Árni Sigurbergsson fæddist 5. september 1932. Hann lést 15. febrúar 2023. Útför hans fór fram 2. mars 2023.

Pabbi hefur lokið drjúgu dagsverki og komið að kveðjustund. Það hjálpar í sorginni að pabbi var tilbúinn að kveðja, starfsgeta hans skertist umtalsvert eftir heilablóðfall í janúar 2022. Eftir það gat hann ekki sinnt ástríðu sinni að ganga á fjöll, þvælast um á hjólinu og smíða flugvélar.

Sterkust er myndin af pabba í bílskúrnum með Rás 1 Í BOTNI! Ýmist að smíða heila flugvél, gera við klesstan bíl eða sprungið reiðhjóladekk. Allt lék í höndum hans. Ef réttu verkfærin vantaði þá smíðaði hann þau bara. Pabbi var virkilega vandvirkur og gaf sér góðan tíma í verkefnin, í gríni sagðist maður ekki vilja hafa hann á tímakaupi en þegar upp var staðið fór heldur enginn óþarfa tími í að lagfæra eftir flumbruhátt eða handvömm. Allt var gert og valið til að endast.

Hann keypti handa mér heiðgult Peguet hjól, sterkt og endingargott en ekki flott að mínu mati. Það var alveg sama hvaða torfærur ég reyndi að fara eða „missa óvart“ hjólið niður tröppur, lítið sást á því, mér til mikillar mæðu, því mig langaði í venjulegt grátt DBS hjól eins og allir hinir áttu en að mati pabba voru þau hjól ekki eins vönduð – gula hjólið er enn þá til.

Pabbi var mjög hjálpsamur, það vantaði ekki, en átti stundum erfitt með að vera sammála manni hvernig ætti að gera hlutina. Hann gat verið með eindæmum þver og þrjóskur en aldrei með neinum látum, öskri eða bölvi. Hann stjórnaði frekar með þögninni sem fór ekki fram hjá manni. Pabbi hafði sérstakan húmor, það var t.d. ekki auðvelt fyrir vini manns að fá samband ef pabbi svaraði í heimasímann: „Er Sigga heima?“ „Jaaá“ ... bið... „get ég fengið að tala við hana?“ „Jaaá“ ...bið... „kannski núna?“ ...bið... „Jaaá“, og þá loks var náð í mann í símann. Sem unglingi fannst manni þetta skelfilegt en sem betur fer getur maður brosað að þessu núna með vinunum sem gáfust ekki upp á því að hringja í mann.

Hann var ávallt reiðubúinn að skutla og sækja, sem var ómetanlegt fyrir útivinnandi foreldra en eftir því sem krakkarnir urðu eldri urðu þau tregari að láta afa skutla sér. „Hann er alltaf að slökkva á bílnum og láta hann renna niður Ártúnsbrekkuna, segir að það spari bensín! Hann keyrir líka svo hægt að það er komin svaka bílalest á eftir okkur, allir flautandi og brjálaðir.“

Mörg yndisleg jól áttum við fjölskyldan saman með pabba og mömmu í Kjósinni. Við sóttum þau daginn fyrir Þorláksmessu og nutum þess að eiga samverustundir í rólegheitum yfir jólin. Þegar karlpeningurinn sat úti í fjósi að reyta rjúpur runnu upp úr pabba hinar ýmsu sögur um svaðilfarir fyrri ára. Síðan, þegar búið var að reyta og svíða, þá átti pabbi það til að hverfa og skella sér í fjallgöngu, helst ef það sást ekki milli bæja fyrir byl. Skilaði sér alltaf heim að lokum, miskaldur en alltaf ægilega ánægður eftir átökin, þó aðrir væru kannski ekki eins sáttir yfir hvarfi hans.

Nú er pabbi kominn í góðan félagskap vina og ættingja sem fóru á undan. Takk fyrir allt það góða sem þú gerðir fyrir mig og mína fjölskyldu, elsku pabbi.

Sigríður Klara Árnadóttir.

Elsku pabbi, þá ertu búinn að taka þitt síðasta flugtak.

Þegar heilsu þinni fór að hraka síðustu vikur óskaði ég þess að þú fengir langþráða hvíld en á sama tíma kveið ég sársaukanum sem fylgdi því að kveðja. Frá því að þú söngst „Þú ert yndið mitt yngsta og besta“ fyrir mig sem barn og þangað til ég fylgdi þér síðasta spölinn 15. feb. sl. hef ég upplifað gagnkvæma virðingu og vináttu sem er vandfundin. Þú varst svo miklu meira en pabbi - þú varst minn besti vinur, fyrirmynd og klettur í lífinu. Að hugsa til þess að ég eigi ekki eftir að hitta þig aftur er ótrúlega sárt en á sama tíma er ég óendanlega þakklát fyrir allan þann tíma sem við áttum saman.

