Móttakan Beata Wasala stýrir versluninni Vogus í Vogunum.
Móttakan Beata Wasala stýrir versluninni Vogus í Vogunum. — Ljósmynd/Elsa Lára Arnardóttir
Ný verslun var opnuð í Vogum á Vatnsleysuströnd á laugardaginn. Sveitarfélagið hefur gerði samning við fyrirtækið Grocery Store ehf. um leigu á verslunarrými í Iðndal 2 þar sem íbúar geta nú náð sér í helstu nauðsynjar

Anton Guðjónsson

anton@mbl.is

Ný verslun var opnuð í Vogum á Vatnsleysuströnd á laugardaginn. Sveitarfélagið hefur gerði samning við fyrirtækið Grocery Store ehf. um leigu á verslunarrými í Iðndal 2 þar sem íbúar geta nú náð sér í helstu nauðsynjar.

Samkeppni var haldin um nafnið á nýju búðinni og hlaut hún nafnið Vogus, en 50.000 króna gjafabréf í versluninni var í verðlaun fyrir besta nafnið.

Elsa Lára Arnarsdóttir, íbúi í Vogum, rekur sjúkranuddstofu við hliðina á Vogus og segir hún að versluninni hafi verið vel tekið í Vogunum.

„Ég er með sjúkranuddstofu þarna við hliðina á og við vorum tvær mættar þarna klukkan tíu. Það var þvílík stemmning þarna, það var troðið af fólki, ofboðslega gaman að sjá viðbrögðin hjá fólkinu. Við erum ekki búin að vera með verslun í nokkur ár,“ segir Elsa.

Hún segir að síðast hafi verið sjoppa í sveitarfélaginu sem lokaði í maí 2021.

„Þetta var eiginlega orðin sjoppa því þær voru búnar að minnka, þetta var verslun og svo drógu þær saman. Þannig við vorum farin að sakna þess að hafa verslun.“

Á heimasíðu Voga eru íbúar hvattir til þess að heimsækja verslunina og versla þar, enda sé það forsenda þess að rekstur hennar gangi upp. Afgreiðslutími verslunarinnar er frá klukkan 11 til 19, mánudaga til laugardaga, og á milli 11 og 17 á sunnudögum.
anton@mbl.is