Þórdís Ólafsdóttir fæddist 6. september 1959. Hún lést 12. febrúar 2023. Útför hennar fór fram 2. mars 2023.

Eins og ég segi, ég þekki orðið fleiri í blómabrekkunni en í lifanda lífi. Rúmt ár síðan maðurinn minn kvaddi og allir hinir sem við höfum kvatt. Brekkan er vel setin af góðu fólki, kirkjugarðurinn fullur af ómissandi fólki.

Á okkar uppeldisárum eyddum við systur miklum tíma saman og mikið var oft gaman hjá okkur, sama hvað við gerðum, bæði fíflagangur og alvara. Þegar börnin okkar fæddust, það sem þú hafðir gaman af því þegar dóttir mín kallaði þig mömmu og mig Gyðu. Árin liðu og oft var tekist á í blíðu og stríðu. Okkar systrasamband hefur gengið upp og niður í gegnum árin; annað hvort náð vel saman eða ekki talast við – þroskaleysi – ég veit það ekki – ekki ólíklegt.

Undanfarin rúm þrjú ár hafa verið okkur báðum lærdómsrík, við sáum hvað það er sem skiptir máli í lífinu. Við þurfum ekkert að tíunda það nánar hér.

Lífið er þannig að við erum alltaf að vinna verkefni. Við komumst ekkert hjá þeim, þú fékkst þitt stóra lokaverkefni sem þú vannst vel, stóðst þig vel allt til enda.

Mig langar að koma inn á hversu vænt mér þótti um það þegar þú komst í heimsókn til mín í veikindum þínum og vil ég sérstaklega nefna síðustu Þorláksmessu þegar þið mæðgur komuð færandi hendi með heimagerðan ís og allt í íssósuna. Þú varst að leiðbeina mér hvernig nákvæmlega ég ætti að gera sósuna svo ekkert myndi klikka hjá okkur mæðgum. Þú varst svo hress og kát en þarna sá ég í augunum þínum, Dísa mín, hversu stuttan tíma þú áttir eftir hér á hótel jörð.

Mig langar að biðja þig fyrir kveðju í draumalandið til allra sem ég þekki og hlýtt faðmlag á hann Bigga minn.

Gyða.

Dísa frænka, eins og við systkinin kölluðum hana alltaf, er fallin frá langt fyrir aldur fram.

Við Dísa erum systkinabörn í föðurætt. Faðir okkar og móðir Dísu voru systkin. Í gegnum tíðina hefur samgangurinn verið mjög mikill, bæði hér í gamla daga þegar allur krakkaskarinn hittist hjá ömmu Dísu á Bárugötunni eða á Þingvöllum og eins í seinni tíð, en Dísa og fjölskylda voru búin að reisa sér myndarlegt sumarhús við hliðina á okkur systkinunum á Þingvöllum.

Dísa koma alltaf til dyranna eins og hún var klædd. Hún var skelegg, stundum hávaðasöm (eins og Bridde-ættin er þekkt fyrir). Hún var ekkert að skafa utan af hlutnum, sagði hlutina bara eins og þeir voru. Hún var lífsglöð og skemmtileg og alltaf var stutt í hláturinn og glensið. Þingvellir hafa alltaf verið stór partur af lífi Bridde-fjölskyldunnar. Þar áttu amma og afi lítið kot sem var mikið notað af Stellu móður Dísu og bróður hennar, Guðna föður okkar. Einnig var Bárugata miðpunktur hittings okkar krakkanna hér á árum áður á meðan amma var af lífi. Fyrstu búskaparárin sín byrjaði Dísa hjá ömmu á Bárugötunni með honum Óla sínum og var það mikill fengur fyrir ömmu því að Dísa frænka tók það að sér að hugsa að mestu um hana. Fara út í búð, elda og halda henni félagsskap. Þar eignaðist Dísa sitt fyrsta barn, hana Ólöfu Lydiu, sem er skírð eftir móðurömmu sinni. Ólöf var skírð í stofunni heima hjá ömmu þar sem Dísa og Óli giftu sig líka. Amma og Dísa voru miklar vinkonur, enda mjög líkar. Hressar og kátar og alltaf stutt í brosið, grín og glens. Í seinni tíð urðu Þingvellir aftur að samkomustað stórfjölskyldunnar. Við systkinin, Guðnabörn, vorum búin að byggja bústað á gamla reit ömmu og afa og svo komu Dísa og Óli stuttu seinna og byggðu sinn bústað þar líka. Þar fannst þeim gott að vera. Óli var duglegur við að smíða og dytta að húsinu. Hann naut þess að fara út á vatnið á bát enda með eindæmum fiskinn. Dísa naut kyrrðarinnar og samverustunda með fjölskyldunni sinni.