Þegar ég var nýkomin með bílpróf kenndirðu mér að keyra í hálku með því að láta mig keyra útá frosið Hafravatn og þú kipptir í handbremsuna. Efast um að þetta þætti viðurkennd kennsluaðferð í dag en ég hef búið að þessu alla tíð. Þú þvældist með mig um allt - á skíði, skauta, í sund, Flórídaferðir, Esjuferðir - oftar en ekki í vitlausu veðri um hávetur þar sem þú bast okkur saman með reipi og með ísexi í hönd.

Seinna meir tengdumst við enn sterkari böndum í gegnum flugið. Þegar þú fórst að smíða fyrstu vélina - TF-ART kviknaði áhugi minn á flugi og þá var ekki aftur snúið. Þú þekktir landið betur en flestir og hafðir lítinn skilning á því að ég þekkti ekki öll landsins fjöll eins og þú.

Þú varst óþreytandi í hreyfingu og tvinnaðir hana iðulega inn í daglegt líf. Notaðir hvert tækifæri til að hlaupa á fjöll, hjóla og 34 sinnum tókstu þátt í Reykjavíkurmaraþoninu. Þú hugðir vel að mataræðinu og varst eflaust svolítiið á undan þinni samtíð í þeim efnum. Þetta átti örugglega sinn þátt í að þú varst alltaf 10-15 árum yngri en kennitalan sagði til um - þar til síðasta árið þegar aldurinn færðist hratt yfir.

Ég kunni alltaf að meta hversu vel við gátum þagað saman. Við gátum gengið á Esjuna án þess að segja orð eða setið saman í flugvél tímunum saman og samt var samveran svo mikil, það var svo margt sagt í þögninni og tengingin sterk. Við flugum mikið saman á TF-ART - bæði hringinn í kringum landið og yfir hafið árið 2015 þegar við fórum ásamt fleiri flughetjum á eins hreyfils flugvélum yfir Atlantshafið, alla leið til Frakklands og til baka. Þetta var ógleymanleg ferð og margar góðar minningar frá þessu ævintýri.

Takk fyrir allt sem þú hefur kennt mér og alla hjálpina í gegnum árin. Ég mun sakna þess að heyra dinglað 2x á dyrabjöllunni, halda þétt í höndina þína og sitja saman í þögninni. En á sama tíma reyni ég að finna huggun í öllum dýrmætu minningunum og trúa því að þú sért ekki langt undan.

Vertu ekki grátinn við gröfina mína

góði, ég sef ekki þar.

Ég er í leikandi ljúfum vindum,

ég leiftra sem snjórinn á tindum.

Ég er haustsins regn sem fellur á fold

og fræið í hlýrri mold.

Í morgunsins kyrrð er vakna þú vilt,

ég er vængjatak fuglanna hljótt
og stillt.

Ég er árblik dags um óttubil

og alstirndur himinn að nóttu til.

Gráttu ekki við gröfina hér –

gáðu – ég dó ei – ég lifi í þér.

(Þýð. Ásgerður Ingimarsdóttir)

Þín Bebba,

Berglind Heiða.

Árni afi var mikill útivistarmaður og þótti gaman að ganga á fjöll. Eftir að afi fór á eftirlaun byrjaði hann að ganga reglulega á Esjuna – á sunnudagsmorgnum. Hann fór jafnan alveg upp á Þverfellshorn – og skrifaði í gestabókina. Hann gáði alltaf hvort Símon hefði náð að vera á undan honum upp. Þetta gerði hann í örugglega 20 ár, allan ársins hring, í öllum veðrum.

Það væri gaman ef það væri til listi yfir öll fjöllin sem hann afi gekk á, jafnvel skrifað á umbúðir utan af rauðum Melroses-tepoka – sem hann notaði oft sem minnismiða.

Ég smitaðist snemma af þessum áhuga á fjallgöngum og hér er listi yfir fjöllin sem við gengum á saman:

Esjuna (margar ferðir), Búrfell í Grímsnesi (að minnsta kosti þrisvar), Úlfarsfell (margoft), Skessuhorn, Hestfjall í Grímsnesi – bæði til að smala og leita að rjúpu, Herðubreið – sem við klifum saman mánuði fyrir áttræðisafmælið hans – Vífilfell (sérstaklega góð ferð og fengum alveg einstaklega gott útsýni). Við gengum saman á Heklu þar sem við hlýjuðum okkur á afturendanum í volgri sprungu á toppnum, átum nestið og fórum síðan í kapphlaup niður fjallið. Við gengum líka með stórfjölskyldunni bæði Svínaskarð og Leggjabrjót. Að fjallgöngu lokinni fórum við afi alltaf í sund, í heita pottinn, og síðan fengum við okkur ís.

Afa þótti líka gaman að taka þátt í hlaupum en þótti óþarfi að æfa sig sérstaklega fyrir þau. Honum var sama um tímann sinn. Það sem skipti hann mestu máli var að klára hlaupið, komast í mark. Þá bættist annar verðlaunapeningur í safnið.

Þegar ég var sex ára, haustið 2002, hlupum við saman í Brúarhlaupinu. Við villtumst af leið og hlupum 5 km í staðinn fyrir 2,5 km. Afa þótti verst að fá ekki 5 km hlaupið metið því við vorum skráðir í styttri vegalengdina. Ég veit ekki hvort afi villtist eða hvort hann vildi gá hvað ég væri sprækur. Ég man bara hvað ég var ánægður að hafa komist alla leið og afi rifjaði oft upp þetta hlaup.

Það var skemmtilegt að fljúga með afa. Hann var mjög fær flugmaður og smíðaði flugvélar sjálfur í skúrnum hjá sér. Mér þótti sjálfsagt mál þegar ég var yngri að það væri alltaf flugvél í smíðum í bílskúrnum hjá afa og ömmu. Þegar við vorum í sumarbústaðnum okkar, þá hlupum við systkinin út á pall í hvert skipti sem við heyrðum í flugvél, til að gá hvort afi væri að fljúga yfir. Hann flaug þá lágt og ef hann sá okkur þá „vinkaði” hann okkur með vængjunum, með því að rugga vélinni, og við veifuðum til baka.

Nú, þegar afi er farinn frá okkur, langar mig að þakka fyrir allar góðu stundirnar og minningarnar, og fyrir að hvetja mig áfram í gegnum tíðina. Ég mun sakna þín afi.

Árni Thorlacius

Árni Sigurbergsson fæddist austur í Nesjum á mörkum tvennra tíma, hann var af þeirri kynslóð Íslendinga sem mundu bændasamfélag sem umbyltist á stríðsárunum í nútímaþjóðfélag vélvæðingar og glæstra vona, þjóðin öðlaðist sjálfstæði og nýir tímar breyttu öllu sem hugsast gat og fyrir bar. Kannski má segja að þessi kviki Skaftfellingur hafi verið holdgervingur þessa alls, sístarfandi og hamhleypa. Hann var dverghagur, lærði trésmíði við Iðnskólann í Reykjavík og lauk prófi með láði, lagði fyrir sig smíðar um stund en dróst svo út í að fljúga og varð Loftleiðamaður. Þegar ég kom til hans í síðasta sinn hafði ég orð á því við hjúkrunarkonu sem ég hitti fyrir að það væri dekrað við hann – „hann er vanur því“ svaraði konan, hafði þá verið flugfreyja með honum í mörg ár.

Eftir að starfsævinni lauk tók hann til við áhugamál sín, gerði upp gamlan vörubíl sem verið hafði í Svínafelli og smíðaði flugvélar, var við að smíða þá fjórðu þegar kraftana þraut. Hann var vakinn og sofinn yfir velferð afkomendanna og átti þar ófáar stundir við smíðar og viðgerðir af ýmsum toga.

Kynni okkar Árna tókust þegar Lárus, sonur Örnólfs móðurbróður míns, ruglaði saman reytum við Þóru dóttur þeirra Elínar og Árna. Ég varð hálfgerður fóstursonur Örnólfs og Guðnýjar Ellu á unglingsárunum þegar ég dvaldi hjá þeim fyrstu menntaskólaárin. Í Langagerði var mér strax tekið opnum örmum.

Árið 2008 gengum við saman á Hvannadalshnjúk, vorum sjö saman. Þá var Árni 75 ára gamall og samferðafólkið nokkuð með böggum hildar yfir þessu gamalmenni sem ráðist hafði til ferðarinnar. Þarna tókust kynni okkar fyrir alvöru. Við gengum rösklega og aldursforsetinn leiddi – hafði á orði að við hin mundum svo ná honum en ættum ekki að bíða hans heldur halda okkar striki. Til þess kom þó ekki, hann varð fyrstur upp og fyrstur niður og lék á als oddi enda á heimaslóð. Naut sín vel þennan ógleymanlega dag.

Árni drakk ekki áfengi og vildi hafa reglu á hlutunum. Hann var oft býsna ákveðinn og fylginn sér, gat sennilega verið þver á stundum. Það var ættarfylgja. Hann naut þess líka að eiga Elínu fyrir konu, hún er Seyðfirðingur með jafnaðargeð og þau höfðu sömu sýn á margt.

Eftir ferðina á Hvannadalshnjúk urðum við samferða á fleiri fjöll. Ógleymanleg var ferð á Herðubreið í tilefni að áttræðisafmæli Árna. Þá misstum við samferðamennirnir aldursforsetann fram úr okkur, Lárus fór á eftir honum af hefðbundinni leið upp móbergskletta en við Árni yngri og Rögnvaldur fórum hefðbundna leið og náðum þeim tengdafeðgum á tindi fjallsins.

Síðustu árin urðu Árna mótdræg um margt. Hann sá á eftir heilsunni þó lengi vel þráaðist hann við – stóð upp eftir hvert áfallið af öðru. Neitaði að játa sig sigraðan. Að leiðarlokum þakka ég liðnar stundir, holl ráð og trausta vináttu.

Elínu og fjölskyldu votta ég samúð mína.

Finnbogi Rögnvaldsson.