[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Atvinnukylfingurinn Haraldur Franklín Magnús hafnaði í fjórða sæti á Camiral Golf & Wellness-mótinu í Katalóníu á laugardag. Mótið er hluti af Nordic Golf-mótaröðinni. Haraldur lék fyrsta og þriðja hring á 68 höggum hvorn og annan hringinn á 72 höggum

Atvinnukylfingurinn Haraldur Franklín Magnús hafnaði í fjórða sæti á Camiral Golf & Wellness-mótinu í Katalóníu á laugardag. Mótið er hluti af Nordic Golf-mótaröðinni. Haraldur lék fyrsta og þriðja hring á 68 höggum hvorn og annan hringinn á 72 höggum. Lauk hann því leik á sjö höggum undir pari. Norðmaðurinn Jarand Arnöy sigraði á ellefu höggum undir pari. Axel Bóasson, Andri Björnsson, Hákon Örn Magnússon, Elvar Kristinsson og Arnór Tjörvi Þórsson féllu allir úr leik eftir tvo hringi.

Jón Dagur Þorsteinsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, átti magnaðan leik fyrir OH Leuven er liðið vann 4:2-heimasigur á Zulte Waregem í belgísku A-deildinni á laugardagskvöld. Jón Dagur skoraði annað og fjórða mark Leuven og lagði upp þriðja markið. Hann fór svo af velli á 80. mínútu. Jón Dagur hefur skorað átta mörk fyrir Leuven á leiktíðinni og er næstmarkahæsti leikmaður liðsins.

Snæfríður Sól Jórunnardóttir skráði sig í sögubækurnar á laugardag er hún varð fyrsti Íslendingurinn til að synda 200 metra skriðsund á undir tveimur mínútum. Sundkonan setti glæsilegt Íslandsmet er hún synti vegalengdina á 1:59,75 mínútu á Vestur-Danmerkurmótinu. Gamla metið var 2:00,20, en það setti hún á Ólympíuleikunum í Tókýó. Snæfríður kom fyrst í mark í sundinu og gat því fagnað gullverðlaunum og Íslandsmeti. Hún lét ekki þar við sitja á mótinu þar sem hún sló sitt annað Íslandsmet síðar á laugardaginn er hún synti 100 metra skriðsund á 55,61 sekúndu. Bætti hún þannig 14 ára gamalt met Ragnheiðar Ragnarsdóttur. Snæfríður setti metið þegar hún synti fyrsta sprett í 4x100 metra skriðsundi í boðsundi. Sveit Snæfríðar fagnaði sigri á mótinu.

Knattspyrnumaðurinn Guðmann Þórisson er búinn að leggja skóna á hilluna, en hann er 36 ára gamall. Guðmann greindi frá ákvörðuninni á Instagram um helgina og voru skilaboðin skýr: „Hættur þessu helvítis tuðrusparki, takk fyrir mig allir.“ Varnarmaðurinn ólst upp hjá Breiðabliki en lék einnig með Nybergsund í Noregi, Mjällby í Svíþjóð og FH, þar sem hann varð tvisvar Íslandsmeistari, ásamt KA. Á síðasta ári lék Guðmann með Kórdrengjum í 1. deild og það var hans síðasta á ferlinum. Guðmann lék alls 155 leiki í efstu deild og skoraði í þeim átta mörk. Samtals lék hann 245 deildaleiki á ferlinum, heima og erlendis, og skoraði 13 mörk. Guðmann lék einn A-landsleik og 15 leiki með yngri landsliðum Íslands.

Sundkappinn Anton Sveinn McKee hefur undanfarna daga tekið þátt í Tyr-mótaröðinni í Fort Lauderdale í Bandaríkjunum. Anton Sveinn synti í fyrrinótt 200 metra bringusund á 2:10.86 mínútum og hafnaði í öðru sæti. Anton fékk hörkukeppni í sundinu en sigurvegarinn var Bandaríkjamaðurinn Will Licon á tímanum 2:10.77. Besti tími Antons í greininni er 2:08,74, sem hann náði á heimsmeistaramótinu í Búdapest síðasta sumar.

Kolbeinn Höður Gunnarsson var örskammt frá því að komast í undanúrslitin í 60 metra hlaupi á Evrópumeistaramótinu í frjálsíþróttum í Istanbúl á laugardag. Kolbeinn hljóp á 6,73 sekúndum og var því aðeins 5/100 úr sekúndu frá Íslandsmetinu sem hann setti í janúar en það er 6,68 sekúndur. Hann varð fimmti í sínum riðli en fjórir efstu komust áfram úr hverjum riðli ásamt þeim fjórum sem voru með bestu tímana þar á eftir. Kolbeinn var eins nálægt því að komast í undanúrslitin og mögulegt var, eða 1/100 úr sekúndu, því tveir síðustu inn í undanúrslitin hlupu á 6,72 sekúndum og fjórði maður í síðasta riðlinum fékk sama tíma og Kolbeinn, eða 6,73 sekúndur.

Kristianstad vann 2:1-endurkomusigur á Linköping í sænska bikarnum í knattspyrnu á laugardag. Hlín Eiríksdóttir lék allan leikinn fyrir Kristianstad og jafnaði metin í 1:1 á 69. mínútu áður en sigurmarkið kom á 86. mínútu. Amanda Andradóttir kom inn á sem varamaður á 81. mínútu en Emelía Óskarsdóttir var ekki í leikmannahópnum. Elísabet Gunnarsdóttir þjálfar Kristianstad. Liðið er með tvo sigra eftir tvo leiki og í afar góðri stöðu í baráttunni um sæti í undanúrslitum bikarsins.