Smárinn Sigtryggur Arnar Björnsson úr Tindastóli sækir að Árna Elmari Hrafnssyni úr Breiðabliki í leik liðanna í Smáranum í gærkvöldi.
Smárinn Sigtryggur Arnar Björnsson úr Tindastóli sækir að Árna Elmari Hrafnssyni úr Breiðabliki í leik liðanna í Smáranum í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Óttar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÍR-ingar eru í slæmum málum í Subway-deild karla í körfubolta eftir 87:91-tap á útivelli gegn Þór frá Þorlákshöfn í gærkvöldi. ÍR er fjórum stigum frá öruggu sæti í deildinni, þegar liðið á aðeins fjóra leiki eftir

Körfuboltinn

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

ÍR-ingar eru í slæmum málum í Subway-deild karla í körfubolta eftir 87:91-tap á útivelli gegn Þór frá Þorlákshöfn í gærkvöldi. ÍR er fjórum stigum frá öruggu sæti í deildinni, þegar liðið á aðeins fjóra leiki eftir.

ÍR verður því minnst að vinna tvo leiki af síðustu fjórum og treysta á hagstæð úrslit úr öðrum leikjum. Það gæti reynst þrautin þyngri, fyrir lið sem hefur aðeins unnið fimm leiki í vetur. Bendir því allt til að stórveldin ÍR og KR séu að fara að falla niður um deild.

Eins og oft áður sýndi ÍR flott tilþrif inn á milli og hefði með smá heppni getað landað góðum sigri. Þess í stað voru það Þórsarar sem unnu sinn fimmta leik í röð. Það er glæsilegt afrek hjá Þór, eftir að hafa verið í fallsæti stóran hluta tímabilsins. Liðið er að toppa á hárréttum tíma og gæti reynst efstu liðunum erfitt í úrslitakeppninni.

Vincent Shahid skoraði 28 stig og gaf níu stoðsendingar fyrir Þór. Hákon Örn Hjálmarsson skoraði 27 stig fyrir ÍR.

Tveggja stiga forskot Vals

Íslandsmeistarar Vals náðu tveggja stiga forskoti á toppi deildarinnar með 90:81-útisigri á Hetti á Egilsstöðum. Valsmenn hafa unnið tvo leiki í röð eftir skellinn gegn Þór frá Þorlákshöfn. Njarðvík getur jafnað Valsmenn á toppnum með sigri á Haukum í kvöld.

Höttur er ekki sloppinn við falldrauginn, því liðið er enn aðeins fjórum stigum fyrir ofan fallsæti. Pablo Bertone skoraði 24 stig fyrir Val. Timothy Guers skoraði 16 fyrir Hött.

Endurkomusigur Skagfirðinga

Tindastóll gerði góða ferð í Breiðholtið og vann sterkan 100:94-útisigur á Breiðabliki. Eftir kaflaskiptan leik voru Stólarnir betri á lokakaflanum og sigldu sætum sigri í höfn.

Með sigrinum er orðið nokkuð ljóst að Tindastóll verður með í úrslitakeppninni í vor, eftir þrjá sigra í röð. Breiðablik byrjaði tímabilið gríðarlega vel og var í toppbaráttu framan af, en eftir fjögur töp í röð er óvíst hvort liðið verði með í úrslitakeppninni, þar sem liðin fyrir neðan eru byrjuð að saxa verulega á. Antonio Woods skoraði 28 stig fyrir Tindastól og Everage Richardson gerði 23 fyrir Breiðablik.

Loksins vann Grindavík

Grindavík batt enda á fimm leikja taphrinu með 99:88-sigri á Stjörnunni á heimavelli. Með sigrinum fór Grindavík upp í sjöunda sæti og styrkti stöðu sína í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni til muna, á meðan Stjarnan er aðeins fjórum stigum fyrir ofan fallsæti og í hættu á að missa af sæti í úrslitakeppninni í fyrsta sinn í áraraðir.

Damier Pitts skoraði 26 stig fyrir Grindavík. William Gutenius gerði 22 stig fyrir Stjörnuna.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson