50 ára Arnar og tvíburabróðir hans Bjarki ólust upp á Akranesi og eru Skagamenn í húð og hár. Akranes er mikill fótboltabær og bræðurnir voru ekki háir í loftinu þegar þeir voru byrjaðir að spila, fimm ára gamlir

50 ára Arnar og tvíburabróðir hans Bjarki ólust upp á Akranesi og eru Skagamenn í húð og hár. Akranes er mikill fótboltabær og bræðurnir voru ekki háir í loftinu þegar þeir voru byrjaðir að spila, fimm ára gamlir. „Ég var bara mjög heppinn. Ekkert sjónvarp á fimmtudögum og ekkert annað að gera en að spila fótbolta.“ Árið 1992 var áhrifaár í lífi tvíburanna því bæði unnu þeir Íslandsmeistaratitilinn með ÍA það ár og vöktu mikla athygli með meistaraflokki karla um sumarið. Um haustið fóru þeir svo í atvinnumennsku til Hollands, til liðsins Feyenord, þá nítján ára gamlir.

„Við bræðurnir vorum þar í rúmlega eitt og hálft ár og fórum svo til Þýskalands til Nuremberg.“ Þaðan fór Arnar til Frakklands en Bjarki var áfram í Þýskalandi. Síðan fór Arnar til Englands og spilaði í ensku úrvaldsdeildinni en Bjarki fór til Noregs. „Þetta var búinn að vera draumur okkar bræðra frá því vorum sex ára, svo þetta var mjög gaman.“ Hann segir þó að skemmtilegast hafi verið að vera í Bretlandi vegna frábærs liðsanda.

Núna þjálfar Arnar Víking. „Þetta er fimmta tímabilið mitt sem aðalþjálfari og það hefur gengið bara mjög vel.“ Það þarf ekki að spyrja að því að fótboltinn er eitt aðaláhugamálið en Arnar er líka kominn í golfið. „Sumrin eru algjör lúxus fyrir mann og martröð fyrir konuna,“ segir hann hress en segist þó vera að vinna í því að fá konuna með í golfið.

Fjölskylda Sambýliskona Arnars er María Builien Jónsdóttir, líf- og tölvunarfræðingur hjá Controlant, f. 1989, og þau eiga dótturina Avelín Emblu, f. 2018, og dótturina Kolbrá, sem þau misstu. Fyrir átti Arnar einnig Alex Bergmann, f. 1999, og Ísabellu, f. 2002.