Fyrir nokkrum árum greindist Dísa með krabbamein og háði harða glímu við þennan erfiða sjúkdóm. Hún gafst aldrei upp og gaf aldrei upp vonina. Það var enginn barlómur í henni, hún hélt sinni gleði og gríni og ætlaði sér að vinna þetta stríð. En því miður gekk það ekki eftir og hún kvaddi okkur nú í febrúar.

Það verður skrítið í sumar að vita að Dísa frænka komi ekki aftur á Þingvelli, veifi og kalli yfir til okkar „góðan daginn“. Við biðjum allar góðar vættir að passa fjölskyldu Dísu. Minning þín lifir.

Andrés, Hermann,
Alexander, Dísa Klara, Guðni Bridde og
fjölskyldur.

Elsku besta vinkona mín, hún Dísa, er látin langt fyrir aldur fram úr illvígum sjúkdómi. Við kynntumst fyrst sem stelpur í sömu sveit og síðan þá höfum við verið bestu vinkonur. Í gegnum árin brölluðum við margt skemmtilegt saman, fórum til dæmis saman til útlanda. Eftir að Dísa eignaðist Óla sinn og börnin fórum við báðar fjölskyldurnar stundum í ferðalög með tjaldvagnana. Þingvellir, eða öllu heldur bústaðurinn þeirra á Þingvöllum, var henni allt. Hún elskaði staðinn alveg síðan hún var barn með mömmu, pabba og systkinum sínum, frænkum og frændum hjá ömmu Dísu í litlu húsi á landareigninni. Ég hef verið svo lánsöm að hafa oft verið með Dísu og fjölskyldu í bústaðnum, meðal annars um verslunarmannahelgina til margra ára með fjölda ættingja og vina og alltaf jafn skemmtilegt. Dísu var margt til lista lagt. Hún var mjög góður kokkur. Sósur og salöt voru æðisleg hjá henni. Ekki var hún síðri bakari enda komin af bökurum. Má þá nefna heimiliskökuna hennar Dísu sem allir voru sólgnir í. Prjónakona var hún einnig og ófáar lopapeysurnar eftir hana. Þá var hún mikil saumakona, saumaði allt frá gardínum upp í skyrtur, kjóla og kápur. Dísa var einstök kona, dáð af flestum, í miklu uppáhaldi hjá frændsystkinunum í hinum bústöðunum á Þingvöllum, öllum krökkum og unglingum. Ég tala nú ekki um börnin í Húsaskóla sem mörg hver leituðu mikið til hennar er hún starfaði þar sem skólaliði og síðar ritari. Dísa var heilsteypt, ákveðin, heiðarleg, yndisleg og góð kona og ég svo lánsöm að hafa átt hana sem mína bestu vinkonu. Elsku Óli, Ólöf, Hjalti, Guðmundur og Harpa. Takk fyrir að fá að vera með ykkur síðustu vikurnar á sjúkrabeði Dísu. Það var mér mikils virði. Guð geymi ykkur öll.

Guðríður Sigurðardóttir (Dúa).