Menntun Áhugasamt fólk mætti á kynningu í Háskólanum í Reykjavík.
Menntun Áhugasamt fólk mætti á kynningu í Háskólanum í Reykjavík. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
Vel þótti takast til í kynningardagskrá þeirri sem háskólar landsins efndu til um helgina. Svonefndur Háskóladagur var nú haldinn að nýju eftir hlé á tímum heimsfaraldurs og var margt um manninn á viðburðum sem haldnir voru

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Vel þótti takast til í kynningardagskrá þeirri sem háskólar landsins efndu til um helgina. Svonefndur Háskóladagur var nú haldinn að nýju eftir hlé á tímum heimsfaraldurs og var margt um manninn á viðburðum sem haldnir voru. Nemendur, kennarar og starfsfólk fræddu fólk um námsframboð og annað starf. Hægt var að fara í opna tíma, skoðunarferðir um húsakynni skólanna, skoða og prufa verkefni og rannsóknir nemenda. Dagskráin var í húsum Háskóla Íslands og fleiri í Vatnsmýri og í byggingu Háskólans í Reykjavík við Öskjuhlíð.

„Það er einstakt tækifæri fyrir framtíðarnemendur að fá að kynnast fjölbreyttu námsframboði í háskólum landsins. Háskóladagurinn gerir þeim það kleift með skemmtilegum hætti og getur skipt sköpum að vekja áhuga og kveiklja neista á námi. Einnig er áhugavert að byrjað er að kynna tæknifræðinám við Háskólann á Akureyri í samstarfi við Háskólann í Reykjavík. Slíkt er í fyrsta sinn sem tæknifræði verður í boði á Norðurlandi og í fjarnámi,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sem sótti viðburðinn og kynnti sér það sem í boði var.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson