Vinna Skiptar skoðanir um styttingu.
Vinna Skiptar skoðanir um styttingu. — Morgunblaðið/Eggert
Starfsfólki Reykjavíkurborgar ber að stimpla sig út úr vinnu á meðan það fer til læknis og telst það þá eftir atvikum hafa ráðstafað styttingu vinnuvikunnar sem þeirri fjarveru nemur, að því er segir í svari við fyrirspurn Sósíalistaflokksins um…

Anton Guðjónsson

anton@mbl.is

Starfsfólki Reykjavíkurborgar ber að stimpla sig út úr vinnu á meðan það fer til læknis og telst það þá eftir atvikum hafa ráðstafað styttingu vinnuvikunnar sem þeirri fjarveru nemur, að því er segir í svari við fyrirspurn Sósíalistaflokksins um læknaheimsóknir á vinnutíma og styttingu vinnuvikunnar sem lagt var fram í borgarráði. Í fyrirspurninni segir að veruleikinn sé sá að dregið hafi verið af launum eða styttingu vinnuvikunnar hjá starfsfólki ef persónuleg erindi falla ekki á þann dag sem styttingin er á. Þessu er hafnað í svari mannauðs- og starfsumhvefissviðs. Segir að fjarvera vegna læknisheimsókna valdi ekki tekjutapi eða frádrætti frá föstum launum starfsfólks og að ekki hafi verið dregið af launum starfsfólks Reykjavíkurborgar vegna nauðsynlegra læknisheimsókna.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segist ekki kannast við að á þetta hafi verið reynt. Hún segir þó að svarið í borgarráði endurspegli ekki þá niðurstöðu sem innleiðingarhópur með fulltrúum Reykjavíkurborgar og stéttarfélaganna hafi komist að á sínum tíma. Þar hafi komið fram að læknisheimsóknir, jarðarfarir nákominna, mæðravernd og ungbarnavernd, og neyðartilfelli sem komi upp óvænt og þarfnast úrlausnar umsvifalaust, kölluðu ekki á að fólk þyrfti að stimpla sig út.

„Þetta var mjög langt samtal þar sem við vorum að reyna að gera greinarmun á milli þess sem er eitthvað sem maður stýrir ekki tímanum á og er ekki réttlætanlegt að bitni á fólki, hvorki á launum né út frá styttingu, eins og læknisheimsóknir. Þetta er eiginlega tilefni til að taka þetta samtal aftur upp við Reykjavíkurborg,“ segir Sonja Ýr.

Í viðverustefnu Reykjavíkurborgar stendur að starfsmenn skuli sinna persónulegum erindum utan vinnutíma, verði því við komið. Verði því ekki við komið sé það stefna Reykjavíkurborgar að starfsmenn geti sinnt þessum erindum eftir því sem aðstæður leyfa.

Höf.: Anton Guðjónsson