði ungur að vinna í frystihúsinu og skar af skreið og spyrti til að hengja upp á hjalla. Síðan fór hann á sjóinn. „Ég fór á smokk á Freyjunni haustið 1966. Þá voru menn með færi að veiða smokk. Það var árviss viðburður að það kom smokkur í djúpið. Svo var maður þarna á bátunum heima og ég hef verið mest til sjós í gegnum tíðina, þótt ég hafi eitthvað unnið í byggingarvinnu og fleiru líka.“

Samúel var um tvítugt þegar hann byrjaði á föstu með Rannveigu Jónu sem varð svo eiginkona hans. „Við erum búin að vera saman síðan. Hún er líka fædd og uppalin hérna í Súðavíkinni sem betur fer, því það hefur ekkert togað þá í að fara úr Súðavíkinni,“ segir hann. „Það er alltaf best að vera í heimahögunum,“ segir hann og bætir við að eftir snjóflóðið 1995 hafi margir flutt úr bænum en þau Rannveig hafi ákveðið að fara hvergi. „Við viljum hvergi annars staðar vera.“

Samúel var oddviti Súðavíkurhrepps um nokkurra ára skeið. „Ég ákvað að fara í þetta á síðasta kjörtímabili og var oddviti síðustu þrjú árin af fjórum, segir hann og bætir við að hann hafi ákveðið að vera ekki áfram.

„Ég held að enginn hafi gott af því að vera í svona störfum of lengi. Menn verða bara ráðríkir og halda að það sé ekkert hægt nema þeir séu við. Þú sérð bara hvernig þetta er á Alþingi. Það ætti enginn að vera lengur en tvö kjörtímabil í einu. En það er eins og menn vilji ekki fara af jötunni þegar þeir eru komnir á hana.“ En Samúel segist ekki kunna vel við pólitíska umræðu í þjóðfélaginu í dag.

„Það eru allir að rakka hver annan niður. Pólitík er versta tík sem til er. Þú veist aldrei hvenær þú færð rýtinginn í bakið.“

Samúel segist ekki vera neinn sérlegur áhugamaður um íþróttir. „Mér þykir gaman að labba í fjörunni og vera úti í náttúrunni. Svo hef ég verið á strandveiðum á sumrin og læt það duga. Svo þarf að dytta að húsinu og halda lóðinni fínni og hafa bílinn í góðu standi. Það er best að rækta garðinn sinn heima.“

Fjölskylda

Eiginkona Samúels er Rannveig Jóna Ragnarsdóttir, f. 30.4. 1952. Foreldrar hennar eru Ragnar Hermann Þorbergsson, f. 15.3. 1928, og Guðrún Þorgerður Jónasdóttir, f. 2.11. 1929, d. 30.6. 1990.

Synir Samúels og Rannveigar eru 1) Samúel Sigurjón, f. 21.9. 1982, kvæntur Svölu Sif Sigurgeirsdóttur, f. 9.5. 1988. Þau eiga börnin Samúel Mána, f. 4.12. 2015, og Guðrúnu Máneyju, f. 13.6. 2019. 2) Arnar Þór, f. 1.2. 1986, í sambúð með Steinunni Helgadóttur, f. 30.10. 1993. Þau eiga dótturina Karitas Lind, f. 8.4. 2021. 3) Gunnar Guðberg, f. 17.1. 1992, í sambúð með Rúnu Kristinsdóttur, f. 27.5. 1994. Þau eiga soninn Kristinn Loga, f. 27.7. 2021.

Systkini Samúels eru 1) Grétar Már, f. 8.12. 1945; 2) Kristján, f. 24.10. 1947; 3) Sveinbjörn, f. 19.3. 1951; 4) Hálfdán, f. 23.3. 1954; 5) Sigurborg Kolbrún, f. 15.4. 1955; 6) Svandís, f. 24.12. 1957; 7) Ásdís, f. 24.12. 1957 og 8) sammæðra Jakob Kolbeins Þorsteinsson, f. 6.9. 1944.

Foreldrar Samúels voru hjónin Kristján Sveinbjörnsson, vélstjóri, f. 23.9. 1918, d. 30.5. 1994, og Guðbjörg Guðrún Jakobsdóttir, húsfreyja, f. 3.6. 1924, d. 25.5. 1996. Þau bjuggu í Súðavík.